19.10.1954
Neðri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

39. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt, var á síðasta Alþingi samþ. allvíðtæk löggjöf um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þegar það frv. var til meðferðar hér í þessari hv. d., fluttum við 8. landsk. nokkrar brtt. við frv. Hin veigamesta þeirra fjallaði um stöðuveitingar hjá ríki og ríkisstofnunum, og freistuðum við þar að setja um það efni fastar reglur, sem við það voru miðaðar að verða veitingavaldinu nokkur leiðbeining og jafnframt nokkurt aðhald, svo að það yrði tryggt í löggjöf eftir föngum, að við embættaveitingar skyldi jafnan farið eftir dugnaði, menntun, reynslu og öðrum verðleikum umsækjenda, en ekki annarlegum sjónarmiðum. Okkur var að vísu ljóst, að ýmsum erfiðleikum var bundið að orða um þetta lagaákvæði, sem væru svo skýr og ótvíræð, að ekki yrði fram hjá þeim smogið, en við töldum, að nokkur trygging væri þó í því, ef löggjafinn hefði kveðið á um það, hverjum meginreglum skyldi fylgt í þessu efni. Reyndin varð því miður sú, að meiri hl. þessarar hv. deildar sá ekki ástæðu til að samþ. brtt. okkar. Skal ég engum getum að því leiða, hvað olli þeirri afstöðu.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er samhljóða tillögum þeim, er við fluttum á síðasta þingi um þetta atriði. Þó að okkur virtust ríkar ástæður liggja til þess í fyrra, að slíkri grein sem þessari væri bætt inn í lögin, virðast þær enn ríkari og augljósari nú. Flytjum við frv. í því skyni að gefa þeim flokkum, sem nú á þessu hausti hafa gagnrýnt harðlega allmargar stöðuveitingar, kost á að draga réttar ályktanir af nýliðnum atburðum og reisa með löggjöf við því nokkrar skorður, að handhafar veitingavalds meti að litlu eða engu verðleika umsækjenda. Meginatriði frv. þessa eru þau, sem nú skal greina.

Við ákvörðun um það, hver umsækjandi um stöðu skuli hreppa hana, er veitingavaldinu gert að skyldu að fara eftir því, hver verður með rökum talinn hafa til að bera mesta hæfileika til að hljóta stöðuna, svo sem dugnað, reglusemi og reynslu. Þegar um unga og lítt reynda umsækjendur er að ræða, skal tekið sérstakt tillit til námsafreka, en þá er eldri menn eiga í hlut, skal framar öðru farið eftir því, hverrar reynslu viðkomandi hefur aflað sér í sams konar eða sambærilegu starfi, einkum í opinberri þjónustu, og við hvern orðstír hann hefur gegnt starfinu.

Eins og kunnugt er, eru í ýmsum tilfellum ákveðnir aðilar, sem gera tillögur til veitingavaldsins um veitingu embætta. Samkv. frv. þessu eiga umsækjendur um stöður rétt á vitneskju um það, hvaða tillögur hafa verið gerðar um veitingu stöðu þeirrar, er þeir hafa sótt um. Ráðherra eða forstjóri, sem stöðu veitir, skal skyldur að gera skriflega og rökstudda grein fyrir veitingunni. Sé staða veitt öðrum en þeim, sem réttir tillöguaðilar hafa lagt til að fengju hana, á viðkomandi rétt á því að fá afrit af rökstuðningi ráðherra eða forstjóra um veitingu stöðunnar. Sama rétt skal sá umsækjandi hafa, sem telur fram hjá sér gengið, þegar staða er veitt án fenginnar tillögu um veitingu hennar.

Nefna mætti um það mörg dæmi, bæði frá gömlum og nýjum tíma, að við veitingu embætta hafa ríkt önnur sjónarmið en þau, sem vaka fyrir flm. þessa frv. Er þess skemmst að minnast, að nú á þessu hausti hefur hæstv. menntmrh. sætt harðri og í sumum tilfellum a. m. k. rökstuddri gagnrýni fyrir veitingar skólastjóra- og kennaraembætta. Ekkert blað hefur haft jafnmörg orð og stór um þessar embættaveitingar og blaðið Tíminn, aðalmálgagn Framsfl. Það blað hefur birt um þau efni hverja greinina á fætur annarri. Mætti því ætla, að hv. alþm. þess flokks væri nú orðin ljós nauðsyn þess, að lögfestar yrðu reglur um stöðuveitingar, — reglur, sem að því miðuðu að reisa við því nokkrar skorður, að ráðherrar fari gálauslega eða ranglátlega með veitingavald sitt. Okkur flm. er það að vísu ljóst, að mjög erfitt er að fyrirbyggja með löggjöf, að hlutdrægni verði beitt í þessum efnum, meðan veitingavald er í höndum pólitískra ráðherra, sem telja sér sæma að meta að litlu verðleika umsækjenda.

Ef til vill sér n. sú, er væntanlega fær mál þetta til meðferðar, einhverjar leiðir til að búa betur og traustar um hnúta en gert er í frv. þessu enn sem komið er, og væri þá vel.

Frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins mun á síðasta þingi hafa verið í fjhn. beggja deilda, en þar sem þetta frv. fjallar á engan hátt um fjárhagsmál, sé ég ekki ástæðu til að gera till. um fjhn., en virðist, að þetta mál mundi einna helzt eiga heima í allshn. Geri ég það að till. minni, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.