21.10.1954
Neðri deild: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

50. mál, tollskrá o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar þessu frv. var útbýtt meðal okkar þingmanna fyrir fáum dögum, hélt ég satt að segja í fyrstu, að einhverjum hinna ágætu starfsmanna þingsins hefðu orðið á svolítið óvenjuleg. en jafnframt nokkuð spaugileg mistök. Ég hélt sem sé, að skjalaverði hefði orðið á að útbýta gömlum þingskjalabunka frá því í fyrra. Slíkt hefði verið mannlegt og í sjálfu sér ekkert við því að segja. Ástæðan var auðvitað sú, að í fyrra lá hér fyrir hv. þd. frv., sem var svo að segja nákvæmlega eins og þetta og var flutt af mér og hv. 3. Landsk. þm. En þegar ég leit svolítið nánar á frv. sjálft, sá ég, að ef um mistök hefði verið að ræða, voru þau svolítið alvarlegri, vegna þess að niður hafði fallið fyrsti liður frv., sem var um það, að nótur, nótnabækur og nótnablöð, skyldu vera tollfrjálsar, og það þótti mér heldur verra, ef um misprentun hefði verið að ræða, því að það var verulegt atriði í frv. í fyrra, að nótur og nótnabækur skyldu einnig vera tollfrjálsar, ekki hljóðfærin ein. Við enn nánari skoðun á frv. sá ég þó, að þessu var ekki þannig varið, heldur að flm. voru nú aðrir en þeir í fyrra. Hér var því ekki um nein mistök að ræða, heldur endurflutning frv., sem við fluttum í fyrra. Um þetta er í sjálfu sér ekki nema hið allra bezta að segja, að frv. skuli bætast nýir liðsmenn, og sé ég enga ástæðu til að harma það, heldur þvert á móti. En í því sambandi vil ég þó rifja upp, hver urðu örlög þessa máls í fyrra.

Ég átti sæti í þeirri n., sem fékk frv. okkar til meðferðar, hv. fjhn., og var þar einn stjórnarandstöðuliða. Í n. fékkst enginn hinna fjögurra fulltrúa stjórnarflokkanna til þess að ljá frv. liðsyrði og hlaut það því ekki endanlega afgreiðslu í nefndinni. Þetta vissi ég, þegar frv. um breyt. á tollskránni kom til afgreiðslu hér í hv. d. Þess vegna fluttum við flm. frv. einnig till. um breytingar á tollskrárfrumvarpinu, nákvæmlega í þessa átt, og komst hún til atkv., en því miður fékk hún mjög daufar undirtektir. Fyrri liður till. var felldur með 18:6 atkv., — aðeins 6 greiddu því atkvæði, að tollfrelsi hljóðfæra yrði lögleitt, — síðari liðurinn var felldur með 20:7 atkv. Ég man ekki gerla, hvernig fundarsókn var á þessum fundi, en þó minnir mig, að hún hafi verið þannig, að aðeins einn úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar hafi getað greitt tollfrelsi hljóðfæra atkvæði. Þá hefur þó a. m. k. það skeð síðan í fyrra, að annar af hinum mörgu stuðningsmönnum stjórnarinnar hefur skipt um skoðun og telur núna sanngjarnt og eðlilegt, að tollfrelsi hljóðfæra sé lögleitt, því að nú eru flm. þessa máls tveir úr liði stjórnarsinna. Nú vona ég, að framþróunin á næstunni verði ekki svona hæg, að það þurfi heilt ár eða hartnær til þess að fjölga stuðningsmönnum úr stjórnarliðinu um einn, — vona, að þessir tveir stjórnarsinnar reynist nú það miklir áhrifamenn í sínum flokki og helzt í hinum stjórnarflokknum líka, að málinu verði nú borgið á þessu þingi.

En til viðbótar þessu vildi ég benda á, að það er mjög æskilegt, að upp verði tekið í frv. það ákvæði, sem við í fyrra höfðum í frv. okkar, að nótnabækur og nótnablöð séu einnig tollfrjáls eins og hljóðfærin. Eins og hv. flm. tók fram, er í gildandi lögum um tollskrá svo kveðið á, að erlendar bækur séu tollfrjálsar. Þó er gert ráð fyrir því, að tekinn sé tollur af bókum, sem íslenzkir útgefendur láta prenta erlendis. Þessi bókatollur á íslenzkum bókum, prentuðum erlendis, er eins konar verndartollur fyrir íslenzka bókagerð. Þessi verndartollsákvæði hafa einnig verið látin gilda um íslenzkar nótur. Sá er þó hér á grundvallarmunur, að íslenzkar bækur er hægt að prenta hér á Íslandi, og má því til nokkurs sanns vegar færa, að ekki sé óeðlilegt að vernda þá bókagerð með nokkrum tolli á íslenzkar bækur, ef þær eru prentaðar erlendis. Hins vegar verða íslenzkar nótur mjög torveldlega prentaðar hér heima. Engin íslenzk prentsmiðja hefur yfir að ráða fullkomnum tækjum til að prenta nótur, þær verður því að prenta erlendis, og þess vegna er mjög óeðlilegt að láta þessi tollverndarákvæði gilda um nótur einnig. Einhver heimild mun vera til í lögum fyrir því að veita undanþágu frá tolli af íslenzkum nótum, og stundum mun þeirri undanþáguheimild hafa verið beitt, en það er ekki nægilegt. Er íslenzkum tónskáldum, sem sum hver hafa dvalið lengi og dvelja enn erlendis, að þessu mikið óhagræði, að þurfa alltaf undir högg að sækja hjá ríkisvaldinu hér um það, hvort af verkum þeirra þurfi að greiðast tollur, þegar þau eru flutt til heimalands þeirra.

Þessu tel ég því mjög æskilegt að breytt verði, og fari svo. að málinu verði vísað til hv. fjhn., þar sem ég á sæti, þá mun ég beita mér fyrir því og vænti þess, að flm. frv. og allir þeir, sem þeir vonandi vinna nú til fylgis við málið, ljái þessu atriði einnig liðsinni.