22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

51. mál, menntun kennara

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. var að bera mér það á brýn áðan, að þetta mál væri eingöngu flutt til þess að koma húsmæðrakennaraskólanum til Akureyrar. En sannleikurinn í málinu er sá, að það hafa ýmsir litið svo á, — og meðal þeirra er ég, — að húsmæðraskólinn á Akureyri væri einmitt hentugur fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands og það væri ástæða til þess að flytja hann til Akureyrar, þar sem húsmæðrakennaraskólinn yrði húsnæðislaus innan skamms. Hins vegar hef hvorki ég né hv. meðflm. minn talið æskilegt, að við værum beinlínis að grípa fram fyrir hendurnar á fræðslumálastjórninni. Við höfum litið svo á, að það væri réttast og eðlilegast í þessu máli, að fræðslumálastjórnin ákvæði sjálf, hvar skólinn ætti að vera, og það er einmitt stefnt að því með þessu frv., að fræðslumálastjórnin eftir nákvæma yfirvegun ákveði það sjálf, hvort ástæða sé til þess að flytja skólann úr núverandi húsnæði og þá hvert.

Ég er satt að segja hissa á því, að hv. 1. þm. Árn. skuli mælast til þess, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj. Frv. sjálft felur það í sér, að einmitt ríkisstj. sjálf kemur til með að fjalla um það. Það er einmitt hæstv. menntmrh., sem kemur til með að ákveða, hvort ástæða sé til þess að flytja skólann burt. Af þeirri ástæðu er till. hv. þm. algerlega óþörf, og ég er satt að segja steinhissa á því, að hann skuli koma með hana hér fram í sambandi við þetta mál.

Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi leyfa mér að leiðrétta. Hv. þm. leggur mjög mikið upp úr því, að hér í Rvík sé aðstaða fyrir húsmæðrakennaraskólann til þess að hafa námskeið fyrir nemendur sína. Ég vil benda á það, að á Akureyri er starfandi mjög stór gagnfræðaskóli og þar er einnig starfandi mjög stór menntaskóli, auk þess fleiri skólar. Mér skilst, að þar sé nákvæmlega sama aðstaða og hér í bænum. Hún er að vísu smærri, en það eru ákaflega svipuð skilyrði. — Þá leggur hann mjög mikið upp úr því, að stúlkurnar geti verið áfram að sumrinu í hans ágæta kjördæmi, Árnessýslu, eða á Laugarvatni. Ég get upplýst það, að verði skólinn fluttur til Akureyrar, þá er þar einmitt ágæt aðstaða til hvers kyns garðræktar. Við skólahúsið á Akureyri er ágæt lóð, og þar er hægt að hafa alla þá garðyrkju, sem ég geri ráð fyrir að nauðsynlegt sé fyrir skólann að hafa. En verði litið svo á, að það sé nauðsynlegt og æskilegt fyrir nemendur skólans að hverfa burt úr bænum að sumrinu til, þá getur hann alveg eins farið að Laugarvatni, jafnvel þó að hann starfi yfir veturinn á Akureyri. Ég vil einnig benda á það, að hann gæti undir svipuðum kringumstæðum einnig flutzt að Laugum. Þar er nægur jarðhiti, og ég geri ráð fyrir því, að ekki sé síður góð aðstaða til garðræktar að Laugum í Reykjadal heldur en á Laugarvatni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið, en ég vil endurtaka það, að ég er hissa á þessari till. hv. þm., vegna þess að frv. felur það sjálft í sér, að hæstv. ríkisstj: kemur sjálf til með .að taka ákvörðun um það. hvort skólinn verði fluttur úr núverandi. húsakynnum.