22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

51. mál, menntun kennara

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, að hv. 1. þm. Árn. hélt hér mjög skelegga ræðu, eins og hans var von og vísa, gegn því, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands væri fluttur til Akureyrarkaupstaðar. Hér liggur það mál alls ekki fyrir. Það hefur engin till. verið borin fram um það að flytja húsmæðrakennaraskólann til Akureyrar. Hér er til umr. frv. um það að heimila fræðslumálastjórninni að undangenginni rannsókn á aðstöðu til skólahaldsins að ákveða, hvar skólinn skuli staðsettur.

Ástæðan til þess, að ég hef gerzt flm. að þessu frv., er sú, að mér er stöðu minnar vegna vel kunnugt um það, að brýna nauðsyn ber til þess, að húsmæðrakennaraskólinn hverfi innan skamms úr því húsnæði, sem hann hefur undanfarin ár eða frá stofnun sinni haft til afnota í háskólabyggingunni. Það hefur orðið starfsemi háskólans til allmikils trafala að þurfa að hýsa þennan skóla, þótt samvinna við stjórnendur hans og nemendur hafi frá því fyrsta verið með hinum mestu ágætum. Lengi vel var vist skólans í stofnuninni ekki til neins baga, heldur þvert á móti. En sökum mikils og örs vaxtar háskólans, sérstaklega vegna upptöku tannlæknakennslu og verkfræðikennslu, er háskólanum fyrir alllöngu orðin brýn nauðsyn á því að fá það húsnæði til eigin nota, sem húsmæðrakennaraskólinn nú hefur, og það munu forráðamenn húsmæðrakennaraskólans viðurkenna fúslega og hafa, að því er mér skilst, lýst sig reiðubúna til þess að rýma húsnæðið innan ákveðins tíma.

Það er vegna þess arna, sem ég hef gerzt meðflm. að þessu frv. Ég vil ekki þurfa að bera ábyrgð á því, að húsmæðrakennaraskólinn standi fyrirvaralaust alveg á götunni, ef svo mætti segja, þegar hann þarf nauðsynlega að víkja úr húsnæðinu í háskólakjallaranum. Ef löggjafarsamkoman léti sig þetta mál engu skipta og það væri ákveðið, að húsmæðrakennaraskólinn skyldi skilyrðislaust vera í Rvík, þá sé ég ekki annað en að sú skylda hvíldi á hæstv. ríkisstj. að byggja yfir húsmæðrakennaraskólann hér í Rvík samstundis og hann yrði að víkja úr húsnæðinu í háskólakjallaranum. Mér finnst það vera til fullmikils ætlazt af hæstv. ríkisstj., ef leggja á þá skyldu á herðar hennar að verða svo að segja fyrirvaralaust að koma upp stórbyggingu, sem mundi kosta milljónir króna, yfir skólann hér í Rvík, ef stjórnin sjálf teldi sig geta komið honum annars staðar fyrir með minni tilkostnaði. En þetta tel ég hvorki menntmn. né Alþingi í heild hafa aðstöðu til að dæma um og dómsvald um þetta bezt vera komið hjá ríkisstj. sjálfri. Ef ríkisstj. er reiðubúin til þess að byggja yfir húsmæðrakennaraskólann hér í Reykjavík, þá hún um það. Ef fjárveitingavaldið er reiðubúið til þess að veita þær milljónir til þess. sem til þess mundi þurfa, þá það. En ég tel sjálfsagt, að ríkisstj. hafi í þessum efnum óbundnar hendur og fái það sem fyrst, til þess að hún hafi nægan tíma til að taka ákvörðun um. hvað hún vill gera í málinu, hvort hún vill leggja í nýja byggingu hér í Rvík eða hvort hún vill velja húsmæðrakennaraskólanum stað annars staðar. Þess vegna tek ég alveg undir það, sem segir í nál. hv. menntmn., sem var einróma um þetta, og fram kom í mjög glöggri ræðu frsm. n., þar sem það er sagt, að þar sem vitað sé, að skólinn verði á næstunni að flytjast úr því húsnæði, sem hann núna hefur, en n. sé ekki dómbær um það, hvar heppilegast sé að láta skólann hafa aðsetur sitt, þá sé eðlilegt, að það vald sé lagt á hendur ríkisstj. sjálfrar og hún geti tekið um það ákvörðun annaðhvort með því að byggja yfir skólann hér í Rvík eða — ef hún ekki treystir sér til þess — þá að velja honum stað utan Reykjavíkur, ef hæfilegt húsnæði þar reyndist fyrir hendi.