22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2116)

51. mál, menntun kennara

Jónas Rafnar:

Það eru aðeins nokkur orð, herra forseti. Megintilgangurinn með flutningi þessa máls hefur alltaf verið sá að skapa fræðslumálastjórninni möguleika til þess að ákveða skólanum stað, þar sem hentast er. Eins og lögin eru í dag, er fræðslumálastjórnin bundin við það að hafa skólann starfandi hér í Reykjavík. Eina ákvæðið í frv., sem felur í sér einhverja breytingu frá því, sem nú er, er það, að fræðslumálastjórnin eftir nákvæma athugun geti ákveðið, hvar skólinn eigi að vera. Mér skilst því, að till. frá hv. 1. þm. Árn. sé algerlega óþörf. Og satt að segja á ég mjög erfitt með að skilja, hvers vegna hann kemur með hana. Þetta virðist vera ákaflega ljóst, Með frv. er verið að skapa fræðslumálastjórninni rýmri hendur en hún hefur haft áður. Og ég vil benda á það, að eins og lögin eru í dag, þá er fræðslumálastjórnin bundin við að hafa skólann starfandi hér í Reykjavík, enda þótt einhvers staðar annars staðar væru betri skilyrði til þess að hafa skólann en þar, sem hann starfar nú í dag.