22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

51. mál, menntun kennara

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var borið hér fram á síðasta þingi. Það fór þá í gegnum umr. hér í þessari d. án þess að það kæmi í ljós, að fyrir flm., öðrum þeirra a. m. k., vekti annað en að flytja húsmæðrakennaraskólann til Akureyrar. Við umr. um frv. í Ed. gaf hæstv. menntmrh. þá yfirlýsingu, að yrði frv. samþ., þá mundi hann líta þannig á málið, að til þess væri ætlazt, að skólinn yrði fluttur til Akureyrar, og það mundi gert. Eftir þessa yfirlýsingu ráðh. dagaði málið uppi í Ed.

Það hefur komið hér greinilega í ljós, að fyrir hv. fyrra flm. frv. vakir enn hið sama og í fyrra, að skólinn skuli fluttur til Akureyrar. Þess vegna hefði mér þótt afar æskilegt, áður en atkv. verða greidd um þetta mál, að hæstv. menntmrh. gæfi hér yfirlýsingu um, hvort hans afstaða til málsins væri óbreytt frá því í fyrra eða ekki.