29.11.1954
Neðri deild: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

51. mál, menntun kennara

Kristin Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hélt ég því fram, að tilgangurinn með þessu frv. væri sá að flytja Húsmæðrakennaraskóla Íslands út á land, og nefndi ég þá helzt Akureyri í því sambandi. Það hefur nú komið fram við umr., að þetta er einmitt mergurinn málsins. Hv. þm. Ak. talaði þannig í sinni ræðu við 2. umr. þessa máls, að þetta liggur alveg ljóst fyrir.

Mig langar til að nota þetta tækifæri til þess að leiðrétta misskilning, sem mér fannst koma fram í fyrrgreindri ræðu hv. þm. Ak. Hann sagði, að eitt af aðalrökunum, sem ég teldi fram til stuðnings því, að skólinn eigi að vera hér í Rvík, væri, að nemendurnir hefðu greiðan aðgang að leiksýningum. Að vísu er þetta tekið fram í skýrslu skólanefndarinnar, en ég nefndi þetta ekki einu orði, því að þrátt fyrir það að góðar leiksýningar geta haft menntandi og þroskandi áhrif á unga sem gamla, þá tel ég þetta ekki stórvægilegt atriði í menntun húsmæðrakennara. Það, sem ég sagði, var orðrétt: „Er nauðsynlegt, að nemendum gefist kostur á að þroskast og auka þekkingu sína á sem flestum sviðum, með því t. d. að skoða stofnanir og verksmiðjur, sem framleiða matvæll, söfn og ýmiss konar sýningar, sem mestur og beztur aðgangur er að hér í Rvík.“ En með sýningum á ég einkum við fræðslusýningar, svo sem iðnsýningar, garðyrkjusýningar, matvæla- og vörusýningar og fleiri þess konar sýningar, sem beinlínis koma við starfi húsmæðrakennara. Slíkar sýningar eru oftast haldnar hér í Rvík og því ekki óeðlilegt, að á það sé minnzt, þegar staðsetning húsmæðrakennaraskólans er til umræðu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Það er hvort sem er sjáanlegt, hvernig fer um afgreiðslu þessa máls hér í hv. neðri deild.