26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2138)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Það er engin furða, þó að því sé hreyft hér á hv. Alþingi, hvernig útvega eigi fjármagn til byggingarframkvæmda. Eitt hið mesta vandamál, sem fólkið í bæjunum hefur átt við að stríða að undanförnu, er það, hvernig það hafi átt að fá peninga til þess að byggja þak yfir höfuðið á sér. Og satt að segja er það furðulegt, að lánsstofnanir landsins, bankarnir, hafa talið það utan við verksvið sitt að lána til íbúðabygginga. Ég er nú ekki kunnugur þessum málum, hvernig þau eru erlendis, en ég held, að það sé varla hægt að benda á eitt einasta land, þar sem ekki eru til einhverjar lánsstofnanir, sem lána út á húsbyggingar í þéttbýlinu.

Hér á landi er tiltölulega greiður aðgangur fyrir menn í sveit að eignast eigið húsnæði. Þar eru sjóðir, sem lána hlutfallslega út á hvert einasta hús, sem byggt er. En því er alls ekki til að dreifa í bæjunum. Þar er bara eitt nei, þegar komið er í lánsstofnanirnar. Við lánum ekki út á íbúðabyggingar, — það er svarið, sem fólkið fær.

Ég ætla mér nú ekki að fara að ræða það mál, sem hér liggur fyrir, efnislega. Ég geri ráð fyrir því, að það verði frekar gert við síðari umr. þessa máls. En það er eitt atriði, sem ég vildi benda á strax. Eins og stendur er starfandi nefnd, sem hæstv. ríkisstj. skipaði á sínum tíma og átti að athuga möguleikana á lánsfjárútvegun til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum. Og það var einmitt eitt að þeim atriðum, sem núverandi stjórnarflokkar sömdu um á sínum tíma, þegar ríkisstj. var mynduð, hvernig útvega ætti fé til íbúðabygginga.

Mér er ekki kunnugt um, að þessi n. hafi enn þá lokið störfum, og það liggur ekki neitt fyrir enn þá um það, hvaða álit hún vilji gefa upp eða hvaða leiðir hún telji færastar til þess að leysa þetta mikla vandamál. Og ég vil núna undirstrika það, að mér finnst ákaflega erfitt að taka afstöðu til þessa máls, sem nú liggur fyrir, meðan ekkert er vitað um það, hvernig eigi að leysa þetta mikla mál í heild. Það er út af fyrir sig miklu meira atriði, hvort hægt sé að leysa þetta á breiðum grundvelli, heldur en að taka út úr tiltölulega þröngan hóp manna og reyna að finna einhverja lausn fyrir þá eina. Með þessum orðum mínum á ég ekki við, að það sé ekki full ástæða til þess að hjálpa því fólki, sem býr í smærri kauptúnum. En ég tel, að þörfin sé svo brýn í þessu máli, að það verði fyrst og fremst að einblína á heildarlausn málsins, og ég treysti því, að núverandi ríkisstj. eða þeim tveimur flokkum, sem að henni standa, takist að leysa þetta mál til frambúðar.