26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2139)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil mega vænta þess, þó að nokkurs misskilnings hafi gætt í ræðum þeirra hv. þm., sem talað hafa nú síðast, að þegar til kemur, verði stuðningur þeirra og annarra hv. þm. meiri við málið en þessar ræður virðast benda til.

Báðir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, hv. 3. landsk. og hv. þm. Ak., hafa rætt nokkuð um byggingarmálin almennt. Ég tel, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gefi ekki beinlínis tilefni til þess. Þessu frv. er ekki ætlað að verða nein lausn á byggingarmálum landsins almennt, og það mun rétt vera, sem hv. þm. Ak. gat hér um áðan, að starfandi sé nefnd að þeim málum, skipuð af hæstv. félmrh. nú fyrir ekki löngu. Sú n. mun ekki hafa haft langan tíma til starfa enn sem komið er, enda ekkert álit eða tillögur frá henni komnar, sem heldur er ekki að vænta, því að byggingarmálið í heild er að sjálfsögðu mjög umfangsmikið mál og vandasamt, svo sem líka auðsætt má vera af því, hve lengi lausn þess hefur dregizt. Þó að skipuð hafi verið þessi n., sem hefur með höndum athugun byggingarmálanna í heild, þá töldum við flm. ekki ástæðu þess vegna til að láta niður falla að þessu sinni flutning þessa frv., sem eins og ég sagði í öndverðu hefur verið flutt á tveim þingum áður, því að þetta frv. tekur aðeins til nokkurs hluta byggingarlánamálsins. Og það er vel hægt að leysa þann hluta málsins, þótt bið kunni að verða á heildarlausninni.

Hv. þm. Ak. virtist telja erfiðleika á því að afgreiða byggingarlánamál þorpanna út af fyrir sig. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það þyrfti að leysa málið á breiðum grundvelli og ekki að taka út úr hóp manna. Þessi hópur, sem hér er um að ræða, er nú að vísu nokkuð stór. Það, sem fyrir honum vakir, er sýnilega það, og mér er ekki grunlaust um, að það vaki líka fyrir hv. 3. landsk., að málið eigi aðeins að leysa á þessum breiða grundvelli, þannig að sett verði upp einhver allsherjar lánsstofnun fyrir kaupstaði og kauptún, sem verði eitthvað fullkomnari en þær lánsstofnanir, sem til þessa hafa starfað að byggingarmálunum. Þetta er ekki skoðun okkar flm. þessa frv. Okkar skoðun er sú, að kauptúnin eða þorpin þurfi á sérstakri lánsstofnun að halda. Og ég hef í framsögu minni gert nokkra grein fyrir því, hvaða ástæður við teljum til þess vera, og það er sömuleiðis nokkuð rætt í grg. frv. Við teljum, að stofna þurfi sérstaka byggingarlánastofnun fyrir kauptúnin og þorpin. Við teljum það lakari lausn, ef þeirra mál yrðu leyst á þeim breiða heildargrundvelli, sem hér var verið að tala um áðan. Það, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur, er að koma á fót þessari sérstöku byggingarlánastofnun fyrir þorpin og kauptúnin. Við teljum það svo mikið atriði, að byggingarlánastofnun þeirra verði komið á fót sem sérstakri stofnun, að það sé af þeim ástæðum rétt að afgreiða þetta mál út af fyrir sig, þó að sú lánsstofnun yrði e. t. v. ekki í byrjun með því sniði og með þeim fjárhagsmöguleikum, sem við hefðum kosið, þá sé það samt tilvinnandi til þess að fá henni komið á fót. En það er þetta, sem a. m. k. hv. þm. Ak. og jafnvel hv. 3. landsk. virtist telja eitthvað varhugavert. Ég vil þó ekki fullyrða það að svo stöddu um hv. 3. landsk., en hjá hv. þm. Ak. virtist mér það koma fram. Það er það, sem hann virðist vera á móti, og vildi ég vænta, að sú afstaða yrði ekki almenn.

Hv. 3. landsk. var að tala um það, að mér skildist, að hann vildi meta það, væri e. t. v. ekki búinn að gera það upp við sig, hvort nokkur hagnaður yrði að þessu frv., ef að lögum yrði, fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli. Það getur nú að sjálfsögðu ekki verið neinn vafi á því, að fyrir þorpin, sem þetta frv. tekur til, er ávinningur að því, að slíkri lánsstofnun, sem þar er um að ræða, verði komið á fót með því fjármagni, sem þar er gert ráð fyrir. Um það þarf hv. 3. landsk. ekki að vera í neinum vafa, vegna þess að með þessu frv. er ekki neitt rýrður réttur þessara byggðarlaga til lána úr öðrum eldri lánsstofnunum. Hér er um viðbót að ræða. Hann talaði um það, að kauptúnahreppar hættu að greiða í byggingarsjóð verkamanna og njóta lána úr honum. En samkv. 10. gr. frv. er lagt á vald hreppanna sjálfra, hvort þeir vilja halda áfram að greiða eða ekki. (Gripið fram í: Þeir eiga kannske valið á milli?) Nei, það er ekkert val, því að þeir geta átt þess kost að fá hlunnindin á báðum stöðum. En ef þeim þykir ofrausn að greiða í báða sjóðina, þá geta þeir látið niður falla að greiða í byggingarsjóð verkamanna og mundu þá ekki heldur njóta hlunninda úr honum. (Gripið fram í.) Um rétt til lána úr smáíbúðadeildinni er ekkert rætt í þessu frv., ekki heldur um rétt til lána úr veðdeild. Hann yrði vitanlega sá sami og áður, þó að þetta frv. yrði samþykkt. En reynslan er sú, og það geri ég ráð fyrir að allir hv. þm. viti, sem hafa kynnt sér það mál, að þessir staðir, þessi fámennu kauptún eða þorp hafa átt ákaflega erfitt með að fá lán, hvort sem er úr veðdeild eða byggingarsjóði verkamanna. Þeir eru teljandi verkamannabústaðirnir, sem byggðir hafa verið í kauptúnum og þorpum landsins. Og þau eru teljandi veðdeildarlánin, sem veitt hafa verið á þessa staði eða veitt voru á meðan veðdeildin hafði fé. Þessir staðir hafa setið á hakanum — gert það lengi — við úthlutun byggðarlána, og það er hætt við, að þeir geri það alltaf, ef þeir eiga að sækja sín byggingarlán til sömu stofnana og fjölmennið í kaupstöðunum. Það er þetta, sem ég vildi gjarnan að hv. þingmönnum yrði sem allra ljósast, ef menn hafa ekki gert sér það ljóst áður, að megintilgangur okkar með frv. er að koma upp þessari sérstöku byggingarlánastofnun fyrir kauptún og þorp.

Ég held, að það hafi svo ekki verið fleira, sem ég hef ástæðu til að taka fram út af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið. En það, sem ég nú hef sagt, þótti mér rétt að taka fram nú þegar málinu til skýringar. Ég vil aðeins bæta því við út af því, sem hv. 3. landsk. sagði um það fjármagn, sem byggingarsjóður kauptúna mundi hafa handa á milli til starfsemi sinnar, að um það er að sjálfsögðu ekkert hægt að ráða af því frv., sem hér liggur fyrir, hvað það fjármagn yrði í reyndinni mikið. Hv. þm. getur ekki reiknað það út. Hér er aðeins gert ráð fyrir ákveðinni stofnfjárupphæð og heimildum til þess að leggja á kauptúnahreppana með samþykki 2/3 þeirra þá kvöð að inna af hendi nokkurt framlag árlega. En það er einnig gert ráð fyrir því, að stofnunin taki lán til starfsemi sinnar og að ríkisábyrgð sé veitt fyrir þeim lánum. Hvernig það gengi að fá lán til stofnunarinnar með þessari ríkisábyrgð, um það verður vitanlega ekkert sagt fyrir fram. Það mun sýna sig, þegar þar að kemur, og mun það þá í því sambandi koma í ljós, eins og ég sagði í upphafi, hvaða vaxtarmöguleika svona stofnun hefur og hver þörf er fyrir hana.