26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil ekki halda því fram, að 3. landsk. hafi misskilið þetta mál frá rótum, en hann hefur áreiðanlega misskilið ákaflega mikið af því. Ég held, að hv. þm. hafi ekki gefið sér nægan tíma til þess að kynna sér þá aðstöðu, sem þeir menn hafa í þorpunum, sem nú eru og undanfarið hafa verið að reyna að koma sér upp íbúð. Það getur verið gott og blessað fyrir menn í þorpunum að lesa lög um byggingarsjóð verkamanna, sem hv. 3. landsk. var að tala hér um áðan. Það getur verið gott og blessað fyrir þá að gera það, þar sem stendur, að það sé hægt að veita úr þessum byggingarsjóði t. d. 60 ára lán með hér um bil engum vöxtum og kannske mestan hluta byggingarkostnaðarins. Það getur verið ljómandi gott fyrir þessa menn að fá að lesa þessi lög. Það er mjög ánægjulegur lestur út af fyrir sig. Og það getur líka verið mjög ánægjulegt fyrir hann og aðra að segja frá því, að þessi lög séu til. En ég hef kynnt mér það dálítið, hvers góðs þorpin og kauptúnin hafa notið af þessum lögum. Þau hafa orðið kaupstöðunum að töluverðu gagni, — það er rétt, þótt það mætti meira vera, — þar á meðal þeim kaupstað, sem hv. þm. hefur verið fulltrúi fyrir og þekkir bezt til í. Þar hafa verið byggðir verkamannabústaðir. En hv. þm. var að tala um það áðan, að minna mætti nú ekki vera en að byggð væri ein íbúð árlega í hverju þorpi. Nú vildi ég benda hv. þm. á það, að hann ætti að kynna sér, hvort veitt hefur verið úr byggingarsjóði verkamanna lán til einnar íbúðar í öllum þessum 50 þorpum þessa áratugi, sem byggingarsjóður verkamanna hefur starfað. Og hvers virði er það þá fyrir þessi þorp og fólkið, sem þarf að byggja þar, að eiga þessi lög um byggingarsjóð, þegar fjármagnið, það sem það er, fer allt til hinna stærri staða? Hv. þm. sagði, að þetta væri af því, að menn stofnuðu ekki byggingarfélög í þessum þorpum. Það eru ýmsir, sem hafa gert það, ýmsir, sem hafa stofnað byggingarfélög í þessum þorpum í von um, að það bæri einhvern ár.angur. En það hefur bara engan árangur borið. Það er ekki tími til að fara hér út í ástæðurnar til þess, en árangurinn segir til sin. Það eru alveg sárfá þorp, tiltölulega mjög lítill hluti þessara 50 þorpa, sem hefur fengið nokkur lán úr byggingarsjóði verkamanna, og það er engin furða, þó að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna þessara þorpa, fari að líta í kringum sig eftir því, hvort ekki sé hægt að koma upp einhverri annarri byggingarlánastofnun, jafnvel þó að hún bjóði ekki upp á 60 ára lán með hér um bil engum vöxtum og svo og svo mikið — t. d. upp undir 90% — af byggingarkostnaðinum,— jafnvel þótt hún geri það ekki á pappírnum, ef hún gæti þó orðið með því sniði, að það væri hægt að fá úr henni einhverja peninga. Það er það, sem við höfum haft von um, sem stöndum að þessu frv.

Ég veit, að hv. þm. tekur þessa afstöðu sína til þessa máls vegna þess, að það er kannske dálítið nýtt fyrir honum, þó að það sé fyrr komið fram hér á Alþingi, og honum hefur ekki gefizt ráðrúm til þess að kynna sér, hvernig þetta mál er í raun og veru.

Ég endurtek svo það, sem ég hef sagt áður, að með þessu frv. er ekki afsalað neinum rétti, sem íbúar þorpanna hafa til þeirra stofnana, sem hér hafa verið í lögum, byggingarsjóðs verkamanna, veðdeildar eða smáíbúðadeildar. Ef þeir kynnu að geta kríað út einhver slík lán, þá er það opið eftir sem áður. Það er gott og blessað, ef það er hægt. Hingað til hefur það gengið erfiðlega.

Hv. 3. landsk. þm. lét mjög í það skína áðan, að hann væri eiginlega sammála hv. þm. Ak.,— og það urðu mér eiginlega töluvert mikil vonbrigði, — að bezt væri að leysa málið á þessum breiða grundvelli með einhverri stórri byggingarlánastofnun, sem að vísu er ekki einu sinni komin í lög enn þá, en breiddi faðminn á móti öllum, bæði þeim stóru og smáu.

Fyrir 30 árum, ég man eftir því, var verið að ræða um að koma upp sérstökum lánsstofnunum fyrir sveitirnar, fyrir landbúnaðinn, byggingarsjóði og ræktunarsjóði, því að menn sáu, að hverju fór um byggðina í sveitunum þá, ef ekki yrði neitt aðhafzt. Þá var þessari kenningu töluvert á loft haldið, að það ætti að leysa þetta lánsfjármál sveitanna á breiðum grundvelli fyrir alþjóð, alla atvinnuvegi og allar byggðir landsins. Það væri til nokkuð, sem héti þjóðbanki. Það væri bezt að stofna búnaðarlánadeild við þjóðbankann, og hún mundi alveg nægja fyrir sveitirnar. Það var gert og stóð svo um nokkur ár, en aldrei varð neinn sýnilegur árangur af þeim breiða grundvelli fyrir bændurna. Þá var farið inn á þá leið, sem vel hefur gefizt og sýnilega var eðlilegust, að koma upp þeim sérstöku lánsstofnunum, sem veitt hafa lán til bygginga í sveitunum og til ræktunar. Hinn breiði grundvöllur gafst ekki vel þá fyrir sveitirnar. Sá breiði grundvöllur, sem hv. þm. Ak. og hv. 3. landsk. þm. tala nú um varðandi byggingarlán þorpanna, mun — það er að minnsta kosti mín skoðun — ekki reynast fullnægjandi heldur fyrir hin fámennu og dreifðu kauptún eða þorp landsins. Þau þurfa að fá sína byggingarlánastofnun út af fyrir sig, og ég hef síður en svo á móti því, að sú byggingarlánastofnun verði gerð svo fullkomin og kjör í henni það hagstæð fyrir þetta fólk, sem ég er hér að mæla fyrir, sem hv. þm. vilja gera hana. Ég er þakklátur fyrir það, ef hv. 3. landsk. þm. eða einhverjir aðrir geta gert þetta frv. betur úr garði og hagstæðara, en helzt þó þannig, að ekki endurtaki sig sagan með hina ágætu lánsstofnun, sem hv. þm. var að lýsa hér áðan og íbúar þorpanna hafa sáralítið gagn haft af hingað til.

Ég vil svo vænta þess, þó að undirtektirnar undir þetta mál og undir þá meginhugsun, sem að baki málinu liggur, hafi ekki verið alls kostar eins og ég hefði kosið við þessa umr., þá geti það staðið til bóta. Og þó að tveir þm. hafi nú talað hér sinn úr hvorum flokki, þá tek ég það ekki sem merki þess, að þeir tveir hv. flokkar, sem þessir þm. eru í, ætli að beita sér á móti þessu hagsmunamáli kauptúnanna og þorpanna í landinu. Ég vil ekki taka það svo; vona jafnvel, að þeir geri það ekki heldur sjálfir, þegar þeir hafa hugsað málið betur, þó að þeir geri nú þessar athugasemdir á þessu stigi málsins.

Ég minnist þess, að þegar þetta mál var flutt hér í fyrsta sinn í hv. deild, þá stóð hér upp einn af þm. Alþfl. og lýsti yfir — ja, mig minnir helzt fyrir flokksins hönd — stuðningi við þetta mál. Hann var að vísu á því, að einhverra breytinga kynni að vera þörf, og við því höfðum við flm. að sjálfsögðu ekkert að segja. En hann lét mikið um mælt þá, og gladdi það mig mjög svo. Ég vona, að það sé svo enn, að þetta mál eigi skilnings að vænta í þeim flokki og hjá sem flestum, þegar til kastanna kemur.