26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það vill stundum bregða við, þegar hv. þm., sérstaklega stjórnarflokkanna, fara að ræða um fjármálin og sérstaklega um fjármagnið, að þeir tali um fjármagnið eins og einhvern guð almáttugan, sem óhugsandi sé fyrir mennina að ráða nokkurn skapaðan hlut við, — tala um fjármagnið eins og einhvern hlut, sem sé utan og ofan við það, sem við getum eitthvað ráðið um hvað gerir, sem eitthvert óháð afl í þjóðfélaginu. sem við raunverulega séum háðir og verðum að beygja okkur fyrir. Ég hef stundum áður rætt þetta mál hérna og skal ekki fara langt út í það, en ég vil bara minna á það út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði.

Hvað er fjármagnið í sambandi við t. d. íbúðarhúsabyggingar? Það, sem við þurfum til þess að byggja íbúðarhús, er tvennt: það er vinnuafl, og það er efni. Við byggjum hús úr því, en ekki úr seðlum, og það skulum við gera okkur ljóst. Það hefur verið til það ástand hér á Íslandi, þegar allir menn hafa verið að vinna við að byggja, að menn hafa kannske staðið með seðlana í höndunum, en menn hafa hvorki getað fengið sement né verkamenn til þess að vinna, þ. e. a. s., við byggjum ekki úr fjármagni, við byggjum ekki úr peningum, heldur byggjum við annars vegar vegar með vinnuafli og hins vegar með efni. Ef við höfum nægilegt vinnuafl til þess að láta vinna við byggingar, þá er séð fyrir þeim hluta.

Út frá því, sem hv. þm. minntist á, að það hefði ekki komið niður á dreifbýlinu skömmtunin hér um árið og takmarkanir fjárhagsráðs, vil ég nú t. d. segja honum, að ég hef persónulega reynslu af því. Eitt sumar talaði ég við einn verkamann, sem var að byggja á Hvolsvelli. Það var þriðja árið, sem hann hafði sótt. Í tvö ár áður hafði hann sótt um að fá að byggja þarna yfir sig lítið hús. Honum hafði verið neitað. Loksins þriðja árið var hann búinn að hamra út leyfi. Í tvö ár hafði hann verið hindraður í því að vinna sjálfur með sínu fólki að því að byggja þarna. Ég efast ekki um, að eins hafi komið niður á dreifbýlinu og þéttbýlinu þær vitlausu takmarkanir, sem þá voru.

En annars vegar er vinnuaflið, og ef allt okkar vinnuafl, sem í byggingum gæti verið, er við vinnu í byggingum, þá er náttúrlega ekki hægt að komast yfir að byggja meira.

Svo er efnið til innflutnings, sem við þurfum að byggja úr, sement, timbur eða annað slíkt. Ef við getum látið okkar vinnuafl vinna óhindrað að framleiðslu á okkar fiski og selt okkar fisk út úr landinu og keypt m. a. byggingarefni inn í staðinn, þá erum við þar að framleiða það efni, sem við þurfum til bygginganna. Ég skal nefna sem dæmi, að allt það sement, sem við þurfum á Íslandi á einu ári, um 50 þús. tonn, kostar í höfn erlendis sama og það, sem einn íslenzkur togari eða þeir rúmlega 30 menn, sem á honum eru, framleiða með sinni vinnu og þeir, sem vinna í landi úr fiskinum, sem togarinn aflar. Sem sé: einn togari á ári og verkafólkið, sem vinnur úr afla hans í landi, vinnur fyrir öllu því sementi, sem við þurfum að flytja inn. Við getum þess vegna áreiðanlega hér á Íslandi byggt nægilegt yfir okkur, ef við fáum að nota okkar vinnuafl og vinna fyrir efninu til þess. Fjármagnið, seðlarnir, peningarnir, er svo aðeins ávísanir til þess að miðla þessu mismunandi vinnuafli, því, sem vinnur beint við byggingarnar, og því, sem vinnur fyrir útflutningsafurðunum, til þess að fá þannig það, sem við þurfum að flytja inn í landið í staðinn fyrir þær. Fjármagnið er þess vegna ekki neinn óháður hlutur okkur, heldur hlutur, sem við erum að skapa í okkar daglegu vinnu. Ef við getum byggt sjálfir, þá á ekki að vera nokkur vandi að hafa peningakerfið í landinu í samræmi við það, sem dugleg þjóð getur áorkað að koma upp af húsum.

Ég hef áður minnt á það hins vegar, hvernig búið er að okkur með þessi mál núna. Okkar íbúðarhúsabyggingar á Íslandi eru að brunabótamati nú orðið mikið yfir 3000 milljónir kr., en öll lánin út á allar þessar byggingar eru ekki nema 300 milljónir kr., eða 1/10 hluti, þ. e. a. s., 90% af öllum þeim íbúðarhúsabyggingum, sem nú eru til á Íslandi, hefur ekkert verið lánað út á. Með þessu er verið að píska þjóðina til þess að leggja miklu meira að sér en nauðsynlegt væri, en það er þó enn verra, að með því er verið að hindra svo og svo mikið af fátækum mönnum í því að eiga sín hús og láta þá þeirra, sem þegar hafa komið þeim upp, en með miklum skuldum, missa þau í hendurnar á nokkrum auðmönnum. Þetta er nú um fjármagnið, og það finnst mér satt að segja að sérstaklega þm. Framsfl. ættu að geta skilið, vegna þess að þessi búskapur, sem ég hér tala um, er nákvæmlega sá sami og einn bóndi fyrir sínu búi mundi hugsa. Ef hann getur fengið sér efni, sem hann þarf í húsin hjá sér, ef hann hefur sjálfur heima hjá sér vinnuaflið til þess að vinna úr því, þá spyr hann ekki um neitt fjármagn, heldur byggir hann yfir sig. Og þá er það aðeins eðlilegt og sjálfsagt af þjóðfélagsins hálfu að hliðra svo til fyrir honum, að hann þurfi ekki að skera niður sín lífskjör svo og svo mikið með því að byggja þannig, að forða honum frá því að þurfa að skera niður lífskjörin um leið með því að lána honum út á slík hús í staðinn fyrir að láta hann borga þau niður á örskömmum tíma.

Svo kom hv. þm. N-Þ. ofur lítið inn á húsbyggingarmálin hér í Rvík og nýsköpunarstjórnina, og er það nú ekki ótítt af þeim framsóknarmönnum.

Það er rétt, að ég rifji það upp fyrir hv. þm. N-Þ. í því sambandi, að nýsköpunarstjórnin, þó að húsnæðismálin væru ekki neitt sérstakt atriði hjá henni, gerði einn hlut í þeim málum, sem hefur ekki verið gerður síðan, þannig að landsmenn hafi notið þess, og það er, að hún leyfði mönnum að byggja. Hún lét menn hafa fullt frelsi til þess að notfæra sér þá möguleika, sem voru fyrir hendi, án þess að stífla þá í bönkunum. Og hver var afleiðingin? Ég skal segja hv. þm. það um mitt kjördæmi. 1945 var byggð í Rvík 541 íbúð, 1946 voru byggðar í Rvík 634 íbúðir, og þó var á þeim árum byggt meira af öðrum húsum en íbúðarhúsum, meira en á nokkru ári þar á eftir, verksmiðjum og öðru slíku. Frá 1946 hefur aldrei hér í Rvík verið byggt jafnmikið á einu ári. Þegar Framsókn var búin að vera í ríkisstj. ein 5–6 ár, þá var hún búin að koma íbúðabyggingunum í Rvík niður í: árið 1951 284 íbúðir, 1952 329 íbúðir. M. ö. o., með þeim höftum, sem sett voru á menn, var byggt helmingi minna á þeim árum en var byggt á árum nýsköpunarstjórnarinnar. Þetta var það, sem þá var gert. Það var byggt meira í Rvík en nokkurn tíma hefur verið gert síðan, og á þessu sama ári sem byggt var þannig meira af íbúðarhúsum en nokkurn tíma síðan, tvöfalt meira en í stjórnartíð Framsóknar seinna meir, þá var líka byggt meira af öðrum húsum, verksmiðjuhúsum og öðru slíku.

ríkisstj. undirbjó og setti lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, því að hún setti sér það mark að útrýma þeim heilsuspillandi íbúðum, sem til voru þá hér á Íslandi. Hún sá vel og vissi, að það var auðveldur leikur að gera það á fjórum árum, eins og sett var upp í lögum þá. Þau lög voru samþ. Þá gerðist það, að ameríska auðvaldið greip inn í gang mála hér á Íslandi og tók að skipta sér af því, á hvern hátt við Íslendingar settum lög og framkvæmdum lög og á hvern hátt við notuðum okkar vinnuafl. 1947 voru þau lög sett úr gildi aftur, þau lög, sem hefðu, ef þau hefðu fengið að vera í gildi, útrýmt öllum heilsuspillandi íbúðum á Íslandi á fjórum árum, því að það vantaði ekki fjármagn og ekki vinnuafl og ekki efni til þess að gera það. En það kom vald inn í, ameríska fjármálavaldið, af því að Ísland var sett undir eftirlit þess 1947 og 1948 og var það á árunum á eftir. Og samkv. ákvörðun þess voru settar þær takmarkanir, sem þá voru, eins og greinilega komst upp og eins og ég sagði frá áðan. Það, sem gerðist, var, að það afturhald, sem tók völdin hér 1947, drap niður þessi lög, sem hefðu útrýmt heilsuspillandi íbúðum á Íslandi, og stjórnaði þannig húsnæðismálunum, að nú eru upp undir helmingi fleiri heilsuspillandi íbúðir í Rvík en voru þá. En það hefur ekki verið vegna þess, að það hafi ekki verið nóg sement, nóg vinnuafl og annað slíkt. Nei, á sama tíma hafa þúsundir Íslendinga verið látnar vinna suður á Keflavíkurflugvelli að því að byggja upp fyrir ameríska liðsforingja og ameríska menn, byggja upp heila borg suður á Suðurnesjum fyrir innrásarlið í okkar land. Það sama ameríska auðvald sem bannaði Íslendingum að byggja og knúði fram hér á Alþingi, að lög væru stöðvuð í Ed., eftir að búið var að samþ. þau í Nd., sá um, að íslenzkt vinnuafl og það sement, sem flutt var til landsins, og annað slíkt væri notað til þess að byggja yfir ameríska liðsforingja og ameríska menn í staðinn fyrir íslenzkar konur og börn. Það fjármálaeftirlit, sem Ísland þá var sett undir, olli því, að síðan hefur farið versnandi um íbúðirnar hér í Rvík.

Þetta vildi ég aðeins segja, fyrst hv. þm. fór að fara inn á þessi mál, og er ég reiðubúinn til ýtarlegri umræðu um þau, svo framarlega sem hann vill. Hins vegar liggur það fyrir okkur nú að sjá um, að það sé unnið að því af fullum krafti, með öllum þeim möguleikum, öllu því vinnuafli og öllu því fjármagni, svo að ég noti hans orð, sem við höfum, að byggja yfir Íslendinga, jafnt í sveitum, kauptúnum sem kaupstöðum. Og við skulum í því sambandi gera okkur það fyllilega ljóst, að það er bezt í því sambandi að steinhætta þeim byggingum, sem nú eru suður á Keflavíkurflugvelli, og láta ekki íslenzkt vinnuafl vinna að því að byggja þar yfir erlenda innrásarþjóð. Við höfum nóg að gera við það hérna heima hjá okkur, og við höfum nóg að gera við það fjármagn við alla þá möguleika, sem við sköpum okkur til þess að byggja yfir Íslendinga. Ég held þess vegna, að verkefnið sé að sjá nú til þess, að notaðir séu allir þeir möguleikar, sem við höfum til þess að byggja, — það hefur ekki verið gert á þessum síðustu árum, — og þá alveg sérstaklega að lánsfjármálunum sé komið í það horf, stjórninni á þeim, að allir þeir miklu möguleikar, sem Íslendingar nú hafa, séu fullnotaðir í þessu efni.