04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

75. mál, iðnlánasjóður

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að árlegt framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs hækki um 300 þús. kr. frá því, sem ákveðið er í lögum frá 1946 um Iðnlánasjóð Íslands. Þá er einnig lagt til í þessu frv., að lögunum um iðnlánasjóð verði breytt í það horf, að iðnlánasjóður veiti eftirleiðis eingöngu stofnlán. Í lögunum um iðnlánasjóð, eins og þau eru í dag, er heimild til þess, að iðnlánasjóður veiti rekstrarlán, en það ætti að vera verkefni þeirra venjulegu lánsstofnana í landinu og ekki sízt Iðnaðarbankans. Þá er einnig gert ráð fyrir því í frv., að sjóðurinn megi eftirleiðis lána út á fasteignir, sem áður hefur ekki verið heimilt, og einnig sú breyting, sem raunar hefur verið gengið frá áður í lögunum um Iðnaðarbankann, að það skuli tekið fram í sjálfum lögunum, að sjóðurinn skuli vera í vörzlu Iðnaðarbanka Íslands, en ekki hjá Útvegsbankanum.

Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þetta frv., það skýrir sig sjálft, og helztu ástæðurnar fyrir flutningi þess eru tilgreindar í grg. Í frv. eru sem sé þessi tvö höfuðatriði: að auka framlag ríkissjóðs um 300 þús. kr. og að breyta lögunum um iðnlánasjóð þannig, að hann veiti eftirleiðis eingöngu stofnlán. Með því móti má segja, að verkefni sjóðsins færist í svipað horf og fiskveiðasjóður í dag veitir stofnlán og ræktunarsjóður í dag veitir stofnlán og að iðnlánasjóður komi til með að verða þannig sú lánsstofnun, þar sem iðnaðurinn geti fengið lán til þess að byggja sig upp með hagstæðum kjörum og til lengri tíma. Það má segja, að iðnlánasjóður hafi á undanförnum árum hjálpað iðnaðinum mjög mikið. Hann hefur ekki haft yfir miklu fé að ráða, en þar sem hans hefur notið við, hefur hann komið að ákaflega miklum notum. Og það má sérstaklega benda á, að þetta er eina stofnunin í dag, sem veitt hefur iðnaðinum samningsbundin lán til lengri tíma. Iðnaðurinn hefur hvergi haft neina lánsstofnun, þar sem hann hefur getað fengið hagstæð lán til lengri tíma, þar sem aftur á móti bæði sjávarútvegur og landbúnaður, sérstaklega landbúnaðurinn, hafa haft slíkar stofnanir yfir að ráða, sem eflzt hafa frá ári til árs sem betur fer.