04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

75. mál, iðnlánasjóður

Emil Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. 1. flm. þessa máls tók fram, þá felast í þessu frv. tvær meginbreytingar á gildandi lögum. Önnur er sú að hækka framlagið úr ríkissjóði til iðnlánasjóðs um 100%, eða úr 300 þús. kr. á ári upp í 600 þús., og er þetta náttúrlega til stórmikilla bóta fyrir sjóðinn. En þó er þess að geta, að þetta framlag, þó að samþykktar verði 600 þús. kr., er lítið eða ekki meira hlutfallslega en var í upphafi, þegar til iðnlánasjóðsins var stofnað fyrir 20 árum. En hvað sem um það er, þá er þetta í áttina, þó að ég teldi, að það mætti gjarnan meira verið hafa, úr því að það er verið að breyta þessu á annað borð, og þá meira til samræmis við það, sem veitt er til annarra hliðstæðra hluta.

Hitt atriðið, sem hv. flm., þm. Ak., minntist á að breytt væri í lögunum, sagði hann að væri það, að nú væri ekki gert ráð fyrir, að sjóðurinn veitti lán til rekstrar, eins og nú er gert, heldur yrði hann hér eftir eingöngu til þess að veita stofnlán. Og þannig var sjóðurinn líka í upphafi. Í upphafi var hann hreinn stofnlánasjóður, en rekstrarlánin komu inn á síðara stigi, að vísu þá af brýnni þörf, vegna þess að ekki var í önnur hús að venda, en ég er alveg sammála honum í því, að það er minni ástæða nú til þess að hafa í lögunum um iðnlánasjóð heimild til þess að veita rekstrarlán, eftir að Iðnaðarbankinn hefur verið stofnaður.

En það er eitt atriði, sem hv. 1. flm. minntist ekki á og er að minn viti ekki þýðingarlítið, sem breytt hefur verið, og það er það, að þegar iðnlánasjóðurinn var í upphafi stofnaður, var hann eingöngu fyrir handiðnaðarmenn, fyrir iðnaðarmenn, en ekki fyrir útlán til iðjustarfsemi. Hann var stofnaður og fé veitt til hans til þess að veita lán til þess, sem á slæmri íslenzku kallast til handverksmanna, til iðnaðarmanna, til vélakaupa í mjög smáum stíl. En það var ekki meiningin, að iðjustarfsemin í landinu almennt ætti þarna athvarf. Með þessu frv., sem hér er flutt, er þetta rofið og iðnlánasjóðurinn verður hér eftir, ef frv. verður samþykkt, jöfnum höndum til útlána fyrir bæði iðnaðarmenn og til iðjustarfseminnar í landinu. Ég er ekki viss um, að þetta sé rétt, og ég vildi mjög beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til athugunar, sem er iðnn., hvort það sé rétt að taka þann forgangsrétt, sem handiðnaðarmenn hafa haft til lána úr iðnlánasjóði hingað til, frá þeim og afhenda hann í hendur bæði iðjustarfseminni og iðnaðarmönnum. Framlagið til sjóðsins er hækkað, — það er að vísu rétt, — svo að möguleikarnir verða meiri til útlána. En ég vildi aðeins á þessu stigi málsins — ég hef ekki kynnt mér, hvernig lánaþörf iðnaðarmannanna hefur verið fullnægt á undanförnum árum — segja, að ef henni hefur ekki verið fullnægt, þá vildi ég að minnsta kosti, að það yrði athugað vel, áður en þessi forréttindi, sem iðnaðarmenn hafa haft til sjóðsins, yrðu af þeim tekin.