13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sakna þess enn sem fyrr, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera mættur hér í deildinni. — Nú, hann er kominn hér, og býð ég hann velkominn til þess að fylgja frv. sínu úr hlaði.

Í sambandi við þetta frv. á þskj. 10 vil ég aðeins taka fram, að ég er því alveg samþykkur, að þau ákvæði, sem í frv. felast um greiðslu verðlagsuppbótar á laun opinberra starfsmanna og á eftirlaun, verði ákveðin með sérstökum lögum og gildistími þeirra laga ekki aðeins bundinn við eitt ár í senn. Þetta er orðin föst regla og eðlilegt, að starfsmennirnir vænti þess að fá staðfestingu á því, að þetta sé ekki aðeins bráðabirgðafyrirkomulag, heldur hugsað til nokkurrar frambúðar, og yfirlýsing um það felst að sjálfsögðu í samþykkt þessa frv., ef að lögum verður.

En ég vildi leyfa mér að vekja athygli á því, að það eru fleiri uppbætur, sem hafa gilt um nokkur ár á laun opinberra starfsmanna og lífeyrisþega úr lífeyrissjóðunum heldur en það, sem frá er greint í þessu frv. Um allmörg undanfarin ár hefur verið greidd sérstök grunnlaunauppbót á laun starfsmanna, mismunandi eftir upphæð launanna, og nemur þessi uppbót frá 10% og upp í 17%, þannig að grunnuppbótin er hæst á lægri launaflokkunum og lægst á efri launaflokkunum. Þessi ákvörðun hefur verið tekin fyrir hvert einstakt ár og jafnan í fjárlögunum, og ég sé, að í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. fjmrh., er gert ráð fyrir, að þessi uppbót haldist, og fjallar ákvæði 23. gr. frv. um hana.

Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ráðh. og þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki væri rétt að fella einnig efni fjárlagafrv. inn í þetta frv., þannig að lögin væru ekki aðeins um verðlagsuppbætur á laun opinberra starfsmanna, heldur um uppbætur í heild, eins og þær eru á laun hinna opinberu starfsmanna. Jafnframt leyfi ég mér að skjóta því fram, hvort ekki sé ástæða til að athuga, hvort gerlegt er að halda lengur þeirri skiptingu í bótaflokka, sem gerð er í frv. Ég held, að það sé mjög vafasamt, að hægt sé að halda því áfram lengur.