13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. þm. tók fram, vil ég geta þess, að það er nú nýlega hafin endurskoðun á launalögunum. Það hefur verið sett nefnd nú fyrir nokkrum dögum í því skyni af hendi ríkisstjórnarinnar, og í þeirri nefnd eiga sæti fulltrúar frá samtökum opinberra starfsmanna. Ég hygg þess vegna, að hyggilegra væri að hafa enn á þann hátt, sem hafður hefur verið, að ákvæðin um grunnlaunaupphæðina séu í fjárlögum. En að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því, að þetta sé tekið til íhugunar í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar.