08.11.1954
Neðri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

81. mál, útsvör

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég vildi í allri vinsemd benda hv. þm. Borgf. á það, að þó að hv. þd. hafi einhvern tíma áður ekki séð ástæðu til að samþ. frv. eða frumvörp, sem hafa verið svipaðs efnis og þetta, sem hér liggur fyrir, ætti ekki þar með að vera fengin full sönnun fyrir því, að hún kunni ekki að sjá ástæðu til þess að þessu sinni.

Hv. þm. Borgf. ræddi um það, að það væri aðalregla útsvarslaganna, að útsvar væri aðeins lagt á gjaldanda þar, sem hann væri heimilisfastur, og það er einmitt það, sem ég sagði í framsöguræðu minni að væri, en benti hins vegar á, að frá þessu væru nokkrar undantekningarreglur eða undantekningarákvæði, og þau taldi nú einmitt hv. þm. upp.

Um skiptingarreglurnar er það að segja, eins og ég tók fram í framsögu minni, að þær hafa gefizt illa, eru seinvirkar og tafsamar og ná þar að auki ekki til nema hluta af útsvarinu, þ. e. a. s. ekki nema til tekjuútsvarsins. Nú er það þannig, að ef um einhvern atvinnurekstur er að ræða, sem gengur sæmilega, þá getur veltuútsvarið verið stór hluti af heildarútsvarinu, en skiptingarreglurnar ná ekki til þess hluta útsvarsins, eins og ég tók fram, þannig að atvinnusveit fær engan hluta af því.

Ég tel ekki ástæðu til að vera nú að þvarga mikið um þetta mál við hv. þm. Borgf., en ég vil aðeins spyrja hann um, hvort hann telji það ekki í rauninni sanngjarnt, ef hann athugar málið, að aðili, sem hefur e. t. v. allar tekjur sínar af atvinnurekstri, sem hann rekur utan heimilissveitar sinnar, greiði útsvar til þess sveitarfélags, þar sem teknanna er aflað; það fái útsvarið og njóti þeirra hlunninda að fá að leggja það á gjaldandann. Ég veit, og það er alveg rétt, sem hv. þm. tók fram í sinni ræðu áðan, að eins og sakir standa og eins og nú árar hefur þetta e. t. v. ekki mikla þýðingu, vegna þess að tekjur eru sáralitlar af síldarsöltun, en það getur svo farið og verður vonandi sem fyrst, að þeir, sem stunda síldarsöltun, geti haft miklar tekjur og jafnvel sínar aðaltekjur af þessum atvinnurekstri. Ég veit, að allir hv. þdm. taka undir þessa ósk, og undir þeim kringumstæðum sé ég enga sanngirni í því, að það sveitarfélag, þar sem teknanna er aflað, fái ekki að leggja útsvar á gjaldendurna, sem afla teknanna.