12.11.1954
Neðri deild: 17. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

86. mál, sýsluvegasjóðir

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 140, er flutt eftir beiðni sýslunefndar Austur-Húnavatnssýslu og felur það í sér, að í þeim héruðum, þar sem sýsluvegasjóðir eru, skuli ríkissjóður einnig greiða tillag á móti þeim framlögum, sem hreppsfélög og vegafélög vilja leggja fram í sýsluvegasjóð umfram vegaskattinn. Eins og kunnugt er, þá eru samkv. sýsluvegasjóðslögunum aðaltekjur sjóðsins vegaskattur og framlag úr ríkissjóði móti honum. En þetta miðar að því, að þar sem eru eftir litlir vegarspottar, sem brýn nauðsyn er að fá lagða, þá kemur það stundum fyrir, að vegafélögin eða jafnvel hreppsfélögin vilja leggja mikið á sig til þess að fá þessa vegarspotta kláraða.

Ég veit nú, að á þessu yfirstandandi Alþ. muni verða einhverjar talsverðar umræður um vegamálin yfirleitt, því að eins og augljóst er öllum hv. þdm., þá liggur fyrir mikið af brtt. við vegalögin um það að taka inn í þjóðvegatölu nýja vegi. En hv. alþm., enda þótt þeir taki þátt í því að bera fram þessar till., verða að gera sér grein fyrir því, að það er ekki nóg að fá bætt sí og æ við þjóðvegina, ef það eru ekki að sama skapi hækkuð framlögin til nýbygginga á vegum. Og við höfum slæman árekstur fyrir augum að því er þessi mál snertir, þar sem eru síðustu eða í rauninni yfirstandandi árs fjárlög. Það voru teknir síðast í tölu þjóðvega vegir, sem áður höfðu verið sýsluvegir að mestu, um 1000 km. En jafnhliða því, sem þessir vegir allir voru settir inn í þjóðvegatölu, þá var framlagið til nýbygginga á vegum svo að segja ekki neitt hækkað, og þess vegna hefur enn orðið að þessu ákaflega lítið gagn. Hér er því um tvennt að ræða, annaðhvort verður að taka vegina sem allra flesta í þjóðvegatölu og leggja þá að sama skapi fé fram á fjárlögum til lagningar veganna, sem mikil nauðsyn er, ellegar þá að auka getu sýsluvegasjóðanna til þess að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem er á því að koma sem allra flestum eða helzt öllum heimilum í landinu í vegasamband.

Ég vænti þess, að hv. samgmn., sem ég óska að þetta frv. fari til, athugi þessi mál rækilega, því að hér er um mjög mikið vandamál að ræða. Jafnvel þó að vegalögin væru ekki opnuð á þessu þingi, þá er nokkur bót í því, að þetta litla frv. væri þó samþykkt.