30.11.1954
Neðri deild: 25. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2191)

108. mál, mótvirðissjóður

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Vegna fyrri samþykkta og aðgerða Alþ. í þessu máli gæti litið svo út sem þörf væri á því að ræða það mjög ýtarlega hér í sambandi við þetta frv. En þar sem ég lít svo á, að frv. þetta sé mjög auðskilið og einfalt í gerð sinni, eins og málið sjálft er í eðli sinu einfalt og auðskilið, þá mundi ég þó líta þannig á, að það væri í sjálfu sér hálfgerð móðgun við hið háa Alþ. að ræða þetta mál og fyrri aðgerðir Alþ. í sambandi við það ýtarlega. Ég mun því fara mjög fáum orðum um þetta frv. nú, nema sérstakt tilefni gefist til umræðna um það.

Ég ætla ekki að rekja hér aðdraganda þessa máls, þ. e. a. s. þátttöku Íslands í hinni svokölluðu Marshallaðstoð og atriði þau, sem birt eru með auglýsingu ríkisstjórnarinnar, nr. 62 frá 1948, í Stjórnartíðindum. Ég kemst þó ekki hjá því að minnast þess, að í þessari auglýsingu, þessum samningi, eru ákvæði, sem valda því, að frv. þetta er fram borið.

Í 4 gr. samningsins, 6. mgr., er þannig að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórn Íslands getur hafið innstæður, sem fyrir hendi kunna að vera á hinum sérstaka reikningi (þ. e. a. s. í mótvirðissjóði), til þeirra ráðstafana, sem samkomulag kann að nást um á hverjum tíma við ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku. Við athugun á tillögum, sem ríkisstjórn Íslands gerir um ráðstöfun á innstæðum á hinum sérstaka reikningi, mun ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku hafa í huga þá þörf, sem er á því að efla eða viðhalda öryggi í peningamálum og fjármálum innanlands á Íslandi og á því að efla framleiðslustörf og milliríkjaviðskipti, svo og leit að og eflingu á nýjum auðlindum á Íslandi, þar með talið sérstaklega: útgjöld í sambandi við leit að og aukna framleiðslu á efnivörum, sem þörf kann að vera fyrir í Bandaríkjum Ameríku vegna skorts, sem er eða líklegt er að verði á slíkum vörum í Bandaríkjum Ameríku.“

Af þessum orðum, sem ég hef nú lesið, er sýnilegt, að samkv. þessum samningi geta stjórnarvöld Bandaríkjanna haft mjög víðtæk áhrif á peningamál, fjármál, framleiðslustörf og annað varðandi efnahagslíf Íslands, ef notað er fé úr mótvirðissjóði.

Þar sem ég lít svo á, að engin sjálfstæð þjóð hafi sérstaka löngun eða sérstakan vilja til þess að leita sérstaklega og beinlínis eftir afskiptum annarra þjóða af peningamálum, fjármálum og atvinnulífi í sínu eigin landi, hef ég ásamt hv. 8. þm. Reykv. borið fram frv. á þskj. 189, þess efnis, að mótvirðissjóður skuli lagður á lokaðan reikning í Landsbanka Íslands og að þjóðin skuli í einu og öllu haga sér í fjármálum sínum og athafnalífi eins og sá sjóður væri ekki til. Við leggjum sem sagt til, að þær breytingar verði gerðar á þeim samþykktum og lögum, sem Alþ. hefur staðfest hér áður, að það megi vera greinilegt, að Íslendingar ráði sjálfir málum sínum, en séu ekki háðir áhrifum og afskiptum annarra þjóða um innanlandsmál.

Aðrar breytingar á hinum svokallaða mótvirðissjóði og notkun fjár úr mótvirðissjóði hefur þetta frv. ekki í för með sér. Og það hefur engar aðrar breytingar í för með sér, t. d. á lánastarfsemi, lánsfjármöguleikum og öðrum atriðum í sambandi við peningamál og fjármál þjóðarinnar, en þær að losa Íslendinga við þau erlendu áhrif, sem sýnilegt er að þeir eru háðir, ef þeir ætla sér að nota fé úr mótvirðissjóði eins og Alþ. hefur áður samþ. að skuli gert.

Mér þykir líka ástæða til að bæta því við, að um þessi erlendu áhrif er það að segja, að þau hafa í samningnum um Marshallaðstoðina sérstöðu, þar sem í samningnum er beinlínis tekið fram, að eftir að gildistími samningsins sjálfs er útrunninn, eins og stendur í 12. gr., 3. mgr., skuli þó 4. gr., þ. e. a. s. greinin um ráðstöfun mótvirðissjóðs, halda gildi sínu, þar til öllum upphæðum í íslenzkum gjaldmiðli, er leggja skal til hliðar samkv. þeirri gr., hefur verið ráðstafað svo sem ráð er fyrir gert í þeirri grein.

Það er m. ö. o. þannig frá þessum samningi gengið, að eftir að Ísland er hætt að njóta góðs, ef menn vilja svo orða það, af þeirri efnahagsaðstoð, sem um var samið með samningi þessum, eftir að öll slík ákvæði eru fallin úr gildi, þá skulu þó eftir standa ákvæðin um hina erlendu íhlutun og erlendu áhrif á peningamál, fjármál og efnahagsmál Íslands.

Ég vænti þess, að hv. þingmenn kynni sér þetta frv. og grg., sem því fylgir, svo og Marshallsamninginn, sem birtur er í Stjórnartíðindum og er þar nr. 62 frá 1948, og ég efast ekki um, að þegar þeir hafa kynnt sér þessi gögn, þá munu þeir verða þess mjög hvetjandi, að frv. okkar þjóðvarnarmanna um mótvirðissjóð verði afgr. sem fyrst hér á Alþ. og samþ. eins og það nú liggur fyrir.

Að lokinni þessari umr. vil ég svo leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn.