05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. allýtarlega, sérstaklega með tilliti til eldri lagaákvæða um sama efni, og vik ég nánar að því atriði síðar.

Fyrsta dag næsta mánaðar á síðasta breyting verðlagsuppbótar að fara fram samkvæmt gildandi lögum. Býst ég við, að enginn álíti rétt að láta við það sitja, heldur verði breyting að eiga sér stað áfram í samræmi við breytta vísitölu. Efni þessa frv. er að lögfesta til frambúðar þær reglur, sem nú gilda í þessu efni, en áður hafa þær verið tímabundnar. Virðist n. rétt að ákveða þetta til frambúðar, enda annað tilgangslaust eins og reynslan sýnir.

3. gr. þessa frv. er tæplega fullnægjandi. Þar segir, að úr lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóði barnakennara, lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna og lífeyrissjóði ljósmæðra skuli greiða verðlagsuppbót eftir sömu reglum og greitt er á laun starfsmanna ríkisins, en ekkert tekið fram um það, hver eigi að endurgreiða hlutaðeigandi lífeyrissjóði verðlagsuppbótina, eins og gert hefur verið af hlutaðeigandi stofnunum áður, og telur n. rétt, að það sé beinlínis ákveðið í þessum lögum. Nú getur að sjálfsögðu komið fyrir, að stofnun, sem lífeyrisþegi tók laun sín hjá, geti ekki endurgreitt lífeyrissjóði neitt eða ekki nema að nokkru leyti, — ekki neitt t.d., ef stofnunin er lögð niður, eins og getur komið fyrir. Virðist n., að þá sé ekki í annað hús að venda en til ríkissjóðs. Þess vegna ber n. fram brtt. á þskj. 115 um umorðun á 3. gr., þannig að bæði þessi atriði, sem ég nú hef nefnt, verði lagfærð.

Þegar þetta mál var til umræðu í n., þá lét hv. 4. þm. Reykv. þess getið, að hann væri með frv., enda hefur hann skrifað undir nál., en hann mundi áskilja sér rétt til að bera fram fleiri brtt. heldur en n. gerir, og brtt. liggja nú fyrir frá honum á þskj. 119. Þó að hv. þm. boðaði það í n., að hann mundi ef til vill bera fram brtt., þá man ég ekki eftir, að hann gæti neitt um það, hvers efnis þær mundu verða. Þar af leiðandi er það, að n. sem slík hefur ekki fjallað um þessar till. á neinn hátt, og get ég því ekki beinlínis sagt neitt um aðaltill. né varatill. frá hendi n., og væri svo, að hv. flm. þessara till., 4. þm. Reykv., vildi fá umsögn n. um till., þá mundi vera ráðlegt fyrir hann að taka þær aftur til 3. umr. Á hinn bóginn get ég sagt það sem mína skoðun, að mér þykir ákaflega ólíklegt, að n. vilji mæla með þessum brtt., sem fjalla um það að breyta verðlagsuppbót mánaðarlega, eins og einu sinni var, með öllum þeim glundroða og öryggisleysi, sem því fylgdi fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar. Skal ég svo ekki ræða frekar um þessar brtt. Ef til vill tekur hv. flm. þær aftur til 3. umr.

N. var í fyrstu í töluverðum vafa um það, hvort óhætt væri að samþykkja óbreytta 4. gr. frv., sem m.a. nemur úr gildi 6. gr. l. nr. 22 1950, þ.e.a.s. gengislaganna. Athugaði n. breytingar þær, sem orðið hafa á ákvæðum þeirrar gr., og skal ég til fróðleiks geta um þessar breytingar. Ákvæði 1. málsgr., 2. málsgr. og 1. málsl. 3. málsgr. voru tímabundin og eru því úr sögunni, eins og þau bera með sér. Ákvæði síðari málsl. 3. málsgr. er tekið í frv. Ákvæði 4., 5., 6. og 7. málsgr. eru afnumin með 1. gr. l. nr. 11 í 1950. Í stað þeirra ákvæða komu þá ákvæði í 1. gr. l. nr. 117 1950, sem breytt var með l. nr. 9 1951. Þeim ákvæðum var síðan breytt með 1. gr. l. nr. 105 1951, en þau ákvæði voru tímabundin, og komu í stað þeirra l. nr. 70 1951, sem ekki giltu nema skamma hríð, því að eftir verkfallið í desember 1952 komu í stað þeirra lög nr. 16 1953, sem miðuð voru við lausn verkfallsins. Loks eru svo núgildandi lög um þetta efni, nr. 70 1953, sem miða síðustu breytingu verðlagsuppbótar við 1. des. n.k. N. komst því að þeirri niðurstöðu, að óhætt væri að nema þessa 6. gr. úr gildi, þar sem það lítið, sem er eftir af henni, er tekið upp í þetta frv., og leggur því til, að 4. gr. frv. eins og aðrar greinar þess, að undantekinni 3. gr., verði samþykkt óbreytt.