14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

169. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 438 um atvinnuleysistryggingar, er nú í fyrsta sinn flutt sameiginlega af þm. Sósfl. og Alþfl. hér í þessari hv. d. Frumvarp samhljóða þessu hefur verið flutt á nokkrum undanförnum þingum af þm. Sósfl. Af hendi Alþfl. hafa verið fluttar till. til þál. um skipun nefndar til að undirbúa frv. um atvinnuleysistryggingar. Hvorugt þessara mála hefur hlotið samþykki Alþingis. Á Alþingi 1942 var þessu máli fyrst hreyft, og þá flutti hv. 2. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, frv. um atvinnuleysistryggingar.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er í öllum aðalatriðum samhljóða því frv., enda hafði það lagafrv. verið samið í samráði og í samvinnu við marga af forustumönnum verkalýðssamtakanna víðs vegar um land. Á Alþingi 1948 var málið flutt á ný af Sigurði Guðnasyni alþm. Verkamannafélagið Dagsbrún hafði þá tekið málið til umræðu að nýju á fundi sínum. Eftir þær umræður var það sameiginlegt álit stjórnenda og meðlima félagsins, að hin mesta nauðsyn væri á því, að komið yrði á stofn atvinnuleysistryggingum, og fól félagið formanni sínum að flytja frv. á Alþingi.

Árin 1950, 1951, 1952 og 1953 hefur svo frv um atvinnuleysistryggingar verið flutt í þessari hv. deild. Á Alþingi 1952 fékkst frv. afgr frá n., en þá klofnaði heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar um málið. Minni hl., þeir Jónas Árnason og Gylfi Þ. Gíslason, lagði til, að frv. yrði samþykkt með nokkrum breytingum á bráðabirgðaákvæðinu. Fulltrúar stjórnarfl., sem mynduðu meiri hl. innan nefndarinnar, lögðu aftur á móti til, að frv. yrði vísað til ríkisstj. Álit meiri hl. var svo samþykkt. Nú hefði mátt ætla, að þáverandi hæstv. ríkisstj. hefði talið skyldu sína að leggja fyrir næsta Alþingi stjórnarfrv. um atvinnuleysistryggingar, þar sem þá var vitað, að öll verkalýðshreyfingin stóð á bak við þetta mál, og þar sem Alþingi hafði með samþykkt sinni beinlínis ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. tæki málið upp á sína arma og flytti frv. þar um. Hvað sem því hefur valdið og hverjar sem orsakirnar kunna að hafa verið, hefur hæstv. ríkisstj. ekkert gert þessu máli til framdráttar, og það sýnir allt annað en mikinn áhuga á því að verða við óskum og kröfum verkalýðssamtakanna í þessu máli. Slík afstaða er ein sönnun þess, að bæði fyrrv. og núverandi hæstv. ríkisstj. láta hagsmuni og velferðarmál alþýðunnar víkja fyrir sérhagsmunum ráðandi stétta þjóðfélagsins og hafa skellt skolleyrum við sjálfsögðum og margendurteknum kröfum verkalýðsins í landinu, bæði í þessu máli og fjölmörgum öðrum.

Eins og bent er á í grg. fyrir þessu frv., hefur nokkurs skoðanamunar gætt um það, hvern hátt væri heppilegast að hafa á framkvæmd atvinnuleysistrygginganna. Sumir flm. telja ýmislegt mæla með því, að einum sjóði eða einni stofnun og þá helzt atvinnustofnun ríkisins, sem oftar en einu sinni hefur verið flutt frv. um af hálfu Alþfl., yrði falin framkvæmd atvinnuleysistrygginganna um land allt. En þrátt fyrir þennan skoðanamun, sem er ekki á neinn hátt hægt að kalla djúptækan skoðanamun um framkvæmdaratriði, eru allir hv. flm. þessa frv. sammála um nauðsyn þess, að það verði að lögum nú þegar á þessu Alþingi, enda í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir endurskoðun laganna á árinu 1957, og mætti þá hafa hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefði varðandi heppilega tilhögun trygginganna, og að sjálfsögðu þá tekið fullt tillit til tillagna verkalýðshreyfingarinnar í málinu.

Undanfarin ár hafa verkalýðsfélögin víðs vegar um allt land samþykkt ákveðnar áskoranir til þings og stjórnar um að setja lög um atvinnuleysistryggingar, og nú síðast á 24. þingi Alþýðusambands Íslands, sem háð var í vetur, var samþykkt einróma áskorun til þings og stjórnar, að nú á yfirstandandi Alþingi yrðu samþ. lög um fullkomnar atvinnuleysistryggingar. Á undanförnum þingum Alþýðusambandsins höfðu verið gerðar samhljóða samþykktir í þessu máli. Með tilliti til hinna eindregnu áskorana frá verkalýðsfélögum innan heildarsamtakanna og Alþýðusambandsþinga er frv. þetta enn á ný flutt hér í þessari hv. deild í trausti þess, að alþm. sjái sér fært að samþ. það og verða þannig við eindregnum kröfum verkalýðssamtakanna um, að komið verði á fót atvinnuleysistryggingum.

Til þess að undirstrika enn betur en áður samhug verkalýðshreyfingarinnar í málinu var talið sjálfsagt, að flm. að þessu frv. væru frá báðum verkalýðsflokkunum, enda fullt samkomulag innan verkalýðshreyfingarinnar um málið, eins og ég hef áður bent á.

Það hefur þannig til gengið um fjöldamörg hagsmunamál alþýðunnar hér á Alþingi og víðar, að lengi vel hafa andstæðingar slíkra mála torveldað framgang þeirra í lengstu lög. Það má t. d. nefna togaravökulögin, breytingar á framfærslulögunum, sem fólu í sér afnám hins illræmda ákvæðis um fátækraflutningana, lög um orlof, lög um greiðslu vinnulauna, lög um verkamannabústaði, lög um alþýðutryggingar o. fl., o. fl. Það kostaði alveg ótrúlega baráttu af hendi alþýðusamtakanna og forsvarsmanna þeirra að fá slík lög samþykkt. Það væri freistandi að tilfæra hér ummæli nokkurra hv. alþm., er þessi mál voru til umræðu hér á Alþingi. Það mætti segja mér, að sumir hv. alþm. mundu nú gjarnan óska þess, að þeir hefðu ekki viðhaft sumt af þeim ummælum, sem þeir höfðu á Alþingi og víðar, þegar þessi hagsmunamál alþýðunnar voru á dagskrá, en það verður ætíð þannig, að góður og réttur málstaður sigrar að lokum, Það er hægt um takmarkaðan tíma að torvelda framgang góðra og sjálfsagðra mála, en að lokum sigrar hinn rétti málstaður.

Þetta frv. er eitt af þeim málum, sem ekki verður hægt að ganga fram hjá til lengdar. Um það munu verkalýðssamtökin í landinu sjá. Þau eru orðin það afl, sem ekki er hægt að ganga fram hjá, hvorki í þessu máli né öðrum. Við Íslendingar hælum okkur stundum af því, hvað félagsmálalöggjöf okkar sé fullkomin. Það er satt, að sú löggjöf er á margan hátt merkileg, þó að mikið vanti á, að hún sé eins fullkomin og æskilegt væri. Sést það hvað bezt á því, að enn í dag býr atvinnulaust verkafólk á Íslandi við algert öryggisleysi. Slíkt ástand er óþolandi og þjóðfélagi, sem talið er menningarþjóðfélag. gersamlega ósamboðið. Óumdeilanlega er það skylda þjóðfélagsins að sjá öllum þjóðfélagsþegnum sínum fyrir öruggu lífsframfæri. Að sjálfsögðu krefst verkalýðurinn fyrst og fremst atvinnuöryggis og að sú vinna, sem hann lætur af hendi, sé greidd í fullu samræmi við þær kröfur, sem verkalýðsstéttin gerir hverju sinni. Sé kröfu verkalýðshreyfingarinnar um atvinnuöryggi ekki fullnægt, ber þjóðfélaginu skylda til að sjá svo um, að enginn líði skort. Þeirri sjálfsögðu skyldu verður á engan hátt betur fullnægt en með því, að komið verði á fót viðunandi atvinnuleysistryggingum. Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að leysa þá skyldu. Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.