18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

171. mál, landkynning og ferðamál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Frv. þetta heitir frumvarp um landkynningu og ferðamál. Það eru 11 greinar. En aðalatriði þess eru þó í tveim greinum, — aðalatriði þess, að því er ég tel, frá sjónarmiði flutningsmannanna, — í 5. gr. og 9. gr. Í 9. gr. er gert ráð fyrir því, að gildandi lög frá 1936 um Ferðaskrifstofu ríkisins séu afnumin, og í 5. gr. er gert ráð fyrir, að hverjum sem er, hvaða einkafyrirtæki sem er, skuli verða heimilt að reka ferðaskrifstofu og annast fyrirgreiðslu erlendra ferðamanna á Íslandi. Þrátt fyrir þær miklu umbúðir, sem þessi tvö efnisatriði eru klædd í, tel ég engan vafa á, að þetta er meginkjarni málsins. Og það er þess vegna, sem ég tel málið ekki vera þarft mál.

Í hinum níu greinunum eru mörg ágæt nýmæli, sérstaklega þó það ákvæði, að framvegis skuli ríkið veita ½ millj. kr. árlega til þess að standa undir landkynningarstarfsemi og stuðla að auknum ferðamannastraumi til landsins. Sömuleiðis eru ákvæðin um stofnun ferðamálaráðs í sjálfu sér góð og æskileg, og mun ég koma að því síðar. En það, sem mundi valda mestri breytingu, ef frv. næði fram að ganga, er, að Ferðaskrifstofa ríkisins yrði að vísu ekki lögð niður, heldur yrði hún sett undir stjórn ferðamálaráðs, sem skipað skal fulltrúum ýmissa einkaaðila, en jafnframt mundi hvaða einkafyrirtæki sem er, hvaða einstaklingi sem er, verða heimilt að reka það sem atvinnu að veita erlendum ferðamönnum móttöku á Íslandi.

Vegna þess, að þetta frv. gerir ráð fyrir gerbreyttri aðstöðu Ferðaskrifstofu ríkisins, finnst mér sjálfsagt þegar við 1. umr. málsins að vekja athygli hv. þdm. á því, hvernig Ferðaskrifstofa ríkisins hefur starfað samkv. gildandi lögum, hvernig hún hefur sinnt því hlutverki, sem hún nú hefur samkv. lögum.

Ferðaskrifstofa ríkisins hefur starfað í núverandi mynd í nærfellt níu ár. Meginstörf hennar hafa verið í fyrsta lagi að kynna Ísland á erlendum vettvangi, í öðru lagi að veita innlendum og erlendum ferðamönnum hvers konar upplýsingar um ferðalög og ferðaskilyrði, í þriðja lagi að taka á móti erlendum blaða- og kvikmyndatökumönnum, sem hingað hafa komið með það fyrir augum að kynnast landinu og íslenzkum málefnum og skrifa síðan og flytja fyrirlestra um Ísland og íslenzkt þjóðlíf í heimalöndum sínum. Í fjórða lagi hefur hlutverk hennar verið að skipuleggja orlofs- og skemmtiferðir innanlands og utan, í fimmta lagi að stuðla að gerð boðlegra minjagripa og annast sölu þeirra á Keflavíkurflugvelli og í afgreiðslu skrifstofunnar í Reykjavík og í sjötta og síðasta lagi að annast eftirlit með gisti- og greiðasölustöðum.

Starfsemi Ferðaskrifstofunnar hefur verið margþætt. En þetta, sem ég nú nefndi, hefur verið hlutverk hennar. Ferðaskrifstofan hefur starfrækt skrifstofu hér í Reykjavík, sem hefur í samræmi við verkefni stofnunarinnar í heild haft víðtækum verkum að sinna, að svara bréfum og gefa upplýsingar, ekki aðeins um ferðalög og ferðaskilyrði, heldur einnig um atvinnu og þjóðhætti Íslendinga, að annast samningu margs konar upplýsingarrita um Ísland á ýmsum tungum, útgáfu þeirra og dreifingu, að taka á móti erlendum blaða- og kvikmyndamönnum, sem oft er veitt ókeypis uppihald, og alltaf séð fyrir ókeypis ferðalögum, leiðsögu og hvers konar fyrirgreiðslu annarri, enn fremur að sjá erlendum blaðamönnum fyrir myndum til birtingar í erlendum blöðum og stundum jafnvel efni í blaðagreinar. Þá hefur skrifstofan enn fremur látið taka og keypt kvikmyndir, sem hún síðan hefur lánað ókeypis til sýninga erlendis eða sýnir hér erlendum ferðamönnum.

Starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins hefur ekki einvörðungu verið fólgin í því .að reka skrifstofu hér í Reykjavík. Hún hefur einnig átt frumkvæði og hlutdeild að rekstri upplýsingaskrifstofu í London, en sú skrifstofa er rekin í samvinnu við Eimskipafélag Íslands og Flugfélag Íslands og kostuð að 1/3 að Ferðaskrifstofu ríkisins. Höfuðverkefni þeirrar skrifstofu er, eins og geta má nærri, að stuðla að auknum ferðamannastraumi frá Bretlandseyjum hingað til Íslands. Á Akureyri hefur Ferðaskrifstofan enn fremur rekið upplýsingaskrifstofu til þess að veita ferðamönnum, sem koma til Akureyrar, upplýsingar og fyrirgreiðslu. Á Keflavíkurflugvelli heldur skrifstofan enn fremur uppi fyrirgreiðslustarfsemi, auk þess sem hún selur þar minjagripi, en þar er einmitt vettvangur fyrir landkynningu, sem meira fé þyrfti að verja til en gert hefur verið.

Ferðaskrifstofan hefur þegar frá byrjun lagt á það áherzlu að fá gerða minjagripi og í því skyni stofnað til sölu- og samkeppnissýninga á handunnum íslenzkum munum. Í framhaldi af því hefur verið stofnað til samvinnu við Heimilisiðnaðarfélag Íslands, komið á fót fyrirtækinu Íslenzkur heimilisiðnaður, sem hefur það markmið að stuðla að gerð minjagripa.

Ég gat þess áðan, að Ferðaskrifstofan skyldi einnig annast hóteleftirlit. Því miður hefur ekki orðið eins mikið úr þeirri starfsemi og æskilegt hefði verið sökum fjárskorts, en það æskilegasta í þeim efnum hefði verið að ráða sérstakan kunnáttumann, sem væri til leiðbeiningar um rekstur greiðasölustaða.

Af þessu kemur fram, að starfsemi Ferðaskrifstofunnar hefur verið mjög fjölþætt og verkefni hennar mikið og víðtækt.

Þá er eðlilegt, að sú spurning vakni, hversu mikið hið opinbera hafi lagt til þessarar starfsemi, sem er mjög mikilvæg, eins og hv. frsm. gat um í ræðu sinni, hversu mikið hið opinbera hefur lagt til þessarar starfsemi á þeim níu árum, sem Ferðaskrifstofan hefur starfað. Heildarframlag hins opinbera til Ferðaskrifstofunnar á árunum 1946–1954 hefur numið aðeins 1578000 kr.

Af þessu fé hefur Ferðaskrifstofan safnað í sjóð 4500 þús. kr., svo að eyðsla hennar af opinberu fé til þessarar umfangsmiklu starfsemi hefur ekki verið nema 1128000 kr., eða um 125 þús. kr. á ári. Öll sú umfangsmikla starfsemi, sem Ferðaskrifstofan hefur annazt til landkynningar og fyrirgreiðslu við komu erlendra ferðamanna til landsins, hefur því ekki kostað hið opinbera nema 125 þús. kr. á ári að meðaltali í níu ár.

Þá er eðlilegt, að menn spyrji: Hefur þá raunverulega verið hægt að gera nokkuð fyrir þetta fé, fyrst það er svona lítið? Er þá starfsemin nokkurs virði? En þá er þess að geta, að Ferðaskrifstofan hefur sjálf aflað sér mikilla tekna og þess vegna verið fær um að eyða miklu meira fé en hinum beinu framlögum ríkisins til landkynningarstarfseminnar. Á umræddu tímabili hafa rekstrartekjur, ef svo mætti segja, hagnaður Ferðaskrifstofunnar af ýmsum rekstri sínum orðið 2 millj. og 691 þús. kr. Stærsti tekjuliðurinn er nettótekjur af seldum minjagripum á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík, 1 millj. og 35 þús. kr., af ferðalögum 1 millj. 504 þús. kr. og af útgáfu póstkorta o. fl. 152 þús. kr., samtals 2 millj. 691 þús. kr., eð.a á ári tæpar 300 þús. kr. Samtímis því, sem ríkisvaldið hefur lagt Ferðaskrifstofunni til landkynningarstarfsemi aðeins 125 þús. kr. á ári, hefur þessi stofnun sjálf aflað sér árlega 300 þús. kr. til þessa starfs, þannig að hún hefur getað varið til þess 425 þús. kr. á ári.

Ég fullyrði, að þessar tölur verði taldar bera vott um óvenjulega góðan, ágætan rekstur opinberrar stofnunar. Þó er það þannig, að um afkomu Ferðaskrifstofu ríkisins hverju sinni ríkir hin mesta óvissa, vegna þess að framlag hins opinbera hrekkur skammt til að standa undir starfsemi skrifstofunnar, og tekjuöflunarmöguleikar þeir, sem hún hefur aðallega treyst á, geta auðvitað brugðizt. Þess er rétt að geta í þessu sambandi, að milli Ferðaskrifstofunnar og flugfélaganna og Eimskipafélagsins hefur verið hin ágætasta samvinna, og það. hversu sú samvinna hefur verið góð, hefur gert Ferðaskrifstofunni kleifara en ella að gegna hlutverki sínu þrátt fyrir takmörkuð fjárráð. En einmitt hin góða samvinna við flugfélögin og Eimskipafélagið hefur gert Ferðaskrifstofunni kleift að bjóða hingað árlega miklum fjölda erlendra blaðamanna, fyrirlesara og kvikmyndatökumanna, sem haft hafa síðan mikla þýðingu fyrir kynningu á Íslandi og íslenzkri menningu erlendis, eða í heimalöndum sínum. Það er óhætt að fullyrða, að kynningarstarfsemi þeirra manna, sem komið hafa hingað á vegum Ferðaskrifstofunnar, hafi náð til milljóna manna í öðrum löndum. Ferðaskrifstofan hefur auk þess gefið út upplýsingarit á ári hverju. T. d. á s. l. ári gaf hún út upplýsingarit í 95 þús. eintökum. Hún hefur einnig lagt áherzlu á að eignast góðar kynningarkvikmyndir, ýmist látið taka þær eða keypt þær af öðrum, og eru þessar myndir, að því er mér hefur verið frá skýrt, í stöðugum útlánum erlendis. Er svo mikil eftirspurn eftir slíkum myndum, að henni hefur ekki verið hægt að fullnægja. Fjárskortur hefur valdið því, að ekki hefur verið hægt að gera nógu mörg eintök af myndunum til þess að fullnægja eftirspurninni.

Ég hygg að fullyrða megi, að aðalályktunin, sem draga má af því, sem ég hef nú sagt, sé sú, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi innt af hendi það hlutverk, sem henni hefur verið falið í lögum, með einstakri prýði. Hún hefur ekki látið við það sitja að verja því fé, sem henni hefur verið veitt af hinu opinbera til landkynningarstarfsemi, heldur lagt sig í framkróka um að afla sjálf fjár til viðbótar til þess að geta innt hlutverk sitt af hendi, og orðið svo vel ágengt á því sviði, að henni hefur tekizt árlega að afla tvisvar til þrisvar sinnum meira fjár sjálf en hið opinbera hefur lagt henni til.

Samt sem áður er það fé, sem Ferðaskrifstofan hefur ráðstafað, um 425 þús. kr. á ári að meðaltali, allt of lítið. Á því felst full viðurkenning í frv. því, sem hér er um að ræða, þar sem gert er ráð fyrir, að framlög hins opinbera til ferðamála verði aukin upp í ½ millj. kr. á ári. Það nýmæli frv. er vissulega gott og fyllsta stuðnings vert. Hið sama er um þau ákvæði frv. að segja, sem lúta að stofnun ferðamálaráðsins. Ég teldi mjög æskilegt út af fyrir sig að tengja þær stofnanir, sem taldar eru upp í 1. gr. frv. og hv. frsm. nefndi, Eimskipafélagið, Félag sérleyfishafa, Ferðafélag Íslands og Ferðamálafélag Reykjavíkur, flugfélögin og Samband veitinga- og gistihúsaeiganda, saman í eina stofnun, sem hafa skyldi það hlutverk samhliða Ferðaskrifstofunni að stuðla að auknum ferðamannastraum til Íslands. Þetta eru allt aðilar, sem hafa reynslu á þessu sviði og hafa áreiðanlega yfir að ráða sérþekkingu, sem mundi geta komið að góðu haldi. Ég hef því í sjálfu sér ekkert við það að athuga, að slíkt ferðamálaráð sé stofnað, og auðvitað enn siður, ef gera má ráð fyrir, að framlög ríkisins til ferðamála verði aukin upp í hálfa milljón á ári.

Hitt teldi ég mjög varhugavert, að leggja starfsemi Ferðaskrifstofunnar undir ferðamálaráðið og jafnframt að heimila einkafyrirtækjum að reka ferðaskrifstofur og gera þannig móttöku erlendra ferðamanna að venjulegum einkaatvinnurekstri, sem lyti gróðasjónarmiðum. Ég vil leggja á það sérstaka áherzlu, að það er varhugavert að gera landkynningarstarf og móttöku erlendra ferðamanna hjá smáþjóð eins og okkur Íslendingum að einkaatvinnurekstri. Útlendir ferðamenn eiga ekki og mega ekki verða einkafyrirtækjum að féþúfu. En þar sem erfiðleikarnir eru jafnmiklir á því að veita erlendum ferðamönnum sómasamlegar viðtökur eins og hér á sér stað, þá er einmitt hætt við, að slík mundi verða raunin á, ef hér yrði um venjulegan einkaatvinnurekstur að ræða. Öðru máli gegnir í þeim nágrannalöndum, sem hafa mjög góð skilyrði til þess að veita erlendum ferðamönnum viðtöku. Ekki er sama hætta á, að einkafyrirtæki geri þetta þar að féþúfu með því að veita lélega þjónustu, því að alls staðar eru skilyrði til þess að búa vel að erlendum ferðamönnum. En hér á landi er einmitt hinn mesti skortur á aðstöðu til þess að veita þeim góða viðtöku. Það er einmitt eitt höfuðvandamálið, sem við eigum við að etja í þessum efnum. Þess vegna teldi ég mjög varhugavert, að einkafyrirtæki tækju þennan rekstur að sér með venjulegum hætti, því að ég tel þá sérstaka hættu á, að hið ófullnægjandi ástand yrði oft og einatt hagnýtt þannig, að það yrði einkaferðaskrifstofunum, sem móttökurnar annast, gróðalind, en hinum erlendu ferðamönnum yrði ekki veitt sú þjónusta, sem nauðsynleg er, til þess að heimsóknin til landsins geti skilið eftir hjá þeim þær endurminningar, sem æskilegt er.

Þess mætti og geta í þessu sambandi, að í frv. er gert ráð fyrir því, að ferðamálaráðið, ef stofnað yrði, réði sér sérstakan framkvæmdastjóra, auk þess sem frv. gerir ráð fyrir, að Ferðaskrifstofan haldist áfram og þá væntanlega undir sínum sérstaka framkvæmdastjóra. Hér er því í raun og veru verið að stofna til nýs embættis við hliðina á framkvæmdastjóra Ferðaskrifstofunnar, og finnst mér hér vera um að ræða óþarfa skriffinnsku, sem mundi kosta talsvert fé. Það er að sjálfsögðu alveg ástæðulaust að hafa nema eitt höfuð á þessum málum, og það er auðvitað eðlilegast, að það sé framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofunnar, sem hefur aðalverkefninu að sinna á þessu sviði. Framkvæmdastjóri ferðamálaráðs yrði nýtt skriffinnskuembætti, sem hlyti að kosta verulegt fé, en verkefni hans gæti ekki verið annað en ætti að sjálfsögðu að vera verkefni forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins.

Niðurstaðan af því, sem ég hef sagt, er því þessi: Ég teldi stofnun ferðamálaráðs, eins skipaðs og gert er ráð fyrir í 1. gr., í sjálfu sér vera spor fram á við, sérstaklega ef því fylgdu aukin framlög af hálfu hins opinbera, eins og gert er ráð fyrir í frv. En ég tel það mikið spor aftur á bak, ef 5. og 9. gr. frv. næðu fram að ganga, þ. e. a. s. gildandi lög um Ferðaskrifstofu ríkisins væru afnumin og móttaka erlendra ferðamanna yrði gerð að venjulegum einkaatvinnurekstri, sem lyti almennum gróðasjónarmiðum. Ég tel, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi með starfsemi sinni í níu ár sannað tilverurétt sinn og gildi þess rekstrarfyrirkomulags, sem á henni er, svo ótvírætt, að hún eigi nú, um það leyti sem hún eignast tíu ára afmæli, allt annað skilið en að henni sé vegið á þann hátt, sem mundi verða, ef þetta frv. næði fram að ganga.

Ég fyrir mitt leyti væri sem sagt reiðubúinn til að styðja að framgangi þessa frv. með þeim breytingum, að úr því yrðu felldar 5. og 9. gr. þess. Þá tel ég, að frv. gæti orðið til þess, sem hv. frsm. sagði í framsöguræðu sinni að fyrir sér vekti að bæta landkynningu og stuðla að auknum ferðamannastraum til Landsins. Annars segir mér svo hugur um, að áhrif frv. yrðu önnur og verri.