18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2238)

171. mál, landkynning og ferðamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þótt íslenzki saltfiskurinn sé vafalaust ágæt landkynning, þá fjallar nú þetta frv. ekki um hann, og mér finnst nú heldur orðin fátækleg röksemdafærslan hjá hv. 1. landsk. þm., þegar hann þarf að flýja frá málefninu og fara að tala um allt önnur óskyld mál.

Við skulum halda okkur við það frv., sem fyrir liggur, og nú eru síðustu röksemdir hv. þm. þessar: Vegna þess, hve við erum skammt á veg komnir í landkynningu og ferðamálum, verðum við að hafa einokun. Það getur verið allt í lagi í Noregi, þar sem flokksbræður hans hafa stjórnað í 20 ár, og öðrum löndum, því að þeir eru komnir svo miklu lengra áleiðis í þessum málum. — Við skulum athuga þessa röksemdafærslu: Vegna þess að við erum svo skammt á veg komnir, verðum við að hafa einokun. — Hann heldur, að það sé betra fyrir þessi mál að útiloka og banna einstaklingum, félögum og öðrum aðilum, sem hafa þekkingu, hafa nokkra reynslu, hafa fjármagn og vilja vinna að móttöku erlendra ferðamanna og örva strauminn hingað. Hann telur heppilegra fyrir landkynningar- og ferðamálin að banna slíkum aðilum alla þeirra starfsemi til þess að halda þessari heittelskuðu einokun sinni. Ég er gersamlega á öndverðri skoðun. Ég held, að það mætti jafnvel snúa röksemdafærslu hans við, að einmitt vegna þess, að við erum skammt á veg komnir í þessum efnum, sé þeim mun meiri þörf á því að hafa hér athafnafrelsi og gefa öllum mönnum og aðilum, sem hafa til þess hæfileika, hafa til þess bolmagn og áhuga, frelsi til að vinna að þessum málum.