18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

171. mál, landkynning og ferðamál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þessi athugasemd getur orðið mjög stutt. Ég vil aðeins láta þess getið, að ég svaraði þeirri fsp., sem hv. þm. beindi til mín um rök fyrir því að hafa aðra skipun á þessum málum hér en í Noregi. Þó að okkur kunni að greina á um gildi þeirra raka, sem ég flutti, þá svaraði ég þó a. m. k. En hv. 7. þm. Reykv. flutti engin rök fyrir því, hvers vegna eðlilegt væri að hafa einokun á því sviði, sem ég nefndi, í saltfisksölunni hér, þó að hann teldi það vera réttlætanlegt og sjálfsagt, að Norðmenn hefðu þar frelsi í útflutningsverzlun sinni. (GTh: Ég sé ekki, að saltfiskurinn sé hér á dagskrá.) Nei, en engu að síður er ekki nema eðlilegt, að rætt sé um gildi einokunar almennt. Það var einmitt ein höfuðröksemd hv. 7. þm. Reykv. gegn málfærslu minni, að einokun væri óeðlileg í sjálfu sér og skaðleg þeim atvinnurekstri, sem um væri að ræða. Það sagði hann einnig í sinni síðustu ræðu. En ég vildi aðeins benda á, að hann telur ekki alltaf, að einokun þurfi að vera skaðleg, t. d. ekki í saltfiskverzluninni. Og þá sé ég ekki, hvers vegna það er alveg útilokað, að einokun geti í öðrum atvinnurekstri einnig verið gagnleg, á sama hátt og hann telur hana sjálfur vera í saltfiskverzluninni.