14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Með frv. því á þskj. 14, sem hér er til umr., er sú kvöð lögð á ríkissjóðinn, ef að l. verður, að leggja þegar fram nægilegt fé til að reisa og reka vistheimili fyrir stúlkur, sem eru á glapstigum, eða leggja til á annan hátt hentugt húsnæði til þessarar starfsemi. Jafnframt er ríkissjóði heimilað að starfrækja vinnuheimili fyrir öryrkja og gamalmenni í sambandi við vistheimili stúlknanna, ef húsrúm og aðrar ástæður leyfa.

Áður en ég ræði hinar einstöku greinar frv., vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þá nauðsyn, sem óhjákvæmilega hlýtur að knýja fram byggingu og rekstur slíks heimilis, ef fyrirbyggja skal þá hættu, sem því er samfara fyrir þjóðfélagið í heild að láta þessi mál afskiptalaus eða skjóta raunhæfum aðgerðum á frest um óákveðinn tíma.

Eins og kunnugt er, samþ. Alþ. árið 1947 allmikinn lagabálk um vernd barna og unglinga, en í 37. gr. þeirra l. er svo fyrir mælt, að koma skuli upp tveimur heimilum fyrir unglinga, sem lent hafa á glapstigum, öðru fyrir drengi, en hinu fyrir stúlkur, þegar fé er til þess veitt á fjárl. Eftir að þessi l. voru samþ., var húsameistara ríkisins falið að athuga, hvað slík heimili mundu kosta, ef byggja ætti upp öll hús frá grunni. Mun hann þá hafa gert bráðabirgðauppdrætti að heimilunum, sem ég hef síðar fengið tækifæri til þess að athuga, og áætlaði, að hvort um sig mundi kosta um 5 millj. kr., og var þá miðað við heimili, sem tækju um 30 vistmenn. Mér er samt ekki fullkomlega ljóst á þessu stigi, hvort hér hefur verið gert ráð fyrir öllu því, sem með þarf í slíku heimili, eða fyrir hve marga menn aðra en vistmennina hvort heimili var ætlað, sem kemur til af því, að það hefur ekki verið ákveðið enn að nota þá uppdrætti, sem hér lágu fyrir, einmitt vegna þess, hversu mikið fé þyrfti til að koma slíku heimili upp. Hins vegar voru árið 1952 veittar 150 þús. kr. til rekstrar slíks heimilis og aðrar 150 þús. kr. til byggingar. Má geta nærri, að með þeim upphæðum varð ekki komizt langt í því að leysa þann vanda, sem hér var á höndum, eða með að uppfylla fyrirmæli l. Þetta sama ár skipaði svo þáverandi menntmrh. mig sem formann í þriggja manna framkvæmdanefnd til þess að koma upp heimili fyrir afvegaleidda unglinga, og fékk n. til umráða fyrrnefnda upphæð, alls 300 þús. kr. Í samráði við barnaverndarráð og barnaverndarnefndir var ákveðið að hefjast handa um byggingu á heimili fyrir drengi, sem þá þótti svo aðkallandi, að ógerlegt þótti að láta það dragast öllu lengur að gera jákvæðar aðgerðir í málinu. Það var þá m. a. vitað, að ákveðinn hópur drengja stundaði gripdeildir og dró með sér enn yngri drengi, jafnvel hrein börn að vizku og aldri, til þess að kenna þeim, auk þess sem þeir ollu skemmdum, sem námu tugþúsundum. Var á engan hátt unnt að loka augunum fyrir þessu ástandi og gera róttæka tilraun til úrbóta. Ríkisstj. og Alþ. hafa síðan sýnt þessum málum mikinn skilning og látið í té á þessu tímabili 1.6 millj. kr. til heimilisins, en þrátt fyrir það er langt frá því, að drengjaheimilið sé komið í það horf sem það verður að komast í, ef nokkur möguleiki á að vera á því að reka heimilið með sæmilegum árangri.

Til þess að hv. þm. geti fengið nokkurn veginn glögga mynd af því, sem þar er eftir að gera og ekki er unnt að fresta nema mjög takmarkaðan tíma, þykir mér rétt að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, afrit af bréfi, er framkvæmdanefndin sendi hæstv. menntmrh. 16. f. m. vegna undirbúnings fjárl., svo að ljóst lægi fyrir, hver þörfin væri fyrir fjárframlag á næsta ári, en kafli bréfsins hljóðar svo:

„Eins og nú standa sakir, eru herbergi til í Breiðuvík fyrir 15 vistdrengi, ef gert er ráð fyrir, að þrír drengir búi í hverju herbergi. Þar eru enn fremur 2 lítil herbergi fyrir kennara, 3 herbergi fyrir bústjóra og 3 lítil herbergi fyrir þjónustufólk. Nú hefur reynslan sýnt, að óhjákvæmilegt er að hafa a. m. k. 2 kennara, ef taka á 15 drengi á heimilið, og eru þá engin herbergi fyrir hinn nýja kennara að dvelja í, nema því aðeins að taka eitt herbergið, sem drengirnir hafa, handa kennaranum, og fækka drengjunum niður í 10, sem er algerlega óviðunandi. Auk þess er aðeins ein borðstofa sameiginleg fyrir heimilið og enginn staður annar, þar sem drengirnir eða heimilisfólkið getur safnazt saman til þess að dvelja í. Skólastofan er raunverulega allt of lítil fyrir 15 drengi, og engin smíðastofa er til, er hægt sé að kenna í. Það er alveg óhjákvæmilegt að byggja á næsta ári bústað fyrir kennara ásamt smíðastofu, svo að hægt sé að starfrækja heimilið með 15 drengjum sem lágmark. Eigi hins vegar að útbúa heimili fyrir 30 drengi, eins og hugsað var í upphafi, þarf að tvöfalda húsakostinn á staðnum, og mun það ekki kosta minna en 1½ millj. kr. Til þess að geta starfrækt heimilið í framtíðinni og draga úr rekstrarhalla, þarf að auka stórkostlega búið, byggja peningshús og brjóta landið, og er áætlun um fjárfestingu á næstu ári byggð á því, að hluti af þessu verði framkvæmdur nú þegar. Þá er óhjákvæmilegt í framtíðinni að bæta aðstöðu til útgerðar á staðnum, og er erfitt að segja um, hve mikið fé þarf í allar þessar framkvæmdir, fyrr en fyrir liggur heildarskipulag, áætlanir og teikningar hér að lútandi, en telja má, að fyrir minna en 4–5 millj. kr. verði þessar framkvæmdir ekki allar gerðar.

Hvað snertir kostnaðaráætlun fyrir rekstur og byggingar fyrir vistheimili fyrir telpur, þá fer það sjálfsagt eftir því, hvort byggja á stofnun upp að öllu leyti frá grunni eða hvort notazt verður við byggingu, sem þegar væri til, svo sem eitthvað af skólum landsins. Mundi þá sú stofnun komast af með um 500 þús. kr. á næsta ári, en að öðrum kosti má gera ráð fyrir, að stofnunin þyrfti 6–8 millj. kr. til þess að byggja upp allar nauðsynlegar byggingar, er rúmað gætu 30–40 stúlkur með tilsvarandi starfsliði.“

Þessar upplýsingar voru sendar til hæstv. menntmrh., sem hann mun hafa einnig sent til hæstv. fjmrh., en niðurstaðan er þó samt sem áður sú samkvæmt fjárlagafrv., sem fyrir liggur, að aðeins hafa verið teknar upp 150 þús. kr. til rekstrar, þrátt fyrir það þótt sýnt hafi verið, að áætlunin um að reka heimilið eins og það er nú nemur ekki minna en 300 þús., og aðeins 400 þús. kr. til fjárfestingar, þó að hefði þurft þá upphæð, sem ég þegar hef greint, svo að það er sýnilegt, að ekkert af því fé, sem tekið er inn á fjárl. nú, getur farið til þess að fullnægja ákvæðum l. frá 1947 um byggingu eða rekstur stúlknaheimilis.

Mér þykir rétt í sambandi við þetta mál að upplýsa, að síðan drengjaheimilið í Breiðuvík tók til starfa, þótt í svo smáum stíl sé sem ég hef lýst, hefur dregið stórkostlega, sem betur fer, úr afbrotum drengja á þessu tímabili, sem kemur m. a. til af því, að þegar þeir vita, að til er staður, þar sem hægt er að senda þá á, virðist sem þeir hugsi sig frekar um að fremja ekki afbrotin eins og ef ekkert heimili er til þess að taka við þeim.

Af þessu, sem ég þegar hef sagt, er ljóst, að sú upphæð, sem hæstv. fjmrh. hefur ætlað til þessarar starfsemi á næsta ári, þ. e. 150 þús. kr. til rekstrar og 400 þús. kr. til fjárfestingar, er engan veginn nægileg til þess að fullnægja þörfinni um rekstur og fjárfestingu fyrir drengjaheimilið, hvað þá heldur fyrir bæði heimilin. Verður því að verða hér allmikil hækkun á framlaginu, þótt frv. það, sem hér um ræðir, verði ekki samþ. Þetta sýnir þá einnig, að engir möguleikar eru fyrir hendi að koma upp eða starfrækja heimili fyrir stúlkur með því einu fé, sem lagt er til í fjárlfrv. að veitt verði til þessara mála.

Þegar ég á annað borð hafði tekið að mér fyrir beiðni hæstv. ríkisstj. að hafa forustu um uppbyggingu þessara mála, neyddist ég að sjálfsögðu til þess að kynna mér ástand þeirra miklu meir en annars. Ég þurfti ekki nema að skyggnast örlítið inn í veruleikann til þess að fullvissa mig um af eigin sjón og heyrn, hversu aðkallandi það er að koma upp vistheimili fyrir stúlkur, og ég hygg, að ef mér hefðu verið þau sannindi ljós, þegar hafizt var handa um að byrja á drengjaheimilinu, þá hefði ég beitt mér meira fyrir því en ég gerði, að heimilið fyrir stúlkur yrði látið ganga fyrir. Svo ríka tel ég þörfina fyrir þessa stofnun. Við að fletta nokkrum blöðum í bók lögreglunnar í Reykjavík komst ég að raun um, að ekki færri en 92 stúlkur á aldrinum 12–22 ára hafa verið á villigötum, og þær hafa allar byrjað þetta líf á aldrinum 12–14 ára. Skýrslurnar sýna einnig, að eftir því sem þær eltust, eftir því urðu þær sólgnari í að draga með sér út á þessa sömu braut börnin, sem enn voru aðeins 12 ára að aldri og vissu raunverulega ekki fyrr en of seint, í hvaða voða þau höfðu verið ginnt. Ég ætla mér ekki að lýsa hér öllum þeim harmleik, sem fram kemur í réttarhöldunum yfir þessum óhamingjusömu börnum og aðstandendum þeirra, en hann hefur sannfært mig um, svo að ekki verður um villzt, að hér er um svo stórkostlegt þjóðarböl að ræða, að það væri mikill misskilningur að horfa í nauðsynlegt framlag til þess að bæta úr því.

Mér þætti ekki óeðlilegt. að einhver hv. þm. spyrði, hvort yfirleitt sé unnt að bæta úr þessum málum með því að koma upp og starfrækja vistheimili fyrir stúlkur, sem á annað borð eru komnar inn á þessa braut, hvort ekki sé hér um að ræða glataða möguleika fyrir þessa unglinga til þess að lifa lífinu á sama hátt og annað fólk og hvort öll þessi fyrirhöfn og allt þetta umstang sé ekki unnið fyrir gig. Ekki einasta vegna þess, að ég gat búizt við slíkum spurningum, heldur og vegna þess, að ég hef margsinnis spurt mig sjálfan að þessu sama, hef ég gert mér allmikið far um að kynnast árangri annarra þjóða af sams konar starfsemi, og m. a. notaði ég allar mínar frístundir í sumar, er ég var á Norðurlandaráðstefnunni í Noregi, til þess að kynna mér málið þar í landi og árangur þann, sem þar hefur fengizt. Þá hef ég einnig kynnt mér þetta bæði í Englandi og Danmörku, og í öllum þessum löndum hefur náðst mikill árangur, en mestur þó þar, sem skilningurinn á mannlegu eðli og kjörum unglinganna hefur verið mestur og þar sem unglingarnir jafnframt hafa mætt mestum kærleika og mestri umönnun. Hafa þau heimili, þar sem slíkur andi hefur ríkt, ekki einasta getað gert stúlkur þessar svo að segja undantekningarlaust að prýðilegustu borgurum, sem mjög eru eftirsóttir síðar til margvíslegra starfa fyrir þjóðfélagið og sumra allábyrgðarmikilla starfa, heldur hefur þeim einnig tekizt að tengja hugi þeirra svo við þessar stofnanir, að þær hafa talið það mesta lán sitt að hafa komizt þangað á réttu augnabliki lífsins og gleyma aldrei þeirri kjölfestu, sem þær fengu þar og reyndist þeim síðar happadrjúg í lífsbaráttunni. — Læt ég þessi orð mín nægja almennt um málið, en skal hins vegar ræða nokkuð hinar einstöku greinar frv.

1. gr. frv. mælir svo fyrir um, að þegar skuli hefja undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkvæmt lögum um vernd barna og unglinga frá 1947 og ríkissjóði sé skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins. Einmitt vegna þessa fyrirvara, sem er í lögunum frá 1947, að þetta skuli gert, þegar fé er til þess veitt á fjárlögum, er óhjákvæmilegt að fá þetta ákvæði þegar lögfest, ef bæta á úr því ástandi, sem nú ríkir og ég hef þegar lýst. — Þá er einnig í 1. gr. vísað til ákvæða 2. málsgr. 37. gr. l. frá 1947, en sú málsgr. kveður á um það, hvaða aðilar aðrir skuli einnig bera kostnað af rekstri slíkra heimila, og er ekki ástæða til að raska því með nýjum ákvæðum.

Þessi 1. gr. frv. er að efni til þannig, að þó að hinar aðrar gr. þess yrðu felldar, en hún ein samþykkt, þá yrði samt sem áður höfuðtilgangi frv. náð, þ. e., að þegar skyldi hafizt handa um að koma heimilinu upp og starfrækja það. En einmitt vegna þess, hversu stórar fjárfúlgur ríkissjóður yrði þá að leggja fram á skömmum tíma til þess að fullnægja fyrirmælum greinarinnar, og eins vegna hins, að nauðsynlegt er að koma þessum málum í framkvæmd hið allra skjótasta, hefur mér þótt rétt að ákveða í 2. gr. frv., að ríkisstj. skuli leita samkomulags við viðkomandi aðila um að taka fyrir vinnuheimili ákveðinn héraðsskóla, sem ekki eru líkindi til að verði starfræktur í framtíðinni sem skóli. Hefur skóli þessi mikið og gott húsnæði og er fyrir margra hluta sakir vel til þess fallinn að starfrækja þar slíkt heimili, þar er nægur jarðhiti, sundlaug, kennslustofur, borðstofur og eldhús og heimavistarskilyrði ágæt. Samgöngur við skólann eru ágætar, bæði frá sjó og landi, og þó er hann allmikið úr alfaraleið. Allt mælir þetta með því, að þessi staður sé tekinn fyrir slíka starfsemi, þegar sýnilegt er, að aðsókn að skólanum hefur minnkað það mikið, að engin líkindi eru til, að hann verði framvegis starfræktur sem slíkur. Í greininni er einnig ákvæði, sem heimilar eignarnám á þeim hluta eignanna, sem ríkissjóður er ekki þegar eigandi að, ef ekki skyldu takast samningar um afhendingu skólans. Þá er einnig í þeirri gr. ákvæði um það, að héraði sé gefinn kostur á því að starfrækja elli- og örorkuheimili í stofnuninni, eftir því sem húsnæði og aðrar aðstæður leyfa, en því er þetta ákvæði sett inn, að það er eitt af vandamálum sveitanna að hafa ekki yfir að ráða slíkum heimilum og verða því oft að senda þessa aðila til bæjanna, þar sem þeim er engan veginn betur borgið, nema síður sé, enda oftast miklu kostnaðarsamara. Hins vegar væri ekki nægilegt húsrúm einnig fyrir slíka starfsemi í þeim húsakynnum, sem fyrir eru í skólanum.

Eitt af því allra nauðsynlegasta í sambandi við rekstur heimila fyrir afvegaleidda unglinga er að hafa nægileg verkefni fyrir þá og þá helzt verkefni, sem henta einnig sem þáttur í uppeldi þeirra. Á heimili stúlknanna kemur þá frekast til greina allt, sem lýtur að húsverkum og hússtjórn. Rekstur elli- og örorkuheimilis í sambandi við stofnunina er því tilvalið verkefni fyrir stúlkurnar. Auk þess sem það mundi skapa margvíslegri störf fyrir telpurnar, þá mundi það jafnframt brjóta þann brodd, sem þeim kynni að finnast að fælist í því að vera vistaðar á heimili, þegar vitað er, að verkefnið er annað og meira en einungis að einangra þær frá þeim stöðum, sem sýnilegt er að þær hafa ekki haft gæfu af að vera á. Og því er það, að í 3. gr. er tekið upp ákvæði, sem heimilar ríkissjóði að starfrækja slíka stofnun í sambandi við vistheimilið, ef héraðið sjálft óskar ekki eftir að gera það.

Mér þykir rétt að benda á, að þessi starfsemi öll, sem er hér ætlazt til að komið verði á fót, er sannarlega engu ómerkari eða minna virði fyrir þjóðfélagið en hin almenna kennsla í héraðsskólum og því engu minni sómi fyrir viðkomandi hérað að veita henni móttöku og sýna henni fulla samúð.

Í 4. gr. frv. er ákvæði um það, að vinnuheimili, sem ríkissjóður kynni að vilja reka samkvæmt 3. gr., skuli eiga allan sama rétt til fjárhagslegrar aðstoðar úr erfðafjársjóði og aðrir þeir aðilar, sem um ræðir í 2. gr. þeirra laga. En þau lög voru sett hér á Alþ. 1952 og þar gert ráð fyrir, að erfðafjárskatturinn rynni allur í sérstakan sjóð, en í 2. gr. þeirra l. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Því fé, sem rennur í erfðafjársjóð samkvæmt 1. gr., skal varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni, í því skyni að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum. Er heimilt að veita sveitarfélögum og öðrum félögum og einstökum mönnum lán úr styrktarsjóðum í þessu skyni, en þó fari samanlagðar upphæðir lána og styrkja eigi fram úr 2/3 stofnkostnaðar vinnuheimilis, vinnustofu og vinnutækja.“ Mundi það að sjálfsögðu létta undir starfrækslu stofnunarinnar og sjálfsagt að gera hér engan mun á, þótt ríkissjóður sé rekstraraðili.

Ég vil svo að endingu aðeins taka þetta fram: Samkvæmt 1. gr. frv. veltur einungis á því, hvort hv. þingmenn telja þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir þessu máli, nægilega sterk til þess, að ríkissjóður taki þegar á sig þá byrði, sem samþykkt hennar hefur í för með sér. Ég persónulega þykist þess fullviss, að þegar nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, hefur kynnt sér ástandið í þessum málum á sama hátt og ég hef gert og aðrir þeir, sem aðstöðu hafa haft til þess, þá muni hún komast að raun um, að það verði ríkissjóði og þjóðinni enn dýrara á öllum sviðum að gera ekki neitt til úrbóta í málinu. Ég er því í raun og veru ekki hræddur um, að sá hluti frv. falli hér á hv. Alþ. Hvort hin önnur ákvæði frv. ná fram að ganga eða ekki, veltur eingöngu á því, hvort hv. þm. kjósa heldur að leggja byrðina af byggingu allra nýrra húsa á ríkissjóðinn eða nota byggingar, sem þegar eru fyrir hendi og sýnilegt er að ekki verða notaðar til þess, sem þær í upphafi voru ætlaðar til, beinlínis vegna breyttra aðstæðna í landinu. Hér reynir raunverulega aðeins á almennt fjármálalegt hyggjuvit hv. þm. í sambandi við breytt viðhorf í þjóðfélaginu, sem ávallt og ævinlega eru fyrir hendi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar á þessu stigi. Ég legg til, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.