14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist þetta mál og frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 14, vera hið athyglisverðasta í alla staði, og ég veit, að hv. flm. hefur lagt mikla vinnu í að athuga, hvaða ráðstafanir eru líklegar til að koma að beztu gagni til að leysa þann vanda, sem samkv. frv. er ætlazt til að ríkisstj. fari nú að hefjast handa um að fást við.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér í lok ræðu sinnar áðan, að það, hversu skjótan framgang eða hversu skjótra aðgerða má vænta í þessu efni, hlýtur að sjálfsögðu mjög að fara eftir því, hvort ákvæði 2. gr. frv. gætu komið til framkvæmda, þannig að það húsnæði, sem þar væri, Reykjaskólans í Hrútafirði, yrði leigt til þessarar starfsemi. Um það, hvort það er fært eða ekki, hef ég alls ekki myndað mér neina skoðun enn. En mér finnst sjálfsagt, að það sé tekið til athugunar, því að augljóst er, að einmitt kostnaðurinn við að byggja slíkt hæli sem hér um ræðir, ef það er reist frá grunni, hlýtur að tefja aðrar framkvæmdir.

En það nýmæli í frv., sem sérstaklega olli því, að ég kvaddi mér nú hljóðs, er ákvæði 3. gr. um, að heimilt skuli vera ríkisstjórninni að stofna og reka vinnuheimili fyrir öryrkja og gamalmenni í sambandi við vistheimilið. Mér finnst þessi hugmynd út af fyrir sig mjög athyglisverð, hvort hægt væri að koma því þannig fyrir, að þær stúlkur, sem gert er ráð fyrir að lögin taki til, gætu annazt venjuleg störf á slíku heimili, umgengjust þar þá aðallega dvalargesti eins og öryrkja og gamalmenni. Þetta mál hefur tvær hliðar og þarf vel að athugast. Það hefur verið mikið um þetta mál rætt, en mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar hafi þetta tvennt verið sameinað undir einu þaki, vistheimili fyrir hálfgerðar vandræðastúlkur og dvalarheimili fyrir gamalmenni og öryrkja, svo að hugmyndin er ný fyrir mig og að vissu leyti talsvert lokkandi, ef svo mætti segja, — fullkomlega athugandi, hvort þetta væri gerlegt. Og ég vil fullyrða það, að ef þetta þætti fært, þá er með því haldið inn á nýjar brautir, og tel ég sjálfsagt að athuga vel og vandlega frá báðum hliðum, hvort þessi leið er fær. Sé það svo, er hér um athyglisvert mál að ræða, sem vert er að gefa hinn allra fyllsta gaum.

Að því er snertir ákvæði 4. gr. um, að ríkissjóður skuli eiga rétt til fjárhagsaðstoðar úr erfðafjársjóði, ef slíkt hæli sem þar um ræðir yrði stofnað, þá er í sjálfu sér kannske óþarft að setja þetta ákvæði inn í frv., vegna þess að í raun og veru hefur ríkisstj. nú úrslitavald um að ákveða um lánveitingar í þessu efni. En það skaðar þá ekki, þó að þetta standi þarna. En í því sambandi þykir mér rétt að skýra frá því, að það er augljóst, að geta sjóðsins til slíkra fyrirtækja sem þessara er hverfandi lítil. Ég ætla, að af tekjum ársins 1953, erfðafé til erfðafjársjóðsins, hafi verið komnar til Tryggingastofnunarinnar eitthvað rösklega 300 þús. kr., en reikningsskilum fyrir árið 1953 er ekki að fullu lokið enn til sjóðsins. Mér þykir því ótrúlegt, að sjóðurinn hafi meira fé, þó að tekjur ársins 1954 séu reiknaðar með, heldur en eitthvað milli 800 þús. og 1 millj. kr. Og það liggur í augum uppi, að ef af því er tekið lánsframlag til svo stórra fyrirtækja sem hér um ræðir, sem reikna kannske í stofnkostnað 5–8 millj. kr., þá verður afar lítið eftir eða ekkert, sem gæti orðið til aðstoðar sveitarfélögum, sem vildu koma upp t. d. gamalmennahælum eða öryrkjavinnustofum í smærri stíl. Sjóðurinn er ekki svo mikils megnugur, að hann geti gert hvort tveggja að veita sveitar- og bæjarfélögum tiltölulega smá lán til ekki stórra aðgerða og jafnframt lagt mikið af sínu fé til stofnunar stórra og dýrra vistheimila, sem gera má ráð fyrir að hér sé um að ræða. Þetta þótti mér rétt að benda á strax í upphafi, þannig að menn geri sér grein fyrir getu sjóðsins til stuðnings í þessu efni.