14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. dómsmrh. og hv. 4. þm. Reykv. fyrir undirtektirnar undir þetta frv. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hef verið í fullu samráði við ríkisstj. um undirbúning málsins. Við höfum rætt þetta allýtarlega. Ég er honum einnig mjög þakklátur fyrir alla þá samúð, sem hann hefur sýnt þessu máli frá þeim tíma, er við byrjuðum að vinna saman að því.

Eins og ég tók fram áðan, þá er það út af fyrir sig ekkert keppikefli fyrir mig eða fyrir framkvæmdanefndina, hvort Reykjaskóli er tekinn undir þessa starfsemi eða ekki, að öðru leyti en því, að það mundi flýta fyrir framkvæmdunum. Hitt er aðalatriðið, hvort 1. gr. frv. verður samþykkt og það atriði kemur til framkvæmda að koma heimilinu upp, með hvaða hætti sem það verður.

Ég skal í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að okkur hafa verið boðin ýmis húsakynni hér og þar á landinu, sem sjálfsagt væri hægt að reka slíka stofnun í til bráðabirgða, en ég teldi ekki heppilegt, að farin væri sú leið, og til þess að finna skjóta lausn á þessu máli hefur mér dottið í hug einmitt þessi leið, sem ég hygg að ætti að geta orðið samkomulag um, ef vilji væri fyrir hendi. Mér skilst, að það, sem aðallega hefur staðið í veginum fyrir því, að viðkomandi aðilar hafi viljað semja um þetta mál, sé andúðin á slíkri stofnun. Þeir hafa ekki viljað hafa slíka stofnun í sinu héraði. En slíkt er ákaflega mikill misskilningur. Bæði hefur það sýnt sig á þeim tíma, sem liðinn er síðan drengjaheimilið var sett upp í Rauðasandshreppi, að þar hefur samúð með heimilinu vaxið, en ekki minnkað, auk þess sem þetta er þannig í öðrum löndum, þar sem ég hef komið, að þar eru þessi heimili innan um miklu þéttbýlli sveitir en hér um ræðir, og virðist ekki vera um neina árekstra að ræða. Og ég hygg, að ef menn færu að athuga það nákvæmlega, þá mundi sá þröskuldur raunverulega hverfa. Eins og ég gat um áðan, þá tel ég, að það sé engu minni sómi fyrir hvert hérað að veita viðtöku slíkri stofnun sem hér um ræðir heldur en almennum héraðsskóla. En það, sem aðallega hvatti mig til þess að standa hér upp aftur, var sú fyrirspurn frá hv. 4. þm. Reykv., hvort hægt mundi vera yfirleitt að starfrækja saman tvö verkefni eins og elli- og örorkuheimili og stúlknaheimili og að þetta hafi hvergi verið gert, eins og hv. 4. þm. Reykv. réttilega gat um. Ég ræddi þetta atriði m. a. mjög mikið við heilsudirektörinn norska í sumar, og hann var mjög hrifinn af þessari hugmynd, sagði, eins og satt er, að það hefði ekki verið gert í Noregi. En það hefur þó verið gert annað þar, og það er að starfrækja í sambandi við svona stúlknaheimili, sem er staðsett fyrir utan Osló, barnaheimili, þar sem börn eru vistuð frá því er þau eru ársgömul og allt að 12–14 ára. (Gripið fram í: Smábörn?) Smábörn, já, — smábarnaheimili. Hefur gefizt vel að hafa slíkt smábarnaheimili í sambandi við svona stúlknaheimili. Hví ætti þá ekki miklu frekar að gefast vel að hafa elli- og örorkuheimili í sambandi við það? En það er höfuðatriði í þessum málum, að það sé hægt að skapa næg verkefni fyrir þetta fólk, þegar það er komið á heimilin. Og ef um er að ræða, að komið er á svona heimili fyrir allt að 30 stúlkur með a. m. k. 20 öðru starfsfólki, þá er hér um 50 manns, og það verður að sjá slíkum hóp manna fyrir verkefni. Ég hygg því, að þegar málið er athugað gaumgæfilega, þá muni ekki verða neinum vandkvæðum bundið að sameina þetta tvennt.

Hvað snertir ummæli hv. þm. um erfðafjársjóðinn, þá er það sjóður, sem vex árlega, öruggar tekjur minnst 300 þús. kr. á ári, kannske upp í sex, og í framtíðinni hygg ég að þetta verði ein af styrkustu stoðunum undir þessum rekstri. Þó að það sé enn þá veik stoð í dag þá er það einn af þeim sjóðum, sem fara ört vaxandi, og það er þá ástæða til að ræða um það á þeim tíma. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða málið frekar.