11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. flm., þm. Barð., gerði ýtarlega grein fyrir efni þessa frv. við 1. umr. málsins, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Menntmn., sem hefur haft málið til meðferðar, hefur rætt það á fleiri en einum fundi, einnig sendi hún frv. til fræðslumálastjóra, Aðalsteins Eiríkssonar námsstjóra og barnaverndarráðs Íslands til umsagnar, og bárust svör frá þeim.

Hv. flm. taldi við 1. umr. aðalatriði málsins felast í 1. gr. frv., sem fjallar um stofnun vistheimilis fyrir stúlkur. Og hann taldi það viðunandi afgreiðslu málsins, ef 1. gr. yrði samþykkt, þó að hinar greinarnar yrðu felldar niður. Þeir þrír aðilar, sem fengu frv. til umsagnar, mæla allir með stofnun vistheimilis fyrir stúlkur og að því leyti með frv. Menntmn. er þeim og algerlega sammála um þessa nauðsyn, og eins og nál. hennar á þskj. 127 ber með sér, mælir hún því einróma með frv. að því er snertir þetta höfuðatriði að dómi flm. Að vísu skal það játað, að e. t. v. hefði mátt ná því sama með því að afgreiða þetta mál með einfaldri áskorun til ríkisstj. og jafnvel verið eins heppilegt og að bera fram lagafrv. um það, og vík ég að því atriði síðar að gefnu tilefni. En þar sem n. var hv. flm. sammála um nauðsyn framkvæmda í þessu efni, þótti henni þó rétt að mæla með því, sem hv. flm. sjálfur taldi aðalatriði frv., sem sé 1. gr. þess.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um það, að leita skuli samkomulags um að fá alþýðuskólann á Reykjum í Hrútafirði afhentan fyrir vistheimilið og ef samkomulag næst ekki, þá að taka skólann eignarnámi. Og í 3. gr. er svo ákvæði um það, að setja megi vinnuheimili fyrir öryrkja og gamalmenni í samband við vistheimilið fyrir stúlkur.

Þessum atriðum er menntmn. ósammála og getur ekki mælt með þeim. Aðalatriðið fyrir henni er það, að hún telur alls ekki heppilegt og mjög varhugavert að ætla að reka í sameiningu vistheimili fyrir stúlkur, sem lent hafa á glapstigum, og elli- og örorkuheimili.

Það er vitað mál, að gamalmenni sérstaklega þarfnast næðis og kyrrðar, og þó að vonandi sé allt hið bezta um árangur dvalar á þessu vistheimili fyrir stúlkurnar og þær geti síðar orðið nýtar konur og góðar, a. m. k. einhverjar þeirra, vegna þess uppeldis, sem þær vonandi fá þarna, þá verður að draga það mjög í efa samt, að þær séu vel fallnar til þess, a. m. k. í byrjun, að umgangast gamalmenni og öryrkja, sérstaklega gamalmenni.

Ég veit, að hv. flm. frv. hefur mjög kynnt sér þessi mál, m. a. í útlöndum, og hann mun þekkja þar eins konar sambland af vistheimili og spítala, sem hefur gefizt vel. En ég verð að segja það, að mér fyndist það miklu nær, að þessar stúlkur væru að einhverju leyti við hjúkrun sjúkra manna, beinlínis sjúkra manna, heldur en að þær ættu að vera eins konar vistfélagar gamalmenna. Og atriði er nú til í þessu máli, sem ekki er kannske vert að nefna, en allir geta leitt hugann að.

Beinlínis af því, að n. getur ekki mælt með því að fara að reka í sameiningu elliheimili og vistheimili fyrir þessar stúlkur, leiðir það, að hún getur ekki heldur mælt með því, að Reykjaskóli í Hrútafirði verði tekinn fyrir hælið eða heimilið með góðu eða illu, því að Reykjaskóli mun vera byggður fyrir um 90 heimavistarnemendur og mundi þá rúma 90 vistmenn auk starfsfólks, og n. sér ekki, að það sé ástæða til að gera ráð fyrir svo miklum fjölda af stúlkum sem þarfnist veru á slíku heimili, og vonandi, að til þess komi aldrei. Auk þess mæla bæði fræðslumálastjóri og Aðalsteinn Eiríksson námsstjóri á móti þessari hugmynd í frv. — frá sjónarmiði fræðslumálanna — og telja, að þó að héraðsskólinn á Reykjum sé ekki rekinn nú sem stendur, þá sé þörf á húsinu einmitt til skólahalds. Fræðslumálastjóri segir í bréfi sínu, dags. 29. okt. s. l., um þetta á þessa leið:

„Frestað var skólahaldi í Reykjaskóla í haust, bæði sökum þess, hversu fáir nemendur sóttu um skólavist þar og einnig vegna hins, að húsakynni, vatnsleiðslur og fleira þarf mikilla umbóta við og tekur það allmikinn tíma. Á skólanefndarfundi hinn 9. f. m. var gengið út frá því og samþykkt, að skólahald verði aftur upp tekið í Reykjaskóla haustið 1955. Er nú í athugun, hvort ekki muni möguleikar á því að koma börnum úr sveitum Vestur-Húnavatnssýslu fyrir í Reykjaskóla, að svo miklu leyti sem ekki þyrfti á húsakynnum skólans að halda fyrir eldri nemendur. Barnaskólaþörf umræddra sveita verður ekki leyst, svo að vel sé, nema með heimavistarskóla, og Reykjaskólinn getur leyst þann vanda í bili a. m. k.“

Af þessum ástæðum, sem nú voru greindar. leggur menntmn. til að umorða 2. gr. frv. og fella niður 3. og 4. gr.

1. brtt. n. á þskj. 127, um umorðun 2. gr., er í sjálfu sér byggð á till. hv. flm. að nokkru leyti. Það liggur hin sama hugsun til grundvallar þeirri till. og hjá honum, þegar hann stingur upp á, að tiltekinn skóli sé tekinn fyrir vistheimili. Eins og ég sagði áðan, getur n. ekki fallizt á að nefna Reykjaskóla í því sambandi af þeim ástæðum, sem ég nefndi, en hún telur rétt að gefa ríkisstj. almenna heimild til þess að leita fyrir sér um húsnæði, sem nú er til, og jafnvel taka húsnæði, sem ríkið kann að hafa alger umráð yfir, til þessara nota. Og það vill svo til, að þeir aðilar, sem fengu frv. til umsagnar og sérstaklega fjalla um fræðslumál, hafa báðir orðað stað og húsnæði fyrir hælið eða vistheimilið, sem þeir telja hentugra en Reykjaskóla. Og um það segir fræðslumálastjórinn í bréfi, sem ég gat um áður, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsmæðraskólinn á Staðarfelli í Dölum er rekinn fyrir ríkisfé eingöngu, sökum þess að sýslunefndir sýslnanna við Breiðafjörð vildu ekki gerast aðilar að skólanum, þegar þeim var gefinn kostur á því, eftir að núgildandi lög um húsmæðrafræðslu tóku gildi. Undanfarin ár hefur Staðarfellsskólinn verið fásóttur, og virðist mér nú augljóst, að eigi þurfi á honum að halda til húsmæðraskólahalds. Ég tel, að þessi skóli sé hæfilega stór til þess að reka þar vistheimili það fyrir stúlkur, sem um ræðir í frv. því, er hér er til umsagnar. Vonandi verða þær stúlkur, sem umrædda vist þurfa, ekki svo margar, að ekki mætti hafa þar jafnframt einhverja þá starfsemi, sem samrýmanleg væri uppeldisstarfi vistheimilisins.“

Með þessu er þó ekki sagt, þó að ég læsi þennan kafla úr bréfi fræðslumálastjórans, að n. sé endilega að leggja það til, að húsmæðraskólinn á Staðarfelli verði tekinn til þessara nota. En þessi orð fræðslumálastjóra sýna þó, að þarna er til möguleiki á því að fá hentugt húsnæði, sem sennilega þyrfti í sjálfu sér ekki að kosta neitt, og þeir möguleikar geta verið víðar, og vill n., að athugað sé um slíka möguleika. N. er þeirrar skoðunar, að það eigi að reka þetta vistheimili sem sérstaka stofnun og haga rekstri hennar þannig, að það verði sem svipaðast því, sem er í húsmæðraskólum, það verði reynt að kenna þessum stúlkum hannyrðir, matreiðslu o. s. frv. og á sumrum hafa þær við holla útivinnu, og telur n., að það yrði stúlkunum áreiðanlega heppilegra uppeldisatriði en að fara að nota þær til þess að hjúkra gamalmennum eða öryrkjum og vera heimilismenn með þeim.

Ég hef orðið þess var, að sumir hv. þm. telja þetta frv. algerlega þýðingarlaust vegna þess, að í því sé ekkert nýmæli, a. m. k. ef till. nefndarinnar verða samþykktar, — að í 1. gr. frv., þeirri gr., sem hv. flm. taldi einmitt aðalatriði frv., fælist ekkert nýmæli, það væri aðeins endurtekning á því, sem segir í lögum nr. 29 frá 9. apríl 1947. Og sá hv. þm., sem hefur rætt þetta aðallega við mig a. m. k., er lögfræðingur, þ. e. hv. þm. V-Sk.

Í 1. gr. frv. segir: „Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkv. fyrirmælum 27. gr. laga nr. 29 9. apríl 1947, um vernd barna og ungmenna. Skal ríkissjóði skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins, sbr. þó fyrirmæli 2. málsgr. sömu lagagreinar.“

Sú lagagrein, sem þarna er vitnað til, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Skulu hæli þessi vera a. m. k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum. Ráðherra setur reglur um víst barna og ungmenna á hælum þessum, fræðslu, uppeldi og aga þar. Um greiðslur fyrir börn og ungmenni á hælum þessum og öðrum hælum og stofnunum handa börnum og ungmennum, sem í 35. gr. getur, fer samkv. lögum nr. 78 1936. Þegar leitað er samninga um vist á slíkum hælum, skal það gert í samráði við barnaverndarráð.“

Ég er nú ekki lögfræðingur eins og hv. þm. V-Sk., og ég skal ekki fullyrða um það, að hve miklu leyti þetta breytir skyldu ríkisstj., þegar til framkvæmda kemur; þó virðist það vera svipað í 1. gr. frv. og í þeirri lagagrein, sem ég las áðan. En það er bara nokkuð í 1. gr. frv., sem alls ekki stendur í lögunum, sem nú gilda, og það er upphaf greinarinnar: „hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vinnuheimilis fyrir stúlkur.“ Það stendur hvergi í lögunum. Mér virðist því, að hvað sem lagaskýringum að öðru leyti líður, þá sé þetta nýmæli og það ekki svo lítils vert nýmæli. Og það er ekkert einsdæmi, að sama atriði sé ákveðið oftar en einu sinni í lögum og öðrum samþykktum Alþingis. Ég má víst fullyrða það t. d., að Alþ. er a. m. k. fjórum sinnum búið að samþ., að reisa skuli þingmannabústað, bæði með lögunum um breyt. á l. um þingfararkaup alþingismanna frá 1943, með sérstakri þál., þar sem skorað er á ríkisstj. að hefjast handa, með heimild í sjálfum fjárlögunum að verja fé til þess — að vísu var það á heimildargreininni — og nú síðast með nýjum lögum um þingfararkaup alþingismanna, sem samþ. voru á síðasta þingi. Nú heyri ég sagt, að það sé þó byrjuð athugun á þessu máli á vegum hæstv. ríkisstj. Og fyrir hvað ætli sú athugun hafi verið hafin? Ég hygg, að það hafi verið fyrir það, að í lögunum frá í fyrra stendur, að þegar á þessu ári skuli hefja undirbúning málsins og athugun. Ríkisstj. hefur sem sagt skellt algerlega skolleyrunum við tveimur lagaheimildum og einni áskorun Alþingis í þessu efni, en fyrst þegar það stendur tvímælalaust í lögum, að á þessu ári skuli hefja undirbúning, þá rumskar hún þó eitthvað í málinu. Því miður veit ég ekki, hvað því máli líður, og hef nú verið að hugsa um að bera fram fyrirspurn í Alþ, um það, en hef ekki gert það enn, sökum þess að yfirleitt hef ég heldur litla virðingu fyrir þeim þingstörfum. Ég verð því að telja, að hvað sem lögskýringum hv. þm. V-Sk. líður eða annarra, þá hafi 1. gr. frv. gildi og kannske það gildi, sem úr sker um það, hvort hafizt verður handa í þessu máli eða ekki. — Ég skal geta þess, af því að ég hef tvisvar eða þrisvar nefnt hv. þm. V-Sk. í sambandi við þetta, að það er með hans fyrir fram fengnu leyfi, að ég beinlínis nefni hann.

Verði brtt. n. samþykktar, þá kemur þó heimild til að leita eftir húsnæði fyrir vistheimilið eða taka hús til þess, sem ríkið á, og það hefur vissulega sína þýðingu, að sú heimild standi í lögum. þó að ekki sé tiltekið sérstakt húsnæði, sem eigi að taka, eins og upprunalega var í frv. Ég skil að sjálfsögðu 1. gr. frv. svo að vísu, að framkvæmdir séu háðar fjárveitingum á fjárlögum, en það er í raun og veru svo með allt. Það verður að taka það upp á fjárlög, sem ríkið tekur að sér að verja fé til, og að því leyti má segja, að það sé sama um 1. gr. þessa frv. eins og lögin, sem gilda, að vitanlega verður ríkisstj. að leita fjárveitingar til framkvæmdanna. En það er ekkert sérstakt með þetta frv., þótt svo sé. Það er yfirleitt svo með allar framkvæmdir, eins þó að þær séu ákveðnar í lögum.

Ég sagði í byrjun, að það hefði mátt hugsa sér aðra afgreiðslu þessa máls, og munu ýmsir telja, að sú afgreiðsla hefði verið réttari, sem sé að skora á ríkisstjórnina með þál. eða dagskrá að hefjast handa um framkvæmdir samkv. lögunum frá 1947. Ég skal alveg játa, að það hefði mátt ná svipuðu með því móti. En samkv. frv. eins og það liggur fyrir verður það þó lagaskylda að hefja undirbúning að þessari framkvæmd, en það er engin lagaskylda að fara eftir þál. eða dagskrám.

Ég verð því að telja, að n. hafi unnið alveg forsvaranlega, þó að hún legði ekki til að vísa þessu frv. frá, heldur einmitt mæli með því, eins og ég hef tekið fram, sem má telja í sjálfu sér aðalatriði þess og flm. sjálfur taldi aðalatriði.