15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú talað tvisvar í þessu máli. Ég vil þó mega mælast til þess, að hæstv. forseti taki ekki hart á því, þó að ég segi hér nokkur orð í þriðja skiptið út af því, sem fram hefur komið.

Ég vil þá fyrst, áður en ég ræði um till., leyfa mér að lesa hér upp bréf, sem mér barst frá lögreglustjóra við umr. í gær, en svo seint, að ég gat ekki þá tilkynnt hv. Alþ. innihald þess. Hann segir hér í bréfi til mín sem forseta Ed., að hann sendi mér hér með umsögn Vilhelmínu Þorvaldsdóttur lögreglukonu varðandi nauðsyn þess, að komið verði upp hið fyrsta vistheimili fyrir stúlkur, sem lent hafa á glapstigum, og umsögnin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna umræðna á Alþ. um vistheimili fyrir ungar stúlkur á glapstigum leyfi ég mér að taka eftirfarandi fram:

Í starfi mínu sem lögreglukona hef ég glögglega orðið þess vör, hve þörfin á vistheimili fyrir ungar stúlkur er tilfinnanleg. Torveldar það mjög allt starf í þágu þessara stúlkna, að slíkt heimili skuli ekki vera til, og dregur mjög úr mögulegum árangri. Í viðskiptum mínum við fyrrnefndar stúlkur hef ég einnig orðið þess vör, að þær fylgjast með þessu máli, og tel ég, að vitneskja þeirra um, að slíkt heimili kunni að verða stofnað á næstunni, hafi átt sterkan þátt í því, að nú hafa allmargar stúlkur breytzt til hins betra og sýnt, að þær geta orðið nýtir og góðir borgarar. Óttast ég mjög, að verði mál þetta afgreitt á þann hátt, að ekki megi vænta slíks heimilis á næstunni, hafi það slæm áhrif á stúlkurnar, og er hætt við, að aftur sæki í sama horf og áður var, ef þær vita, að engar horfur eru á, að yfirvöldin hafi stað til þess að senda þær á, hve mjög sem hegðun þeirra kann að vera ábótavant. Ég vænti þess, að hið háa Alþ. leysi þennan mikla vanda á skjótan og farsællegan hátt.

Virðingarfyllst,

Vilhelmína Þorvaldsdóttir“.

Er Vilhelmína kvenlögregluþjónn hér í bænum og kunnug þessum málum.

Í sambandi við þetta bréf vildi ég svo mega upplýsa, að þegar vistheimili fyrir drengi var sett á stofn sumarið 1951, voru á lista hjá sakadómara rúmlega 40 afbrotadrengir hér í Reykjavík. Það voru þá þegar teknir um sumarið — við ákaflega erfið kjör — 7 drengir á heimilið, þeir, sem að áliti sakadómara og annarra, sem með þessi mál höfðu að gera, þótti nauðsynlegast að taka af þeim 40 drengjum, sem voru á lista hér í bænum. Síðan hafa á þetta heimili komið rúmlega 20 drengir. Þaðan hafa farið aftur 13 eða 14 drengir, og sitja þar nú eftir 8. Af öllum þessum 14 drengjum, sem þarna hafa verið, hefur enginn gerzt brotlegur á ný, svo að hann hafi verið ákærður. Og nú þegar við spurðumst fyrir um það hjá sakadómara, hve margir stæðu á lista, þar sem við gátum tekið að minnsta kosti 7 drengi á heimilið, var svarið það, að hér hefði þetta breytzt þannig, að nú voru aðeins 2 drengir á lista sem afbrotaunglingar hér í bæ, og óskuðu foreldrarnir sjálfir eftir að ráðstafa öðrum drengnum í sveit, án þess að hann færi á hælið, en hinn drengurinn sendur á hælið sem níundi drengurinn þar nú.

Þetta sýnir þann árangur, sem hefur unnizt við það að koma heimilinu upp. Það sýnir, að við það, að heimilið hefur verið til og getað tekið á móti drengjunum, hefur tvennt skeð: Það fyrsta, að foreldrarnir sjálfir hugsa miklu meira um að halda drengjunum frá afbrotum, og ef þeir hafa framið einhver afbrot, þá reyna foreldrarnir sjálfir að koma þeim á þá staði, sem þeir kjósa, frekar en á heimilið. Annað, að drengirnir hafa batnað við heimilisvistina, þannig að þeir hafa ekki gerzt aftur brotlegir. Þetta er ekki lítill árangur af þessu starfi.

Nú veit ég, að nokkuð hefur stungið í augu sá kostnaður, sem orðið hefur því samfara að koma þessu heimili upp, og þykir mér það ekkert óeðlilegt og ásaka ekki hv. þm. S-Þ. fyrir það, þó að honum sem nm. í fjvn. þyki ef til vill sú upphæð allmikil, þótt það hafi nú ekki beint komið fram í hans ræðu. En í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að langsamlega mest af þeim kostnaði hefur farið til þess að byggja upp, ekki einasta heimilið sjálft, heldur þann stað, sem n. var afhentur til að staðsetja heimilið á. Hér var um að ræða einhverja þá beztu jörð, sem til var í sýslunni og hafði legið í órækt og ekki verið notuð í 4–5 ár. Þar voru engin hús, öll jarðrækt í aumingjaskap og vesaldómi, engar girðingar, engin túnrækt og allt í mestu niðurníðslu, og langsamlega mest af þessu fé hefur farið til þess að byggja upp þessa jörð, gera þar jarðabætur, byggja hús og annað, sem heyrir til, girða landið o. s. frv., gera m. a. sandgræðslu þar o. fl., o. fl., sem allt kemur til góða ríkinu sjálfu, alveg burt séð frá þessu máli, og stendur þar sem eign fyrir ríkið, hvað sem svo yrði gert við staðinn. Þetta vildi ég láta koma fram til þess að sýna fram á, að þessu fé hefur ekki raunverulega öllu verið eytt í þágu þessarar starfsemi. Og þótt svo hefði verið, hefði ég talið, að það væri ekki nema brot af því fé, sem landið glataði við það að ha£a ekki gert þessar ráðstafanir.

Ég hygg því, að það sé alveg rétt, sem hefur komið fram hjá lögregluþjóninum, að ef ekkert verður gert í þessu máli, þá muni þetta fara í sama farveg og áður, og það, sem ég hef nú sagt, styður þá skoðun fullkomlega. Ég vil líka í sambandi við þetta benda á, að þetta sama hefur komið fyrir í sambandi við Kvíabryggju. Eftir að hún var byggð upp og tilbúin til þess að taka á móti þeim, sem greiddu ekki meðlög með börnum sínum, fóru þeir að greiða og þeir hafa greitt þannig, að engin ástæða hefur verið til að senda þessa menn á þann stað, sem fyrir var. Ég hygg því, að þetta álit lögregluþjónsins hafi við mjög mikið að styðjast og það beri mjög að athuga það, þegar þetta mál er afgreitt. Sé hins vegar brtt. hv. þm. S-Þ. samþ., gefur hún óneitanlega — ég skal koma að því síðar — þá von þeim, sem óska eftir, að þetta heimili verði ekki byggt, að á því verði allmikill dráttur enn og það sé alveg óhætt að breyta ekkert um lifnaðarhætti frá því, sem verið hefur. Því verður ekki hægt að neita. Ég skal svo ekki ræða meira um þá hlið málsins.

Ég skal þó aðeins ræða um skilning hv. frsm. n. og hv. þm. S-Þ. á þessu máli og vil þá einmitt vísa í greinina í l., sem hv. frsm. las upp. Þar stendur: „Ríkisstj. er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum.“ Þetta er skylt, og hæstv. ríkisstj. hefur að svo miklu leyti uppfyllt þessa skyldu, að hún hefur látið reisa hæli fyrir drengi. Hins vegar hefur ekki verið reist neitt hæli fyrir stúlkur. Það má segja, að það hefði alveg eins mátt taka það fé og reisa hæli fyrir stúlkur. Það hefur bara ekki verið nægilega mikið til þess að sinna báðum verkefnunum í einu. En að því leyti hefur ríkisstj. uppfyllt ákvæði laganna, að hún hefur látið reisa hæli fyrir drengina. Svo er sagt hér: „Skulu hæli þessi vera a. m. k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum.“ En síðan stendur í 2. málsgr.: „Um greiðslur fyrir börn og ungmenni á hælum þessum og öðrum hælum og stofnunum handa börnum og ungmennum, sem í 35. gr. getur, fer samkvæmt l. nr. 78 1936.“ Það er með öðrum orðum, að það á að greiða 20% af dvalarkostnaðinum af öðrum aðila en ríkinu. Þegar því sett er í frv. ákvæði, sem hljóðar svo: „Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkv. fyrirmælum 37. gr. laga nr. 29 9. apríl 1947, um vernd barna og ungmenna. Skal ríkissjóði skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins“ — þá er með því úr gildi sú takmörkun, sem sett er í 37. gr. Um þetta getur ekki verið neinn ágreiningur, enda hefur það verið skýrt hér af hæstv. dómsmrh., að á það verði ekki litið öðruvísi en svo, að ef þessi 1. gr. sé samþykkt þannig, þá sé takmörkunin í 37. gr. laganna úr gildi. Þess vegna hef ég aldrei getað skilið, hvernig hv. frsm. hefur getað lagt í þetta annan skilning, og ég fullyrði, að n. sem slík hefur ekki hans skilning á málinu. Ég hef talað við marga af nefndarmönnum, sem hafa einmitt sama skilning á málinu og ég og hæstv. dómsmrh., að ef gr. yrði þannig samþykkt, þá væri skylda ríkisstj. að byrja á þessum framkvæmdum á næsta ári. Og hv. þm. S-Þ. skilur þetta náttúrlega eins. Þess vegna er hann að bera fram brtt. Hann treystir ekki á sama hátt og hv. frsm., að ákvæðið óbreytt verði skilið á annan veg. Ég hygg, að þetta sé rétt skilið hjá mér, og þess vegna vill hann setja inn alveg ákveðin fyrirmæli um, að það skuli ekki hafnar framkvæmdir fyrr en fé er veitt til þess í fjárlögum. Ef hins vegar hv. frsm. hefði haft þennan skilning á frv. í fyrstu, þá bar honum náttúrlega að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá með þeirri grg., að þetta væri þegar í lögum og þyrfti ekki að setja ný lög um þetta ákvæði. En einmitt af því, að hann hefur ekki haft þennan skilning á því, þá gerir hann það ekki. Hann gerir það alls ekki, vegna þess að þrátt fyrir að hann hafi sagt það nú, þá hefur hann ekki raunverulega haft þennan skilning á gr., það er alveg sýnilegt. Ef hins vegar bíða á og gera ekkert fyrr en fé er veitt til framkvæmda í fjárlögum, eins og ætlazt er til með brtt., þá hefði verið eðlilegast að fella 1. gr. Hitt skal ég svo játa, að það hefði verið hægt að samþykkja 2. gr. frv. eins og hún er nú og hafa það sem viðbót við lögin, því að það er alveg sjálfsfætt atriði. Þar segir, að „ríkisstj. er heimilt að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera, fyrir vistheimilið og gera samning um afhendingu þess og afnot. Enn fremur er henni heimilt að taka húsnæði, sem ríkið á eða hefur umráð yfir, til þessara nota.“ Lögin hafa því nákvæmlega sama gildi, eftir að búið er að samþykkja þá brtt., sem hér liggur fyrir, hvort sem 1. gr. er felld eða samþykkt. 1. gr. er þá gersamlega óþörf og breytir í engu þeim lögum, sem fyrir eru. (Gripið fram í.) Já, en það er bara ekki hægt að hefja þegar undirbúning, þegar ákveðið er, að það skuli ekki gert fyrr en fé er veitt til þess. Það er ekkert fé til þess að gera það, ef á að halda sér innan þeirra takmarka, sem hv., flm. brtt. heldur fram, að ekki megi greiða neitt af þessu, hvorki undirbúning né annað, því að það kemur ekki fram. (Gripið fram í.) Já, ég veit það, en það hefur heldur ekkert verið greitt fyrir hann enn þá. Það hefur verið rætt um það mál í 14 ár, eins og hann sagði, og ekkert verið gert. Það er það, sem hv. þm. vill, að það sé ekkert gert í málinu í næstu 7 ár, eins og það hefur ekkert verið gert í s. l. 7 ár. Það er það, sem við deilum um efnislega. Þess vegna er ekkert hægt að gera í þessu máli, ef brtt. er samþ.

Ef frv. er samþ. núna, eins og það er í dag, hefur ráðuneytið alveg í höndum sér að láta hefja undirbúninginn og byrja reksturinn í smáum eða stórum stíl. Það er enginn, sem segir, að það eigi að byrja fyrir margar milljónir, þó að ég benti á. að það kostaði 6 milljónir að byggja heilsuhælið allt, ef ekki væri hægt að fá byggingar sem fyrir væru. Það er m. a. verið nú að leita að hentugum stöðum. Það hefur verið bent á ýmsa staði. Í sambandi við það skal ég benda á, að það er till. frá hv. þm. S-Þ. við fjárl, um að heimila ríkissjóði að kaupa jörðina Gröf í Hrunamannahreppi. Hún er einn af þeim stöðum, sem hefur komið til greina að starfrækja sem vistheimili fyrir stúlkur. Ég teldi ekki, að verið væri að setja fjárlögin í neina hættu, þó að þetta væri samþykkt og síðan notuð heimildin í 2. gr. frv. til þess að fá þann stað, sem hvort sem er á að kaupa. Þar er mjög mikið af gróðurhúsum. Þar er nokkuð af byggingum, að vísu lítið, en nægilegt til þess að geta byrjað a. m. k. í smáum stíl, og svo getur verið um fleiri staði á landinu. En þetta er allt útilokað, ef samþykkja á brtt.

Þá ætla ég að koma að því atriði, hvað hefur verið gert við þetta mál í s. l. 7 ár. Ekki nokkur skapaður hlutur. Þó hefur hvorki meira né minna en rúmlega 101 millj. kr. verið varið fyrir utan fjárlög árið 1948, eða árið, sem lögin áttu að koma til framkvæmda, og 1949 134 millj. 579 þús., en engu af þessum 134 millj. er varið til þessara mála. Og ég skal halda áfram: 1950 samtals 122 millj. og 1951 114 millj., þessu er öllu varið fyrir utan fjárlög og síðan leitað staðfestingar Alþ. til samþykktar á aukafjárlögum. Hefði verið nokkur vilji fyrir hendi í þessu máli og varið til þess einhverju af þessum mörgu milljónum, sem eru hvorki meira né minna en nærri 500 milljónir á þessu tímabili, þá segir sig sjálft, hvort ekki hefði verið búið að koma þessu heimili upp. — Ég er sannarlega ekki að setja neinn fót hér fyrir fjárlögin eða steypa þeim í neinn voða. Þetta veit hv. þm. S-Þ. Hann er eins kunnugur þessum málum og ég, sem setið hefur allan tímann í fjvn. og situr þar enn. — Ég vil einnig benda á hér, að árið 1953 er samkvæmt ríkisreikningunum greitt samkvæmt sérstökum lögum 1 millj. 697 þús., samkv. 24. gr., og auk þess 521 þús. samkv. þál. og 2 millj. 452 þús. samkvæmt væntanlegum fjáraukalögum. Þetta er allt saman gert af ríkisstj. sjálfri. Og það er sannarlega ekki nein goðgá að ætlast til þess, að hún láti einhverja upphæð — engan veginn stóra upphæð — til þess að geta komið þessu máli eitthvað áfram. Og það er alger misskilningur að byggja það á því, að það sé verið að reyna að kollvarpa hér fjárlögunum eða að stjórnarstuðningsmaður sé að brjóta sína skyldu gagnvart ríkisstj., þó að hann sé að fara fram á, að þetta frv. sé samþykkt. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram.

Nú skal ég ekki þreyta hæstv. forseta, en vildi þó rétt aðeins benda hér á, að samkvæmt 17. gr. fjárlagafrv. voru áætlaðar, þegar hæstv. fjmrh. lagði málið fyrir, 150 þús. kr. til rekstrar heimilis fyrir afvegaleidda unglinga. Þetta hefur nú verið hækkað með samþykki hv. þm. S-Þ. upp í 250 þús. Það er ekkert sagt um þetta út af fyrir sig, að þetta skuli vera til drengjaheimilisins í Breiðuvík, það er aðeins sagt, að þetta skuli vera samkvæmt þessum lögum hér. En við umræður, sem hafa farið fram, er það skilið, að þessi upphæð öll skuli þangað fara, enda er þetta ekki nægileg upphæð til þess að greiða hallarekstur á s. l. ári og rekstur næsta árs. Og það er vegna þess, að jörðin, sem hefur verið afhent, er í slíku ástandi, að hún gefur engar tekjur. Ég veit, að fyrir það, að þetta er skorið niður um 50 þús. frá ósk og áætlun, þá mun það bara eingöngu byggjast á því, að þeir vænta þess, að það sé hægt að auka svo búið, að það gefi þessar 50 þús. kr. tekjur, svo að sé hægt að ná þessum rekstrarútgjöldum. Það getur ekki verið neitt annað. Hins vegar mundi framkvæmdanefndin ekki telja sér heimilt að taka neitt af þessu til að starfrækja annað heimili. Enn er alveg óleyst, hvernig á að fara með rekstrarhallann frá s. l. ári, og mér skilst á hæstv. ráðh., að hann ætli sér að lýsa því yfir samkvæmt ósk minni við fjárlagaumr., að sá halli verði greiddur af tekjum ríkissjóðs á þessu ári, því að annars væri ekki hægt að halda þessum málum áfram.

Það eru einnig á 20. gr. fjárl. ætlaðar 400 þús. kr. til byggingar dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga. Það er ekkert sagt um það, að það skuli vera fyrir Breiðuvík. Og það er náttúrlega möguleiki að taka eitthvað af þessu fé og nota það til þess að byggja upp í sambandi við stúlkurnar. En það verður torveldara, ef samþykkt er sú brtt., sem hér er gerð. Við mundum ekki treysta okkur, sem sitjum í framkvæmdanefndinni, að taka þetta fé nema með fullu samþykki rn., sem þá yrði að horfast í augu við það, að reksturinn yrði að vera miklu dýrari vegna þess, að það er ekki hægt að koma jörð og húsum í það ástand, sem þarf til þess að geta minnkað rekstrargjöldin, en það hefur verið okkar hugsun. Við höfum viljað koma þessum málum í það horf, að við þyrftum ekki að sækja um mikið fé til Alþ. í sambandi við reksturinn. En til þess að það sé unnt, verður að koma jörðinni í það horf, að hún geti gefið einhvern arð.

Ég vildi nú út af því, sem hér hefur verið rætt, og alveg sérstaklega út af því, sem hv. frsm. sagði, að hann teldi, að þessi till. væri alveg áþörf, en samt sem áður ætlaði hann sér að greiða atkvæði með henni, vænta þess, að hann endurskoðaði nú afstöðu sína og greiddi ekki atkv. með þessari till. Það er enginn vafi á því, að ef till. er samþykkt, hvernig svo sem hægt er að leysa þetta spursmál á eftir, þá fær málið þann blæ, að þeir, sem óska eftir því, að ekki sé flýtt þessum framkvæmdum, hverjir sem það eru, telja, að þær vonir sínar muni rætast miklu frekar, ef málið er afgr. úr þessari hv. d. með till. eins og hún er lögð fram frá hv. þm. S-Þ. Frá mínu sjónarmiði er þessi till. Eingöngu borin fram sem yfirlýsing um það, að viðkomandi aðilar séu á móti því, að ríkissjóður leggi fram fé í þessu skyni. Það hefði verið miklu nær fyrir hv. þm. S-Þ. að beita sér fyrir því í fjvn., ef hann hefði verið velviljaður málinu, að tekin yrði upp sérstök fjárveiting í þessu skyni. Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Er það vegna þess, að hann liti svo á, að þetta sé ekki svo aðkallandi, að það þurfi að taka upp fjárveitingar? Er það ástæðan fyrir því? Eða er einhver önnur ástæða fyrir því, sem ekki hefur komið hér fram? Hann ætlast áreiðanlega til þess með sinni brtt., að það sé ekkert gert í málinu; það sé ekkert gert, fyrr en fé sé veitt til þess á fjárlögum. Það er heldur engin sönnun fyrir því, eins og hv. frsm. tók fram, að það verði tekið upp fjárframlag á næsta ári, þegar litið er annars vegar á það, að þessu máli hefur ekki verið sinnt af fjárveitingavaldinu, fjvn. eða hæstv. fjmrh., í 7 ár, og hins vegar að nú er fram komin brtt. hér á síðustu stundu, sem mælir gegn framgangi málsins. Það sýnir, að sá flokkur, sem fer með þau mál, telur, að hér sé ekki neitt vandamál á höndum. En það er mesti misskilningur, því að það er miklu meira fjárhagsmál fyrir þjóðina að láta þetta mál vera svona heldur en þó að lagt sé í það allmikið fé. — Svo vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa leyft að gera svo langa athugasemd.