15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég er sammála því, sem hv. frsm. n. sagði hér áðan, að í raun og veru væri brtt. hv. þm. S-Þ. óþörf, því að ég skildi málið þannig frá upphafi, eftir þeim breytingum, sem n. hafði gert á því, að stæði óhaggað ákvæðið eins og er í lögunum, þannig að það yrði að veita fé í fjárl. til stofnunar og rekstrar þessa hælis. Hins vegar var þetta vefengt, bæði af flm. og hæstv. ráðh. hér við fyrri umr. þessa máls, og þá tel ég fyrir mitt leyti réttmæta till. hv. þm. S-Þ. Þingmenn eiga vissulega að leggja höfuðáherzlu á það, þegar þeir setja lög, að afgreiða þau þannig, að ekki geti verið vafi á, hvernig á að framkvæma þau. Hitt er ekkert annað en að blekkja sjálfa sig og blekkja þá ríkisstj., sem á að framkvæma lögin. Það er þess vegna sjálfsagður hlutur að gera lögin það skýr úr garði, að ekki geti vafi leikið á því, hvernig á að framkvæma þau. Ég fyrir mitt leyti mótmæli hvað mig snertir gersamlega þeim ummælum hv. flm., að það sé af andstöðu við þetta mál, að ég greiði atkvæði með brtt. þm. S-Þ. Og ég vil segja, að ef við viljum gera þessu máli gott, þá ættum við að flytja brtt. við fjárl. um að leysa málið. Það er það eina heilbrigða. En eins og málið er núna ætti að nægja að afgreiða það með rökstuddri dagskrá.