25.10.1954
Efri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

15. mál, vegalög

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið tekið út af dagskrá nokkrum sinnum á undanförnum fundum, vegna þess að hv. 1. varaforseti hefur verið fjarverandi með leyfi, en hv. 2. varaforseti er ekki kominn enn þá til þings vegna veikinda.

Það er öllum ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér samgöngumál í landinu, að fyrsta skilyrði til þess að halda við byggð í hinum afskekktari héruðum er, að hægt sé að leggja þangað vegi hið allra fyrsta, svo að einnig þær byggðir geti komizt í beint samband við aðalvegakerfi landsins. Það er orðið svo nú, að þeir, sem í hinum dreifðu byggðum búa, vonast eftir því að geta orðið sömu hlunninda aðnjótandi og hinir, sem búa í þéttbýlinu, verða þeir beinlínis að breyta búnaðarháttum sínum til þess að fylgjast með tímanum, eins og aðrir, eða gefast upp að öðrum kosti. Ég þarf því ekki að ræða lengi nauðsynina á því máli, að vegakerfi landsins verði stækkað þannig, að haldið verði áfram að byggja nýja vegi og að verja fé til þess úr ríkissjóði.

Skattamál þjóðarinnar eru á því stigi í dag, að ríkissjóður hefur gengið allverulega á stofna sveitarfélaganna, svo að sveitarsjóðirnir hafa enga möguleika til þess að auka allverulega framlög til hreppsvega eða sýsluvega. Það verður því að vera meginstefnan, að ríkissjóður leggi fé til þessara vega og að þeir verði teknir upp í þjóðvegatölu. Um þetta þarf ekki heldur að ræða langt mál.

Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 15 frv. til l. um breyt. á vegalögunum, að teknir verði upp á vegalög nokkrir vegir, er ég aðeins skal gera grein fyrir með nokkrum orðum.

1. brtt. er, að aftan við B. 61 bætist orðin: og þaðan á Vesturlandsveg. Hér er um að ræða veginn frá Gautsdal niður á Vesturlandsveginn. Áður hefur verið tekið í þjóðvegatölu af Vesturlandsvegi, inn Geiradalinn, um Valshamar og að Gautsdal, en eftir er að taka inn í vegakerfið spottann frá Gautsdal og niður á veginn aftur, þannig að hér myndist ein heild af þjóðvegi um þennan hluta héraðsins. Þetta er ekki nema lítill spotti, en mjög mikill áhugi er fyrir því í sveitinni að fá hann tekinn í þjóðvegatölu.

Í tölulið 2 er farið fram á, að tekinn sé nýr vegur í þjóðvegatölu, Tröllatunguheiðarvegur: Frá Valshamri á Strandaveg. Þegar vegurinn frá Norðurlandsvegi og út Strandasýslu að Hólmavík var tekinn í þjóðvegatölu, beindist umferðin um hann frá Steinadalsheiði. Vegurinn frá Gilsfjarðarbotni yfir Steinadalsheiði og á Strandaveg var þó ekki felldur úr þjóðvegatölu. Hins vegar hefur honum verið sáralítið við haldið síðan, vegna þess að umferðin hefur mest farið norðurleiðina. Sambandið á milli Strandasýslu og Barðastrandarsýslu hefur því verið gert miklu lakara en það var áður. Þykir nú miklu heppilegra, að sambandið sé gert á milli Geiradals og Strandavegar, eins og farið er fram á í þessari till., enda mun það vera miklu ódýrara fyrir alla aðila að láta ryðja þar veg og halda honum við heldur en að halda við Steinadalsheiðarvegi eins og hann er nú orðinn. Ég hef hins vegar ekki lagt til að taka hann úr þjóðvegatölunni, nema síður sé, og er það þá á valdi vegamálastjórnarinnar, hvað mikið fé hún leggur í viðhald á honum, ef hún telur,að það sé nauðsynlegt að halda þeim vegi við. En mjög háværar raddir eru um það beggja vegna frá, bæði frá Barðastrandarsýslu og frá Strandasýslu, að vegakerfið sé tengt saman yfir Tröllatunguheiði.

3. tölul. er, að lengdur sé vegurinn frá Hofstöðum — þar endar nú þjóðvegurinn — og að Hlíð í Þorskafirði, sem er aðeins um 4–5 km. Þessi vegur er að vísu í sýsluvegatölu, en eins og ég sagði áðan, hafa sýslurnar sáralítið fé til þess að leggja vegi eða halda þeim við.

4. liðurinn er um það, að á eftir B. 63 komi tveir nýir liðir, er orðist þannig: Hinn fyrri: Svínanesvegur: Frá Kletthálsvegi um Kvígindisfjörð að Svínanesi, til þess að koma í vegasamband þeim bæjum tveimur, sem eru í byggð á Svínanesinu; og hinn síðari: Bæjarnesvegur: Frá Kvígindisfirði um Kirkjuból að Bæ á Bæjarnesi, til þess að koma þeim bæjum, sem þar eru, einnig í þjóðvegakerfi. Þessar jarðir, sem eru alveg afskekktar frá vegakerfinu, eru prýðilegar sauðfjárjarðir, og einmitt nú, þegar því miður útlit er fyrir, að ekki hafi verið komizt að fullu fyrir sauðfjársjúkdóma í landinu, er enn meiri ástæða til þess að gera allt, sem unnt er, til þess að halda þeim bæjum í byggð, sem hafa verið undanfarin mörg ár uppeldisstöðvar fyrir svo og svo mikinn hluta af landinu, því að sem betur fer hefur mæðiveiki aldrei komizt inn á þetta svæði.

5. till. er um, að aftan við 64 bætist: Og þaðan að Skálmarnesmúla — þ. e. a. s. frá Firði á Skálmarnesi að Skálmarnesmúla, en það er meðfram öllum þeim bæjum, sem eru á Skálmarnesinu. Skálmarnesið er ein þéttbyggðasta sveit í sýslunni, en íbúar þar hafa verið afskiptir um veg allan tímann og vonast nú til þess, að einnig þeir komist í vegasamband á næstu árum. Gildir það sama um þá og ég sagði um þá bændur, sem eru á Svínanesi og Bæjarnesi, að á þessum stöðum er einnig aðalatvinnugreinin sauðfjárrækt, sem er ekki einungis til hagsbóta fyrir þá sjálfa, heldur og fyrir allt landið, ef enn þarf að ala upp heilbrigðan stofn fyrir hin sýktu héruð.

6. tölul. er, að á eftir B. 89 komi nýr liður, sem verði: Arnarfjarðarvegur: Frá Rafnseyri inn fyrir Arnarfjörð, um Langanes, fyrir Geirþjófsfjörð og á Barðastrandarveg. Svo mikil nauðsyn þykir á þessum vegi, að eftir því sem hefur verið upplýst af öðru stjórnarstuðningsblaðinu, Tímanum, þá hafa verið veitt af þeim ráðherra, sem farið hefur með þessi mál undanfarin ár, allt að 500 þús. kr. fyrir utan fjárlög og raunverulega, að mér skilst, án nokkurra heimilda, til þess að þoka veginum áfram. Ég er síður en svo að ásaka þetta. Hér mun hafa verið tekið framlag af fjallvegafé, þó að vegurinn sé ekki í fjallvegatölu, en það sýnir, hversu mikil nauðsyn er á því að koma þessu vegasambandi á.

Ég skal ekki ræða um þá deilu, sem hefur verið vakin upp í blöðum, hverjum það sé að kenna, að þessi vegur hafi ekki komizt í þjóðvegatölu; það er áreiðanlega byggt a. m. k. á mjög miklum misskilningi, að ég eigi þar nokkra sök, og verði litið í þingtíðindi frá þeim tímum, þá mun ekki finnast um það einn stafur, að ég hafi lagt á móti því, að vegur þessi væri tekinn í þjóðvegatölu, auk þess sem ég hef ekki átt sæti í samgmn., svo að ég get ekki hafa haft þar nein áhrif á, að vegurinn hafi ekki komizt í þjóðvegatölu. Skal ég hins vegar ekki ræða það atriði frekar.

7. liðurinn er, að aftan við 94 bætist: og þaðan um Trostransfjörð á Arnarfjarðarveg. Þ. e. a. s., það er frá Reykjarfirði, þar sem þjóðvegurinn endar nú. Er þá ætlazt til, að tekinn verði vegurinn frá Reykjarfirði um Trostransfjörð og inn á Barðastrandarveginn eða inn á Arnarfjarðarveginn, sem væntanlega verður lagður skammt frá Trostransfirði, upp í þjóðvegatölu.

8. till. er um það, að á eftir 95 komi nýr liður, sem orðist svo: Suðureyrarvegur: Af Bíldudalsvegi sunnan Tálknafjarðar að Suðureyri. Sá vegur er nú í sýsluvegatölu, en hins vegar hefur sýslan, eins og ég hef tekið fram áður, enga möguleika til þess að leggja fram neitt verulegt fé í þennan veg og þessi hluti Tálknafjarðarhrepps þar af leiðandi alveg útilokaður frá að geta fengið vegasamband svo fljótt sem nauðsyn er á.

Tölul. 9 er, að á eftir B. 96 komi tveir nýir liðir, er orðist svo: Annað er Hjarðarnesvegur: Af Barðarstrandarvegi í Vatnsdal um Fossá að Auðshaugi. Ég vil í sambandi við þessa till. leyfa mér að benda á, að tekinn hefur verið í sýsluvegatölu afleggjari frá Barðastrandarvegi upp á Þingmannaheiði og niður að Fossá, vegna þess að það þótti stytzta leiðin til þess að koma Hjarðarnesinu í samband. En þetta er mjög óheppilegt fyrir umferðina, vegna þess að til þess að geta notað þennan veg, þarf að fara langt upp á heiði, og er því eðlilegra, að vegurinn sé tekinn úr Vatnsdalnum og farið út með firðinum og þá leiðina með byggð, heldur en að fara upp á heiðina til þess að koma þessum bæjum í samband. Sá vegur mundi verða miklu lengur ferðafær vegna snjóa að vetrinum til, og er því hér um miklu heppilegra vegarstæði að ræða en það, sem nú hefur verið valið. — E-liður undir þessum tölulið er Siglunesvegur: Af Barðastrandarvegi hjá Haukabergi að Siglunesi. Sá vegur er einnig í sýsluvegatölu, en það gildir sama um hann og aðra sýsluvegi í Barðastrandarsýslu, að það er ekki nægilegt fé til þess að hrinda áfram þeirri vegargerð svo fljótt sem þörf er á.

10. liðurinn er, að á eftir B. 97 komi nýr liður, er orðist svo: Melanesvegur: Af Rauðasandsvegi við Bjarngötudal um Móberg að Melanesi. Þetta er einnig sýsluvegur, og hefur nú verið unnið að honum í ár af sýsluvegafé og verið gert nokkurn veginn skriðfært, en sýslan mun ekki hafa neitt fjármagn til þess að geta haldið við svo miklu af sýsluvegum, svo að hægt sé að fara um þá, eins og tímarnir krefjast, og er því ætlazt til þess, að hann sé einnig tekinn upp í þjóðvegatölu.

11. og síðasti tölul. er, að á eftir B. 98 komi nýr liður og orðist svo: Útvíkurvegur: Af Örlygshafnarvegi við Ósa um Gjögur, Sellátranes, Hænuvík, Kollsvík og til Breiðuvíkur. Mikið af þessum vegi er nú í sýsluvegatölu, þó ekki vegurinn frá Kollsvík til Breiðuvíkur, en það er alveg óhjákvæmilegt, að það vegasamband komist á, og sýslan mun ekki hafa neina möguleika á því að leggja nægilegt fé fram til þess að viðhalda þessum vegi, sem er yfir fjöll að fara og þarf allmikið viðhald, svo að hér er lagt til, að hann sé tekinn einnig upp í þjóðvegatölu.

Ég hef þá lýst nokkuð þessum till. mínum. Hér eru komnar fram aðrar till., sem ég skal ekki ræða hér, þær verða ræddar af viðkomandi tillögumönnum. Ég vil þó aðeins geta þess, að á þskj. 80 eru allvíðtækar brtt. á vegalögunum, sem snerta hin ýmsu héruð í landinu, og ég vildi gjarnan óska þess, ef hv. samgmn., sem fær nú þetta mál til athugunar, hugsar sér að gera þær víðtæku breytingar á lögunum, sem farið er fram á í því þskj., að hún hafi samráð við mig um þær breytingar, sem gerðar eru á vegum í Barðastrandarsýslu eftir þeim till., sem liggja þar fyrir.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða till. á þessu stigi málsins. Mér finnst það ekki óeðlilegt, að n. hafi um það samvinnu við alla viðkomandi aðila, áður en hún tekur ákvarðanir um það. Það er að sjálfsögðu þeirra mál. En ég vildi mjög óska eftir því, að hún ræddi við mig um hin einstöku atriði í þeim till., ef hún hugsar sér yfirleitt að gera breyt. á vegalögunum almennt á þeim grundvelli, sem lagt er til í þeim tillögum.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.