25.10.1954
Efri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

15. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þar sem þetta er 1. umr. málsins, mun ég ekki tala um þær till. sem ég á, á þskj. 80. Þær bíða að sjálfsögðu til 2. umr. eftir þingvenjum. Hins vegar vildi ég gjarnan tala dálítið um málið almennt.

Þegar vegalögum hefur verið breytt á undanförnum þingum, hefur aldrei fengizt nema sáralítið af þeim upplýsingum, sem þurfa að liggja fyrir, þegar maður tekur eins víðtæk lög, sem ná yfir landsheildina, og vegalögin fyrir til breytingar.

Ég hef ofur lítið gluggað í þetta, ekki mikið, en dálítið. Ég sé t. d. það, að áhuginn fyrir vegalagningunni er það misjafn í sýslunum, að um leið og Alþingi hefur tekið einhvern hluta af nýjum vegum inn í þjóðvegatölu, þá minnka sumar sýslunefndirnar að sama skapi sýsluvegina og spara sér sjálfum útgjöld, þ. á m. Barðastrandarsýsla, sem hér er lagt til að breyta vegum hjá í frv. því, er hér liggur fyrir. Aðrar taka þá nýja vegi upp í sýsluvegatölu og halda áfram að reyna að vega hjá sér, án þess að vera með það sjónarmið aðallega fyrir augum að koma vegalagningunni af sér og yfir á ríkið. Þetta er ákaflega misjafnt, og þetta hefur maður aldrei fengið neinar upplýsingar um hér hjá samgmn., þegar um vegalög hefur verið að ræða. Sömuleiðis er vegalagningunni komið það misjafnt í sýslunum, að það eru til sýslur, sem eru farnar að taka upp í sýsluvegi heimreiðir á bæi og vegi að fjárhúsum, af því að ríkið er búið að taka á sig alla þá vegi, sem eftir venjulegu eðli eiga að vera þjóðvegir, og sýsluvegina líka, þannig að sýsluvegirnir, þessir venjulegu sýsluvegir, sem liggja á milli hreppa innan sýslu, eru ekki orðnir til lengur, þeir eru orðnir ríkissjóðsvegir. Og til þess að geta varið sýslufénu einhvern veginn, þá er farið að taka inn vegi, bara heimreið á bæinn Hól, sem er svona ½ km frá þjóðveginum — það er orðinn sýsluvegur — og vegur að fjárhúsunum á einum bænum er orðinn sýsluvegur o. s. frv., o. s. frv. Ekkert þetta hefur maður fengið upplýsingar um hjá n., ekki vott. Hún hefur aldrei kynnt sér þetta neitt. Enn fremur eru ýmsar sýslurnar, sem eru með há sýsluvegagjöld og leggja á sig mikið erfiði og útgjöld í sýsluvegasjóði til þess að geta komið sýsluvegakerfinu sem bezt fyrir heima fyrir, þar sem eru sýsluvegir. Aðrar sýslur hafa sýsluvegasjóðina enga og leggja sama og ekkert á sig heima fyrir til að koma vegunum áfram. Alls þessa vil ég láta taka tillit til, ef við tökum upp að opna vegalögin og bæta nýjum vegum við. Þá vil ég fá að vita hjá n., hvernig ástandið er í sýslunum, hvar áhuginn er fyrir sýsluvegunum, sem kemur fram í því, að mennirnir vilja eitthvað á sig leggja til að fá vegakerfið lagað heima fyrir, og hvar hann er enginn, bara í því falinn að koma veginum af sér og yfir á ríkissjóð og geta svo heimtað af ríkissjóði. Þannig kemur hann fram hér og þar um landið.

Ég vil þess vegna fá að vita, hvað eru langir þjóðvegir núna í hverri sýslu á landinu. Við fengum þetta að nafninu til síðast þegar vegalögunum var breytt. Við fengum þá að vita, hvað þjóðvegalengdin var mikil í hinum ýmsu sýslum, og það var ofur lítið tekið tillit til þess af n. þegar l. var breytt, í öðru lagi, hvað mikið af þeim er algerlega ófært með kerrur enn þá og hvað kostar að gera þá vegi góða, sem eru orðnir að þjóðvegum, en eru algerlega ófærir enn þá, meira að segja með kerrur. Er ekki svo mikið eftir að gera akfært og vel fært af þeim þjóðvegum, sem nú eru í þjóðvegatölu, að það sé óþarfi núna á þessu stigi að vera að taka nýja vegi inn á vegalögin? Getum við lagt meira fé fram núna næstu árin en sem nemur því að koma þessum vegum, sem menn hafa verið sammála um að taka inn seinast og þar áður og þar áður, því að það eru vegir í þjóðvegatölu núna, sem voru teknir inn, ekki við síðustu eða næstsíðustu, heldur þar áður við þjóðvegalagabreytinguna, og ekki er búið að gera færa enn? Er það þá nokkuð nema bara að gylla fyrir mönnum að vera að taka inn í þjóðvegatölu vegi, sem svo eru látnir liggja árum og áratugum saman, án þess að nokkuð sé gert við þá? Er þá ekki eins gott að reyna að klára þá þjóðvegi, sem fyrir eru, og gera þá færa og að vera að gera mönnum falskar vonir um að koma upp vegi þarna og þarna, af því að þeir hafa verið teknir inn í þjóðvegatölu, sem ekki er von á fyrr en einhvern tíma og einhvern tíma?

Þetta langar mig þá sem sé fyrst og fremst að fá að vita hjá n., þegar þar að kemur: Hvað eru þjóðvegirnir langir í hverri sýslu, hvað er mikið af þeim orðið akfært? Og þá kemur af sjálfu sér, hvað mikið er ógert af þeim og hvað kostar að gera þá færa. Hve langir eru sýsluvegirnir í hverri sýslu, hvað af þeim er akfært, og hvernig hafa þeir breytzt, þegar vegalögum hefur verið breytt á Alþingi? Af því sjáum við nokkuð, hvar áhuginn er fyrir því að fá vegina góða innan sýslunnar. Svo vil ég líka fá að vita og vona, að n. afli upplýsinga um framlögin til sýsluveganna: Hvaða sýslur eru búnar að samþ. sýsluvegasamþykktir innan sinna vébanda og komnar upp í hámark með það, sem þær geta lagt fram, til þess að fá á móti úr ríkissjóðnum? Hvernig stendur hver einstök sýsla þar? Hvaða sýslur eru það, sem enn þá hafa ekkert á sig lagt og ekkert vilja á sig leggja til þess að fá vegina áfram, heldur bara gera kröfur til Alþingis? Allt saman þetta er vafalaust hægt að fá upplýsingar um, og ég treysti því alveg ákveðið, að þegar n. nú fær þetta frv. til meðferðar og fer að vinna að því, þá útvegi hún upplýsingar um þetta allt saman, lengd þjóðveganna í hverri einstakri sýslu, hvað af þeim er akfært og hvað kostar að gera það akfært, sem ekki hefur verið gert akfært enn; lengd sýsluveganna í hverri einstakri sýslu, hvernig lengd þeirra hefur breytzt, þegar vegalögunum hefur verið breytt á Alþingi, hvað mikið af þeim er fært og hvað ófært fyrir aktæki, hvað hver einstök sýsla leggur að sér til að koma sínum vegum áfram. Þetta allt óska ég að n. athugi og leggi fyrir okkur við 2. umr. málsins, því að ég vil að minnsta kosti taka mikið tillit til þess. Við skulum segja, að séu tveir vegir, sem liggja á svæði, þar sem ekki þarf að koma frá sér daglega vöru, heldur bara eins og gengur draga að sér byggingarefni og matvæli til heimilis og koma frá sér vörum að haustinu o. s. frv., þá vil ég miklu heldur leggja fram fé úr ríkissjóði og taka þann veginn í þjóðvegatölu, þar sem ég sé, að mennirnir í sýslunni eru með áhuga fyrir málinu, hafa samþ. há sýsluvegasjóðsgjöld, hafa aðra vegi svipaða, sem ég veit að þeir muni taka upp í tölu sýsluvega, um leið og þeir losna við þennan, heldur en sýslu, þar sem enginn áhugi er til staðar, ekkert gert til þess að fá sýsluvegagjaldið hækkað, engin sýslusjóðssamþykkt í sýslunni og sem sagt enginn áhugi, nema hjá einhverjum og einhverjum mönnum, sem þó venjulega standa utan við og ekki eru einu sinni í sýslunni, fyrir því að fá fé í vegina. Það eru ákaflega ólík viðhorf frá mínu sjónarmiði að koma á móti mönnum heima fyrir, sem hafa áhugann, og hinum, sem er reynt að troða upp á vegi, án þess að þeir beint kæri sig um það, eða a. m. k. án þess að þeir vilji neitt sérstakt að sér leggja til að fá þá.

Ég skal, eins og ég sagði, ekki fara inn á mínar brtt. Ég vil benda n. á það, að sumar af þeim eru ekki annað en orðalagsbreytingar, leiðréttingar, sumar um að taka í þjóðvegatölu vegi, sem ríkið er búið að láta gera og hefur kostað að öllu leyti, því að það er nú það skrýtna við það, að einhvern veginn lagað hefur það verið svo, að það hafa verið lagðir í landinu a. m. k. þrír þjóðvegir, sem eru ekki í þjóðvegatölu og að öllu leyti kostaðir af ríkinu, ekki af fjallvegafé, heldur bara utan fjárlaga kostaðir af ríkinu, og náttúrlega er það ákaflega þægilegt fyrir þá menn, sem hafa þann aðgang að ríkissjóðnum, að þeir geti fengið vegi lagða þannig. Það eru ekki nema einstakir menn, sem geta þetta. Í till. mínum eru tveir slíkir vegir, sem búið er alveg að leggja; þeir eru tilbúnir og farið að fara eftir þeim og nota þá fyrir löngu og lagðir af ríkissjóðsfé að öllu leyti, bara eru ekki á vegalögum. Ég legg til, að þeir séu teknir inn. Sums staðar breyti ég nöfnum og lengi veginn, eins og þegar ég færi veginn frá Akureyri til Dalvíkur fyrir Múlann og til Ólafsfjarðar og Vestfjarðaveginn alla leið á milli Barðastrandarvegarins af Þingmannaheiði og til Ísafjarðar o. s. frv. Það eru nafnbreytingar. Ég skal ekki tala um það nánar, það geri ég við 2. umr., en ég vil endurtaka það, að ég óska þess ákveðið, að n. leggi meiri vinnu í að rannsaka hugi manna til veganna og hvernig það lýsi sér í misjöfnum framlögum heima fyrir, og taki tillit til þess, þegar hún fer að gera till. um það. Og því vildi ég reyndar líka gjarnan beina til fjvn.-mannanna, að það er ekki annað en ósiður, sem hefur ríkt hér á Alþingi, að reyna alltaf að halda einhverju hlutfalli milli sýslnanna með framlög til vega, þó að það sé sums staðar búið að leggja vegina um alla sýsluna, þannig að það séu ekki til einu sinni vegir fyrir sýsluna að taka upp eins og venjulega sýsluvegi, meðan annars staðar verða menn í um það bil þriðjungnum af sýslum að draga að sér allt á klökkum. Og svona lætur fjvn. alltaf: Ja, það fóru nú 100 þús. kr. í ár í þetta og við skulum hækka vegaframlögin í heild um 10%, þá skulum við hækka þessa um 10% og hina um 5% o. s. frv. — sömu prósenttölu, þó að þörfin sé orðin allt að því leyst á sumum stöðum, þannig að það sé ekkert við féð að gera, sem veitt er þangað, annað en taka af beygjur, sem náttúrlega þurfa einhvern tíma að takast af. En spurningin er, hvort þær eiga að takast af, áður en vegur kemur til annarra, og annað þess háttar. Það er ekkert annað við það að gera en að taka af þverbeygjur og hækka veg, sem kannske hefur ekki verið nógu hár áður, o. s. frv. Þannig er fénu varið núna til þjóðveganna í sumum sýslum landsins, meðan aðrar sýslur verða að draga að sér á klökkum allt, sem þær þurfa að láta að sér og frá sér. Það vil ég biðja fjvn.-mennina að athuga, þegar þeir fara að gera till. um vegina.