25.10.1954
Efri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

15. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég dreg sízt í efa þörfina á þeim vegum, sem frv. þetta fjallar um, né heldur ummæli hv. flm. um það efni.

Það hafa nú þegar verið lagðar fram allmargar brtt. við þetta frv., og ef að vanda lætur, þá mun brtt. fjölga. Ég segi fyrir mig, að ég býst m. a. við því að bera fram brtt. við það. Og þannig hefur það gengið, þegar borið hefur verið fram frv. til l. um breyt. á vegalögum, að þá hefur rignt inn í þingið brtt. við það, og er venjan sú, að málið dagar uppi, en á nokkurra ára fresti tekur þingið sig til og afgreiðir ný vegalög með töluverðu af þeim óskum, sem fram hafa komið, og svo endurtekur sig sagan aftur eftir nokkur ár.

Ég verð að segja það, að mér hefur lengi fundizt afgreiðsla Alþingis á vegalögum vera nokkuð handahófskennd, og vil ég í því efni taka undir ýmislegt af því, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði um það efni. Það fer eftir ýmsu, hvort vegur fæst tekinn inn á vegalög, m. a. mun það alls ekki vera lítið komið undir því, hvað mikill málafylgjumaður þm. viðkomandi kjördæmis er. En vitanlega er það ekki ævinlega sanngjarnt, að till. þeirra, sem mestir eru málaflækjumenn, nái helzt fram að ganga, þó að sú vilji verða raunin á.

Hv. 1. þm. N-M. taldi upp ýmislegt, sem þingið þyrfti að fá að vita, áður en það afgreiddi ný vegalög eða víðtækar breytingar á vegalögunum, og hann óskaði eftir því, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, útvegaði allar þessar upplýsingar. Ég er ákaflega hræddur um, að það verði erfitt fyrir þingnefnd, sem hefur ýmsum öðrum störfum að sinna og nm. ýmsum öðrum nefndastörfum en í þeirri n., að afla allra þeirra upplýsinga, sem hv. þm. óskaði eftir að fá.

Mér hefur lengi fundizt það, og ég hygg, að ég hafi hreyft því einhvern tíma áður á þingi, að það ætti að undirbúa vegalög og vegalagabreytingar á annan hátt en gert hefur verið, — að vinza innan úr nokkurn hluta af þeim till., sem fram eru bornar af einstökum þm., og bæta því inn í vegalögin. Ég held, að það sé kominn tími til þess að taka það til rækilegrar athugunar, svo að niðurstaðan geti orðið til nokkurrar frambúðar, hvar þjóðvegir eiga að vera. Það er enn þá, samkv. lögunum þrískipting veganna. Sumir vegir eru þjóðvegir, og þeir eru alltaf að lengjast, sýsluvegir og hreppavegir. En þetta sýnist nú orðið ekki vera byggt á neinum sýnilegum ástæðum, hvar vegur lendir í hvern af þessum flokkum, heldur sýnist það vera í mörgum tilfellum tilviljun.

Eins og hv. 1. þm. N-M. gat um, þá hefur oft verið hafður sá háttur á við afgreiðslu fjárlaga, þó að það komi ekki beint vegalögum við, að veita til þjóðvega í hinum einstöku kjördæmum með tilliti til þess, hvað hefur verið veitt næsta ár á undan. Ef kjördæmi hefur fengið — skulum við segja — óeðlilega mikið vegafé á einum fjárlögum, þá er samkv. því sjálfsagt, að þetta kjördæmi haldi áfram að fá óeðlilega mikið til vega. Og ef annað kjördæmi hefur af einhverjum ástæðum orðið sérstaklega út undan um framlög til vega, þá á það að halda áfram að vera út undan. Ég held, að þetta þyrfti endurskoðunar við, en það kemur nú ekki beinlínis við vegalögum, heldur fjárveitingu til vega í fjárlögum.

Það er margt, sem kemur til greina í þessu efni. Það er ekki einasta það, sem hv. 1. þm. N-M. var að tala um, hvað væru miklir sýsluvegir í hverri einstakri sýslu og hvað sýslan legði á sig o. s. frv. eða vegalengdir. Atriði, sem oft er hlaupið yfir, kemur líka til greina, og það er það, að vegna mismunandi atvinnuhátta er mismunandi þörf á vegum í hinum einstöku hlutum landsins og mjög mismunandi, hvað það kostar að halda vegunum við, vegna þess að sumir vegir eru notaðir mjög mikið daglega, aðrir vegir eru notaðir fremur lítið. Eins er það, að um sum héruð liggja vegir, sem hafa alþjóðarþýðingu, þannig að samgöngur eftir langleiðum um landið eru um þá vegi, en aðrir eru þannig, að þeir eru algerlega fyrir þá sveit, sem hlut á að máli, eða svo til.

Ég held þess vegna, að þetta allt saman þurfi vandlegri endurskoðunar við en þn. getur látið í té á einu þingi, og erindi mitt með því að kveðja mér hljóðs er því einkum að beina því til hv. samgmn., sem án efa fær þetta mál til meðferðar, samkv. till. flm., að íhuga, hvort ekki er þörf á því að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að allt vegakerfi landsins verði rannsakað með það fyrir augum, hvernig þeim málum verði haganlegast skipað og sanngjarnast til nokkurrar frambúðar. Tímarnir breytast, og það er vitanlega ekki hægt að gera vegalög frekar en önnur lög þannig úr garði, að ekki geti orðið nauðsyn á því að breyta þeim einhvern tíma síðar. En það ætti þó að mega gera vegalög og skipta vegunum í þjóðvegi og sýsluvegi eða hreppavegi á þann veg, að við mætti hlíta að minnsta kosti allmörg ár. Og ef slík endurskoðun færi fram á annað borð á vegakerfinu og hverju þyrfti að breyta, til þess að lögin samsvöruðu réttmætri þörf, þá er það auðvitað mál, að til þess þarf aðstoð sérfræðinga.

Án þess að ég vilji á nokkurn hátt spilla fyrir þeim till., sem hér liggja fyrir, þá læt ég nú þegar það álit í ljós, að hvort sem þinginu sýnist að gera nú einhverja bráðabirgðabreytingu á vegalögunum eða ekki, sem ég skal ekki um segja, hvað verður ofan á, þá tel ég samt sem áður fulla þörf á því, að þessi mál séu tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild með þörf allrar þjóðarinnar fyrir augum og það, að einhver föst stefna sé í þessum málum og þeim skipað í ákveðið kerfi. Ég vildi því óska, að hv. n., sem fær málið, taki til rækilegrar íhugunar. hvort samhliða þessu máli og í tilefni af því sé ekki rétt að gera ráðstafanir í þá átt, t. d. með því að fela ríkisstj. slíka endurskoðun alls málsins eða þá jafnvel að skipuð verði mþn. í það, — þó að það gefist misjafnlega, — því að það er áreiðanlega þörf á því, að meira samræmis og meira yfirlits sé gætt í þessum málum en verið hefur undanfarið.