25.10.1954
Efri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

15. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessa máls, þm. Barð., varði alllöngum tíma til þess að svara ræðu minni, en ég þarf ekki að verja löngum tíma til þess að gera athugasemdir við ræðu hans, sökum þess að, að því leyti sem hv. þm. var að svara mér, var það allt byggt á misskilningi á því, hvað ég hefði sagt og hvað ég hefði meint.

Hv. þm. virtist ganga út frá því sem sjálfsögðu, að það, sem fyrir mér vekti, væri að koma í veg fyrir, að það yrðu lagðir vegir þar, sem minnst væri af þeim fyrir, og sá kafli ræðu hans fjallaði um það, hvað sum héruð hefðu fengið mikla vegi og önnur litla, og það hlyti að vaka fyrir mér, að sá mismunur ætti að haldast. Ég þykist ekki hafa gefið neitt tilefni til þessara hugleiðinga hv. þm.

Það, sem fyrir mér vakir, er í stuttu máli það, að ekki sé stöðugt verið að breyta vegalögunum af handahófi, heldur sé rannsakað af kunnáttumönnum, hvar vegi skuli leggja, og vegalögin sniðin eftir því og byggð á heildartillögum eftir rannsókn, en ekki á málafylgju einstakra manna hér á Alþingi um einstök atriði. Ef þetta væri gert, þá gæti það leitt til alveg þveröfugrar niðurstöðu við það, sem hv. þm. Barð. bjóst við. Ég gæti vel ímyndað mér, og mér virðist öll þróun þessara mála stefna í þá átt, að niðurstaðan yrði sú, að ríkissjóður tæki við öllum vegum og skipting veganna í þjóðvegi, sýsluvegi og hreppavegi hyrfi, — að þróunin yrði svipuð og t. d. í skólamálum. Í fyrstunni var það þannig, að sveitirnar þurftu algerlega að kosta sína barnaskóla, ef það þá voru nokkrir barnaskólar; svo fór ríkið að veita styrki, sem smáuxu, til þessara skóla, og nú er komið svo, að skólarnir hvíla að langsamlega mestu leyti á ríkinu.

Mér sýnist þróunin vera þessi, og ef til vill kemur það í sama stað niður. Ef til vill er öll þróun þjóðfélagsins slík, að þetta sé réttmætt. að ríkið sjái um sem allra flestar opinberar framkvæmdir, m. ö. o., að skipting landsins í einstaka hluta og framlög þessara einstöku hluta sé að verða að einhverju leyti úrelt. (Gripið fram í.) Nei, ég var ekkert að tala um, að þetta ætti að leiða til eins eða annars. Ég get ekki fyrir fram sagt neitt um það, heldur hitt, að þetta mál ætti að afgreiða sem heild, þannig að samræmi væri í og málið leyst með alþjóðarhag fyrir augum.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að fara nánar út í einstök atriði þessu viðvíkjandi, því að hv. þm. Barð. hefur algerlega misskilið mig að því er þetta snertir. Mér skildist, svo að það sé gert einfaldara, hann skilja þetta svo, að ég vildi hafa vegina í Eyjafjarðarsýslu þjóðvegi, en ekki vegina í Barðastrandarsýslu. Ekkert slíkt vakti fyrir mér. En viðvíkjandi því, sem hér hefur borizt í tal um fjárveitingar á fjárlögum til einstakra vega, og ég vék að því, að mér þættu það óviðfelldin vinnubrögð, að ár eftir ár er farið eftir því um fjárveitingar til einstakra héraða til vegalagninga, hvað þau hafa fengið árið áður, sagði hv. þm. Barð., að þetta hefði verið gert til þess að rétta hlut þeirra héraða, sem minnst hefðu fengið áður. Einhvern tíma hlýtur að taka enda, að það sé búið að rétta hlut þeirra héraða, og ég held, að ekki þurfi að færa rök að því. Allir hljóta að sjá, að þetta er enginn grundvöllur til að byggja á. Ef ein sýsla hefur fengið 100 þús. kr. í ár og svo er sama heildarfjárveiting til vega næsta ár, þá á hún endilega að fá aftur 100 þús., hvernig sem á stendur. Það er enginn grundvöllur, finnst mér. Það á að meta þörfina og fara eftir því, en ekki útreikningum á því, að svona hafi það verið áður og svona skuli það vera áfram.

Úr því að farið er að ræða um þetta, þá ætla ég aðeins að nefna eitt atriði. Það er vitnað í það, að sum héruð hafi fengið mikla vegi, og það eru þá einkum héruð, sem nota þá mikið vegna atvinnurekstrar, t. d. eins og mjólkurflutninga. En þó að vegur hafi verið lagður um hérað, t. d. um aldamót, og honum eitthvað lítillega haldið við, þá er það með vegi eins og önnur mannanna verk, að þeir verða blátt áfram ónýtir á endanum. Það getur verið alveg eins mikil þörf á því að byggja upp gamlan veg. t. d. elztu vegi landsins, eins og að leggja nýjan veg, því þó að einhvern tíma hafi legið vegur um eina sveit, sem er að verða ónothæfur eða orðinn ónothæfur, þá er sú sveit, þó að hún hafi haft veg, alveg jafnvegalaus og hin, sem aldrei hefur fengið veg. En fjárlögin liggja nú ekki fyrir hér til umræðu, og ég ætla ekki að fara lengra út í þetta og þarf ekki að taka neitt þar fram. — Þetta er engin sérskoðun mín viðvíkjandi vegalögum, sem ég setti fram áðan, heldur yfirleitt um löggjöf. Ég álít, að það ætti líka — og var nú gert fyrir nokkrum árum að nokkru leyti, en ekki nógu rækilega — að fara fram allsherjar rannsókn á þörf fyrir hafnarmannvirki í landinu og margt fleira: Ég álít, að svona heildarrannsókn hefði átt að fara fram fyrir löngu um þörf á skólabyggingum. Skólum hefur verið komið upp hér og þar um landið fyrir atbeina einstakra héraða og áhuga einstakra manna og áróður um það. Svo kemur á daginn, að sumir skólarnir eru auðir. Og nú liggur fyrir till. frá hv. þm. Barð. um að taka einn af þessum skólum og gera allt annað við hann, vegna þess að hans sé ekki þörf lengur. Hefði verið rannsakað í byrjun, hvað mikil væri þörf t. d. á unglingaskólum, og ríkisvaldið hagað sér eftir því, þá er ekkert líklegra en að þeir skólar, sem fyrir hendi hefðu verið, mundu vera fullsettir nú oe þar af leiðandi ekki komið fram slík till. um að taka einn af skólunum og nota hann til alls annars en húsið var upprunalega ætlað til. Þess vegna er það, að það er ekkert sérstaklega út af þessu frv. hv. þm. Barð., heldur er það almenn skoðun mín, að það sé ráðizt í margt í þessu landi að of lítið athuguðu máli og það þyrfti yfirleitt meiri heildarathugun á framkvæmdum en á sér stað og verið hefur, bæði í vegalögum og öðru.