25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

100. mál, innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram var tekið, þá er fyrri flm. forfallaður í dag. En ég vildi gjarnan freista þó að fá þessu máli komið til n., þannig að það tefjist ekki af þeim sökum.

Þegar lögin um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl. voru sett á árinu 1953, þá bentum við Alþýðuflokksmenn á það, að í raun og veru væri að verulegu leyti um orðaleik einn að ræðá í sambandi við þá breytingu, sem gerð var á fyrri lögum. Í stað fjárhagsráðs, sem áður veitti leyfi fyrir innflutningi og jafnframt gjaldeyrisleyfi, skyldi nú koma innflutningsskrifstofan, sem veitti innflutningsleyfin, en bankarnir áttu aftur að sjá um gjaldeyrinn. Lögðum við þá til, að jafnframt því sem ákveðið var, að vissar vörur skyldu settar á frílista auk B-listavaranna, bátagjaldeyrisvaranna, skyldi jafnframt kveðið svo á, að bönkunum skyldi jafnan skylt að láta af hendi nauðsynlegan erlendan gjaldeyri til kaupa á þeim vörum, sem settar voru á frílista, innan hæfilegs tíma frá því, að beiðni um slíkt kæmi fram. Og við leyfðum okkur að benda á, að það væri gagnslítið að hafa vöruna á frílista, ef ekki væri hægt að fá hana inn vegna þess, að bankarnir synjuðu um nauðsynlegan gjaldeyri til kaupanna. Reynslan hefur síðan sýnt, að það voru fyllstu rök, sem við höfðum þarna fram að færa, þó að það fari náttúrlega að ýmsu leyti eftir því, hvernig gjaldeyrisástandið er á hverjum tíma. En að verulegu leyti hefur það komið í ljós, að það eru í raun og veru bankarnir og bankarnir einir, sem ákveða það, hvað af frílistavörunum er frjálst og hvað er ekki frjálst, hafa sumpart synjað um innflutning eða gjaldeyri fyrir honum og sumpart dregið úr hófi að veita gjaldeyrinn, auk þeirra erfiðleika, sem það að sjálfsögðu veldur mönnum, að innflytjendurnir þurfa að greiða fyrir fram til bankans mikinn hluta af andvirði þeirrar vöru, sem menn kaupa inn, og láta liggja þar vaxtalaust í langan tíma.

Nú hefur það gerzt síðan þessi lög voru afgreidd og einmitt á þessu þingi, að fram er komin í Sþ. till. um að gefa frjálsan innflutning á bifreiðum. Þessi till. er flutt af þingmönnum úr öðrum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., og mér finnst því mega telja víst, að hún verði samþykkt. Jafnframt þessu er svo komin fram till. frá þm. úr hinum stjórnarflokknum, Framsfl., um það, að bankarnir skuli láta af hendi nauðsynlegan erlendan gjaldeyri til kaupa á þessum bifreiðum, um leið og þær eru settar á frílista. Í þessu liggur í fyrsta lagi bein viðurkenning fyrir því frá stjórnarflokknum öðrum, Framsfl., að það sé gagnslaust að setja vörur á frílista. nema jafnframt sé tryggður réttur manna til að fá keyptan þann nauðsynlega erlenda gjaldeyri, sem þarf til innflutnings á vörunni. Í öðru lagi verður trauðla litið svo á, að það sé ætlun þessara mætu þm., að gjaldeyrir til kaupa á bifreiðum eigi að ganga fyrir gjaldeyri til kaupa á öðrum vörum, sem á frílista eru, jafnnauðsynlegar eða miklu nauðsynlegri jafnvel en bifreiðarnar sjálfar. Ég vil ekki trúa því, að það geti verið tilgangur flm. brtt., að það eigi að láta bifreiðainnflytjendur hafa nokkurn sérstakan forgang að gjaldeyri til innflutnings á frílistavörum, heldur hljóti að vaka fyrir flm. einmitt sama og vakir fyrir okkur Alþýðuflokksmönnum, að tryggja rétt manna til gjaldeyriskaupa eftir þörfum fyrir þeim vörum, sem á annað borð eru settar á frílista.

Í trausti þess, að þessi viðurkenning á staðreyndum nái til stjórnarflokkanna, annars eða beggja, þá viljum við nú freista að bera fram í þessu frv. efni þeirrar till., sem við bárum fram á þinginu 1953, þegar lögin um skipun innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl. voru afgreidd. Mér virðist einmitt tillögur stjórnarflokkanna í hv. Sþ. benda til þess, að sá skilningur hafi náð að festa rætur hjá flokkum hæstv. ríkisstj. og þá væntanlega einnig hjá henni, að það sé ekki annað en að gabba landsfólkið að setja vörurnar á frílista, nema um leið sé tryggður réttur innflytjendanna til þess að fá keyptan nauðsynlegan erlendan gjaldeyri fyrir þeim vörum, sem þeir panta samkv. frílista.

Ég hef því beztu von um, að hv. þdm. geti fallizt á að samþykkja þetta litla frv. og staðfesta það, sem virðist nú vera orðið almennt viðurkennt, ekki einasta meðal almennings, heldur einnig meðal stjórnarflokkanna og þá væntanlega ríkisstjórnarinnar einnig.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjhn., og vænti skjótrar og einhuga afgreiðslu.