08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

166. mál, skipun prestakalla

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. eindreginni beiðni sóknarnefndar, eins og skýrt er frá á þskj. 429, og frá 1237 mönnum, sem hafa skrifað undir þessa ósk, að fá tvo presta í Eyjum. Þá er mér hermt, að einnig sé samþykki núverandi sóknarprests fyrir þessu, og er þar vitnað í það, sem fram kemur í vísitazíu biskups 13. febr. s. l., þar sem segir svo, að sóknarprestur og sóknarnefnd séu sammála um, að æskilegt sé, að tveir þjóðkirkjuprestar verði í Vestmannaeyjum til enn meiri eflingar kirkjulegu starfi og kristilegri menningu.

Það er nú svo, að þó að fljótfarið sé stundum milli Eyja og lands, þá vill þar verða brestur á oft og tíðum, og hefur oft komið í ljós, að prestar, sem þar hafa setið, hafa verið nokkuð viðbundnir, þannig að þeir hafi ekki að heiman komizt, og ekki langt síðan varð að sækja prest í nágrannaprestakall til þess að gera þar prestsverk. Lengi vel bar ekki á baga út af þessu, — ég vil segja síðustu 20–30 árin, — vegna þess að séra Jes A. Gíslason, past. em., sem hafði verið prestur undir Eyjafjöllum, hætti prestsskap og flutti til Eyja og stundaði þar önnur störf, en þegar í nauðir rak var alltaf til hans leitað. Ef prestur var veikur eða fjarverandi, þá var alltaf til hans leitað til þess að gera nauðsynleg prestsverk, en hann er nú orðinn það farinn að árum og heilsu, að hann gerir slíkt ekki meir. Er þess vegna ósk safnaðarins, má segja, sem og biskups, að þarna séu hafðir tveir prestar, svo að þeir geti hjálpazt að við það kirkjulega starf og við uppeldi þess mikla fjölda unglinga, sem uppalinn er í Vestmannaeyjum, því að þar er eins og annars staðar mikill fjöldi og ekki minni af börnum en víða annars staðar á landinu; þar sem jafntítt er, að ungt fólk byrji búskap, eins og verið hefur alla tíð, þá fjölgar vitaskuld þeim verkefnum, sem prestarnir eiga að sjá um, ekki hvað sízt í uppeldislegu starfi.

Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar var íbúatalan í Vestmannaeyjum þann 1. des. 4056, og er það mjög nálægt því takmarki, sem er heimilt að hafa tvo presta á. En þess er að gæta, að mikinn tíma ársins er þar að öllum jafnaði aðkomufólksfjöldi allmikill, svo að hundruðum, ef ekki þúsundum skiptir, og þetta fer vaxandi eftir því, sem útgerðin fer vaxandi, eins og verið hefur raunin á síðustu árin. Þetta styrkir enn þá nauðsyn þess, að tveir sóknarprestar séu þar starfandi, enda var það svo áður, fram á 19. öld, eða þar til Vestmannaeyjar voru gerðar að einu prestakalli með konungsbréfi 7. júní 1837. — Ég skal geta þess, að ég hef átt tal um þetta við kirkjumrh. hæstv., og hann hefur tjáð sig vera vinveittan þessu frv.

Ég skal ekki hafa hér um fleiri orð. Ég vonast til þess, að hv. d. taki frv. vel, og vil biðja þess, að að lokinni 1. umr. sé málinu vísað til menntmn.