04.04.1955
Efri deild: 67. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

182. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. til l. um skipun prestakalla, 182. mál, á þskj. 521, er flutt af menntmn. að beiðni hæstv. kirkjumrh.

N. hélt fund um málið, og mætti biskup landsins á þeim fundi. Gaf hann n. ýmsar upplýsingar, og telur hann mikla þörf fyrir prest þann, sem um ræðir í frv., til þess að annast þjónustu í forföllum presta víðs vegar um land, eftir því sem þörf krefur, því að ríkinu ber skylda til að kosta slíka þjónustu í veikindaforföllum embættismanna, sbr. lög um réttindi og skyldur embættismanna.

S. l. ár hefur þurft að ráða presta í veikindaforföllum í þrem prestaköllum og oft um lengri tíma. Erfitt er stundum að fá aldraða presta til slíkra starfa, og því er frv. þetta m. a. fram komið.

Frv. um sams konar efni hefur áður legið fyrir Alþ., og n. sú, er undirbjó l. um skipun prestakalla 1951, lagði til, að stofnuð yrðu tvö slík embætti aðstoðarpresta.

Ætlazt er til, að prestur sá, er hér um ræðir, hafi sömu laun og sóknarprestar hafa, auk þess ferðakostnað og húsaleigu, þar sem hann dvelur vegna þjónustu í prestaköllum.

N. mun taka frv. til frekari athugunar fyrir 2. umr. málsins og áskilur sér rétt eða einstakir nm. til að koma þá fram með brtt.