19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2396)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að gefa skýringar á fundi utanríkisráðherranna, sem fór fram í Reykjavík í ágústlok. Fundir utanríkisráðherranna eru sérstaks eðlis. Það er engin atkvgr. um málin, heldur aðeins lagðar fram till. þessara fjögurra Norðurlandaþjóða um það, hvernig þær ætli að haga atkvæðagreiðslu á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki leitað neinna atkvæða. Það er ef til vill leitað stuðnings við mál, og Danir leituðu stuðnings annarra skandinavísku þjóðanna um þetta mál sitt hjá Sameinuðu þjóðunum. Við tókum ekki afstöðu til þess og við gáfum þeim ekki loforð um stuðning í málinu, og það er algerlega óréttmætt að bera upp á mig landráðastarfsemi í sambandi við það, að ég hafi sleppt einhverjum rétti Íslendinga.

Hv. þm. Borgf. minntist hér á tillögur Jóns Þorlákssonar frá 1931. Jón Þorláksson gerði till. þess eðlis, að Íslendingar skyldu í sambandi við deilu Norðmanna og Dana varðveita allan rétt sinn til Grænlands. En hvað hefur hv. Alþ. gert? Hvað hefur þessi hv. þm. gert, sem er búinn að sitja á þingi í 38 ár? Hverju hefur hann áorkað í þessu máli? Hann var þó a. m. k. í meirihlutaflokki allt fram til 1927, og mér er ekki ljóst, að Alþ. hafi nokkurn tíma tekið „pósitíva“ afstöðu til þessa máls, heldur þvert á móti. Hann las hér upp nál. frá því í fyrra, en las það ekki til enda, af hvaða hvötum sem það er. Nál. hljóðar þannig:

„Alþingi hefur oftar en einu sinni gert ályktanir um þetta mál og aldrei afturkallað þær. Standa þær því enn í fullu gildi. Nefndin sér því ekki, að ný þál. um málið geti haft verulega þýðingu, heldur sé mest undir framkvæmdinni komið,“ — hér hætti hv. þm. —„ þ. e. hvað ríkisstj. kann að verða ágengt í samningum við stjórn Danmerkur um réttindi Íslendinga á Grænlandi. Leggur nefndin því til, að till. þessari verði vísað til ríkisstj.

Þarna höfum við þingviljann.

Annars er mér það ekkert áhugamál, að Íslendingar afsali sér nokkrum rétti til Grænlands, en hitt er mér áhugamál, að við stöndum ekki eins og illa gerðir hlutir frammi fyrir almenningsáliti heimsins í þessum málum. Það er búið að þvæla um þetta mál frá því 1931, — og sennilega áður, ég er ekki nógu fróður um það, — og Alþingi Íslendinga hefur aldrei haft hugrekki til þess að taka afstöðu til þess. Það er búið í 23 ár a. m. k., frá því 1931, að hafa tækifæri til þess að höfða mál fyrir alþjóðadómstóli um Grænland, en það hefur alltaf brostið hugrekki til þess. Eini maðurinn, sem eitthvað hefur gert „pósitívt“ í þessu máli, er hæstv. fyrrverandi utanrrh., með því að hann fól beztu sérfræðingum Íslendinga að gera álitsgerð í málinu. Og hvernig er sú álitsgerð? Hún er svo eyðileggjandi fyrir alla þá, sem hafa haldið rétti Íslendinga fram, að við þeim málum er tæplega hægt að hrófla eftir það.

Hvers vegna hefur ekki hv. þm. Borgf. borið hreinlega fram kröfu hér um það, að Íslendingar færu í mál við Dani um Grænland? Hvers vegna hefur hann ekki komið því máli fram? Af því að það er greinilegt, að hann er í stórkostlegum minni hluta í þinginu. Og svo ætlar hann að bera það á mig, að ég hafi brugðizt íslenzkum málstað, þar sem ég hreyfði ekki mótmælum við Dani í sumar á lokuðum fundum, þar sem ekki skipti mjög miklu máli, hvaða afstöðu við tókum til þessa máls.