19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2405)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., er þess efnis, að lagt verði fyrir sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að sitja hjá við atkvgr. um það, hvort Dönum beri lengur að senda skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um Grænland.

Mér þykir þessi till. næsta furðuleg. Ég mundi nú almennt álykta svo, að þögn væri í þessu máli sama og samþykki, og hæstv. utanrrh. lét þau orð falla í umr. hér fyrr, að fyrirvaralaus hjáseta þýddi sama og samþykki. Jafnframt upplýsti hann, að samþykki við till. gæzluverndarnefndarinnar þýddi í raun og veru það sama og það, að Íslendingar afsöluðu sér öllum hugsanlegum réttindum, sem þeir kynnu að eiga í Grænlandi, og jafnframt, skilst mér einnig, staðfestu, að leitað hefði verið eftir vilja grænlenzku þjóðarinnar í þessu máli, þannig að fullnægjandi upplýsingar hefðu fengizt um, hver hann væri. Með hjásetunni án skýringa, án grg., var því í raun og veru játað till. og um leið afsalað um tíma og eilífð, um aldur og ævi, þeim réttindum, sem hugsanlegt kynni að vera að Íslendingar hefðu til áhrifa á Grænlandi og á grænlenzk mál. Þetta finnst mér alveg furðuleg afstaða.

Hæstv. ráðh. sagði, að fulltrúar Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna mundu standa eins og illa gerður hlutur, ef þeir ættu að bera fram rökstuðning fyrir afstöðu sinni og nefna það, að hér á Alþ. væru uppi þær skoðanir, að Íslendingar hefðu sögulegan rétt til Grænlands. Ég álít, að þetta sé fjarri lagi, en hitt hygg ég að sé alveg réttmæli, að fulltrúar Íslands standa eins og illa gerður hlutur á þingi Sameinuðu þjóðanna, ef þeir sitja hjá án þess að gera nokkra minnstu grein fyrir því, hvers vegna þeir sitja hjá, en segja ekki annaðhvort já eða nei. Á hv. Alþ., sem við sitjum hér á, er það einmitt venja, a. m. k. í stærri málum, að þegar menn hvorki greiða atkv. með né á móti, þá gera þeir grein fyrir því, hvers vegna þeir neyti ekki atkvæðisréttar síns. Það eiga íslenzku fulltrúarnir á þingi Sameinuðu þjóðanna alls ekki að gera.

Grænlandsmálið hefur oftsinnis verið til meðferðar hér á þingi og jafnan án þess, að endanlegur úrskurður þingsins félli í því máli. Ég man eftir því tvisvar sinnum, síðan lýðveldið var stofnað. Í hvorugt skiptið fékkst nokkur endanlegur úrskurður um málið hér á Alþ. Nú á á skyndifundi, sem boðað er til án fyrirvara og stendur hluta úr degi, að knýja fram afstöðu Alþ. til þessa máls undir því yfirskini, að það þurfi að svara því, hvort Danir eigi áfram að leggja fyrir Sameinuðu þjóðirnar skýrslur um ástandið í Grænlandi. Mér finnst þetta furðuleg málsmeðferð, furðuleg á allan hátt, að nota þessa átyllu til þess að láta knýja fram án nokkurs undirbúnings afstöðu til máls, sem hér hefur þrásinnis verið til meðferðar í þinginu, án þess að skorið væri úr, hver væri vilji þingsins í þessu efni. Að nota þessa átyllu til þess að knýja fram úrskurðaratkvgr. er óþinglegt á allan hátt.

Ég skal ekki ræða mikið um Grænlandsmálið. Ég hef sagt mína skoðun á því fyrr. Að minni hyggju hefur Grænlandsmálið tvær hliðar í augum flestra Íslendinga. Annað er sá sögulegi og lagalegi réttur, sem ýmsir telja að Íslendingar eigi til Grænlands. Hin hliðin er: Hver er réttur grænlenzku þjóðarinnar sjálfrar og hvernig verður hann bezt tryggður? Því er haldið fram hér af hæstv. ráðherrum, að ekki sé hægt að taka tillit til þessa hvors tveggja í senn, því að þetta stangist. Þetta er vissulega hin mesta fjarstæða. Ég hef sjálfur margsinnis látið í ljós þá skoðun, að réttur Íslendinga til Grænlands væri mjög vafasamur og mjög vafasamt væri, hvort við gætum hagnýtt þann rétt og tekið á okkur þær skuldbindingar, sem því væru samfara að gera hann gildandi. En ég hef jafnan lagt áherzlu á hitt, að hvað sem kynni að líða sögulegum rétti Íslendinga, þá bæri að virða siðferðislegan rétt Grænlendinga, jafnskjótt og þeir hefðu þroska til þess sjálfir að taka málin í sínar hendur. Og ég fæ ekki betur séð en einmitt það að falla ekki frá þeim sögulega rétti, sem við kynnum að halda, mætti verða til þess, að þegar málið yrði gert upp, þá væri kannske aðstaða Grænlendinga önnur en hún kann að vera í dag til þess í alvöru að skapa sér skoðun á þessu máli.

Það síðasta, sem Alþ. afgreiddi viðvíkjandi Grænlandsmálinu, var ályktun sú, sem drepið hefur verið hér á nokkrum sinnum, fyrir liðlega ári. Þá var málinu vísað til ríkisstj., án þess að Alþ. segði sitt álit um, hversu með það skyldi fara, en jafnframt var á það bent og lagt fyrir ríkisstj. að gæta hagsmuna Íslendinga í sambandi við samninga, sem kynnu upp að koma í sambandi við þetta mál. Skýrt var nú ekki mælt, en mér skildist, að meiningin með þessu væri sú, að ýmsir íslenzkir aðilar hefðu hug á því að fá aukin fiskveiðiréttindi og aðstöðu til að stunda fiskveiðar við Grænland, og talið væri nauðsynlegt, að leitt væri til lykta, áður en gengið yrði til slíkra samninga, hvað Íslendingar teldu rétt sinn til Grænlandsmiða. Ég legg ekki neinn dóm á þessa skoðun, sem þarna kemur fram, en á það skal ég benda, að ef það er ætlun hæstv. ríkisstj. að taka upp samninga um þessi mál, fiskveiðaréttindi við Grænland og aðstöðu þar, þá er það áreiðanlega mjög óhyggilegt, áður en farið er að taka upp slíka samninga, að vera fyrir fram búinn að lýsa því yfir, að réttur okkar Íslendinga til aðstöðu þar í landi sé enginn, alls enginn. Það mundi ekki bæta okkar aðstöðu til slíkra samningsviðræðna, ef upp verða teknar.

Að því er snertir till. sjálfa, þá er það upplýst af hæstv. ráðh., að það að sitja hjá við afgreiðslu hennar jafngildi samþykki, og það samþykki innibindi afsal á hugsanlegum réttindum Íslendinga á Grænlandi um tíma og eilífð, um aldur og ævi. Ég verð að segja, að það er nokkuð fljótráðið að ætla að flaustra slíku máli af á skyndifundi, eins og ég áðan sagði. Þar við bætist svo það, að þær upplýsingar, sem fyrir liggja um vilja grænlenzku þjóðarinnar í þessu efni, eru gersamlega ófullnægjandi.

Ég hef spurt að því, hvort leitað hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu með Grænlendingum. Ég hef engin svör fengið við því. Ég hef fengið upplýst síðan á annan veg, að hún hefur ekki farið fram. Það hefur verið upplýst hér í ræðum, með hverjum hætti álits hefur verið leitað, og að minni hyggju segir það ekkert til um vilja grænlenzku þjóðarinnar í þessu efni.

Mér þykir rétt í sambandi við ummæli, sem hafa fallið hér, að taka það fram, að ég tel enga ástæðu til þess að bera illmæli á Dani í sambandi við þetta mál, eins og það, að þeir hafi í huga að drepa grænlenzku þjóðina, þ. e. a. s. sem þjóð, og kenna þeim einum um berklaveikina og afleiðingar hennar. Er skylt að minnast þess, að einmitt núna seinustu árin hefur danska stjórnin gert mjög myndarlegt átak til þess að hefja baráttu gegn berklaveikinni ekki til þess að útrýma þjóðinni með berklum, eins og sagt var, heldur til þess að reyna að útrýma berklaveikinni í Grænlandi, og það er skylt að viðurkenna það, sem vel er gert og rétt að stefnt í því efni. Hins vegar hafa þeir einnig gert ráðstafanir til að bæta híbýlakost Dana og skapa þeim betri atvinnumöguleika en verið hefur til þessa, en þetta snertir ekki kjarna málsins. — Ég segi þetta aðeins af því, að hér hafa verið sögð óviðurkvæmileg orð um meðferð Dana nú á Grænlendingum.

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hér, hversu lengi sé hægt að geyma vafasaman rétt Íslendinga til Grænlands. Því get ég ekki svarað þannig að taka til ákveðinn tíma. En ég skal minna á það í þessu sambandi, að þau 10 ár a. m. k., sem liðin eru síðan íslenzka lýðveldið var stofnað, hefur Alþingi jafnan forðazt að gera nokkuð það, sem gæti rýrt þann hugsanlega rétt, sem við höfum þar og margir telja nokkurs virði.

Mér skildist á hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., að þeir teldu engan minnsta vafa á því, að réttur Íslendinga til afskipta af málum Grænlendinga eða þar í landi væri alls enginn. Hvers vegna á þá, að þeirra eigin till., íslenzki fulltrúinn að sitja hjá við atkvgr.? Er ekki rökrétt afleiðing af þessari skoðun þeirra, að hann eigi að segja já, hreinlega? Hvers vegna á hann ekki að segja já? Það er af því, að hæstv. ríkisstj. sjálf finnur annaðhvort hjá sjálfri sér eða hjá sínum flokksmönnum skort á sannfæringu í því, að hér sé alls ekki um neinn hugsanlegan rétt að ræða, og það get ég skilið.

Ég mótmæli því, að Alþ. sé knúið til að taka afstöðu til Grænlandsmálsins í heild á slíkum skyndifundi sem þessi er, boðuðum á þann hátt, sem hann er boðaður, og undir því yfirskini, sem hér er notað við afgreiðslu málsins.

Því hefur verið haldið fram af þessum tveimur hæstv. ráðh., að ekki væri nema um tvær leiðir að ræða í Grænlandsmálinu: Önnur væri sú að falla bókstaflega frá öllum hugsanlegum sögulegum og lagalegum rétti til afskipta af málum Grænlands, og það virðist vera þeirra skoðun, og hin að gera nú þegar ráðstafanir til þess að krefjast úrskurðar Haagdómstólsins í málinu.

Ég mótmæli því algerlega, að ekki sé nema um þessar tvær leiðir að ræða. Þriðja leiðin er til, og það er sú leiðin, sem við eigum að fara. Við eigum að taka afstöðu til þess, hvort létt sé af Dönum skýrsluskyldunni, — það er ekkert við því að segja, — en við eigum að taka það greinilega fram, að við geymum okkur allan þann rétt, sem við kunnum að eiga, til að hafa afskipti af málum Grænlands, þar til við teljum hentugan tíma til að gera það.

Þessi er afstaða mín í málinu og afstaða Alþfl. Samkvæmt þessu leyfi ég mér að leggja fram brtt., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til Grænlandsmálsins í heild, leggur þingið fyrir sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um ályktun gæzluverndarnefndarinnar varðandi það, að Dönum beri ekki lengur skylda til að senda skýrslu um Grænland til Sameinuðu þjóðanna, og taki hún jafnframt fram, að Íslendingar telji afgreiðslu málsins ekki þjóðréttarlega bindandi.“

Ég sé enga ástæðu til þess að væna Dani um það, að þeir muni láta Grænlendinga sæta illri meðferð, og þess vegna ekki ástæðu til að berjast gegn því á þingi Sameinuðu þjóðanna, að létt sé af þeim skyldu til að gefa reglulega skýrslu til þeirra um ástandið í Grænlandi, enda hægt að fá upplýsingar um það á marga aðra vegu. En ég vil ekki, að með því að láta slíkt mál afskiptalaust sé hægt að segja, að Íslendingar falli frá öllum sínum sögulega eða lagalega rétti til afskipta af málum Grænlands og Grænlandi sjálfu.