19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2408)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Pétur Ottesen:

Ríkisstjórnin hefur nú gengið rösklega fram í því að verja þetta afkvæmi sitt, sem hún hefur lagt hér fram nú alskapað frá sinni hendi fyrir okkur þm., og það er ekki nema í samræmi við það, að móðurástin er alltaf sterk, og ekkert við því að segja.

Ég vildi gjarnan, að athugað yrði, hvort hæstv. forsrh. væri hér staddur. Ég hefði helzt viljað byrja á sjálfu höfðinu í svarræðu minni. (Forseti: Það er nú verið að aðgæta, hvort hæstv. forsrh. er hér nærstaddur.) Já, hæstv. forseti mundi þá máske álíta rétt, að ég sneri mér að einhverjum öðrum á meðan sú athugun færi fram. (Forseti: Ég tel það mjög æskilegt.) Ég skal þá verða við því.

Hæstv. utanrrh. fór hjá sér, sem eðlilegt var, þegar ég minnti hann á afstöðu hans á fundi utanrrh. hér í Reykjavík. Og ég skal ekkert lá honum, þó að hann gerði það. Ég veit, að hann viðurkennir það alveg fullkomlega, að út frá mínu sjónarmiði hafi hann þar farið öðruvísi að en honum bar að gera, því að verði sú afstaða ofan á í þessu máli, sem hann mótaði á þessum fundi hér og ríkisstj. hefur nú lagt drög að með till. sinni hér á Alþ., þá er lokað öllum leiðum fyrir Íslendinga til þess að nota sinn lagalega og sögulega rétt til Grænlands. Með því er ríkisstjórn Íslands og Alþingi búið að leggja blessun sína yfir innlimun Grænlands í Danmörku. Þetta er það raunverulega í þessu máli. Eftir að svo er komið, er sá réttur, sem við erum búnir að varðveita í margar aldir og getum varðveitt meðan við gerum ekki gagnstæðar ályktanir, úr okkar höndum fallinn. Danir geta þá óáreittir af okkur setið að sinum feng þar fyrir vestan Íslandsála. Það er hæstv. ráðh., sem leggur með framkomu sinni á fundinum hér grundvöllinn að þessari sorglegu og hörmulegu niðurstöðu okkar Íslendinga. Þetta fann ég mér skylt að átelja út frá mínu sjónarmiði, og ég veit, að hæstv. ráðh. telur það ekki nema eðlilegt, að ég liti þannig á þetta mál.

Hæstv. utanrrh. vildi halda því fram, að ástæðan til þess, að ég las ekki til enda nefndarálit allshn. frá síðasta þingi, hefði verið sú, að ég vildi draga eitthvað undan. Það var fjarri því; það, sem kom á eftir því, sem ég las, var ekki í neinu ósamræmi við það, sem ég hafði áður lesið og vildi vekja athygli á. Í till. mínum um þetta mál hef ég ekki farið fram á annað en það, að Dönum væri gefið færi á því að láta af hendi við Íslendinga réttinn til Grænlands, áður en hann væri sóttur í þeirra hendur með úrskurði dámstóla. Þetta hefði hæstv. ráðh. átt að geta vitað, m. a. af því, að ég las upp orðalag till. minnar í byrjun minnar ræðu.

Hæstv. ráðh. vildi leggja mér það út til kjarkleysis, að ég hefði ekki lagt til, að farið yrði í mál við Dani, eins og hann hefur orðað það. Ég hef hvað eftir annað lagt til, að farið yrði í mál við Dani, og mín till. inniheldur það, að ef Danir verði ekki við réttarkröfum okkar, þá verði leitað úrskurðar alþjóðadómstólsins í Haag. Ég hef hvað eftir annað lagt þetta til, að það yrði farið í mál við Dani og við sæktum okkar rétt eftir lagaleiðum. Ég held, að ég hafi leiðrétt hér hinn leiða misskilning, sem mér virtist koma fram hjá hæstv. ráðh. í því, að ég hefði sýnt eitthvert kjarkleysi eða undanhald í þessu máli. Ég hef haft í því fulla sókn, þó að hún hafi ekki leitt til þeirra úrslita hér á Alþ., sem ég hefði kosið. Hinu gerði ég svo fulla grein fyrir, hvaða andi hefði svifið yfir vötnunum hér á Alþ. í þessu máli, því að ekki verður annað séð af þeim ályktunum, sem gerðar hafa verið, en að talið væri, að Ísland ætti rétt til Grænlands.

Nú hefur hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin í heild lagt hér fram till. til samþykktar, sem tekur þennan rétt varanlega af Íslendingum, ef hún verður samþykkt. Eftir að slík till. hefur verið samþykkt, þýðir ekki fyrir. Íslendinga að hreyfa legg né lið til að krefjast sögulegs og lagalegs réttar til Grænlands. En í dag stöndum vér þannig, að vér getum krafizt þessa réttar, ef vér bara höfum manndóm til að gera það.

Ég spurði um hæstv. forsrh. Hann kvað vera vikinn af fundi, en af því að ég geri ráð fyrir, að umræðum um þetta mál verði lokið hér í nótt, þá get ég ekki látið niður falla með öllu að svara ræðu hans.

Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan áðan, hvað það hefði getað verið í minni ræðu, sem hleypti slíkri ólgu í hæstv. forsrh. Það var engu líkara en verið væri að bera sápu í Geysi og að hann yrði vel við, slík viðbrögð voru hjá hæstv. forsrh. Og hvað var það svo í minni ræðu, sem gat snert hann á þennan veg? Ég minnti hann á það, hver afstaða hans var hér á Alþ. 1931, þegar hann fjallaði um till. Jóns Þorlákssonar um Grænlandsmálið og lagði til, að hún yrði samþykkt. Nú hefur, eins og kunnugt er, hæstv. ráðh. haft aðra afstöðu til málsins. Í stað þess að hann áleit þá, eins og Alþingi allt, að Íslendingar hefðu nokkurn rétt til Grænlands, er hann og ríkisstjórnin komin á þá bylgjulengd nú, eftir því sem marka má, að Danir einir eigi þennan rétt, en Íslendingar engan. Þetta eru mjög óhagstæð skoðanaskipti fyrir Íslendinga. Og það, sem gefur mér alveg sérstakt tilefni til að svara ræðu hans. sem ég hefði máske annars getað látið niður falla, af því að hann er hér ekki við, eru þau rök, sem hann færir fyrir þessum skoðanaskiptum sínum.

Hæstv. ráðh. segir, að síðan hafi fallið dómur í Grænlandsmálinu. Það er alveg rétt, það hefur fallið dómur í Grænlandsmáli. Sá dómur féll í sambandi við það, að Norðmenn vildu slá eign sinni á óbyggð svæði í Austur-Grænlandi á þeim grundvelli, að þessi svæði væru óbyggð og ekki notuð af neinum. Á því var sú afstaða Norðmanna byggð að slá eign sinni á þessi svæði. Um þetta féll dómurinn.

Í dómsniðurstöðum Haagdómstólsins um þetta mál er ekki sagt, að Danir hafi yfirráð Grænlands, heldur eru Norðmenn dæmdir frá yfirráðum á þessu umdeilda svæði. En í forsendum dómsins er að því vikið, að í þessu efni sé réttur Dana þó ríkari en Norðmanna. Þessi dómur gefur því enga bendingu um það, hvernig alþjóðadómstóll mundi dæma um kröfu Íslendinga til Grænlands. Danir notuðu t. d. í sínum málflutningi gegn Norðmönnum það, að Grænland hefði byggzt frá Íslandi, en ekki frá Noregi, og hafi þetta verið vatn á myllu Dana í deilunni, hversu mundi þá ekki verða ríkari réttur Íslendinga í þessu efni en Dana, sem ekki koma hér við sögu fyrr en mörgum öldum síðar?

Það er þess vegna á algerum misskilningi byggt hjá hæstv. forsrh., að þessi dómur hafi á nokkurn hátt skert réttaraðstöðu Íslendinga til Grænlands. Og vægast sagt má segja það, að rök hans um þetta atriði — eða réttara sagt rakaleysi — hafi verið í miklu ósamræmi við þann mikla myndugleik, sem hann vildi láta felast í sinum orðum um þetta atriði málsins.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram hér, að við, sem bærum fram þessar kröfur, gerðum það til þess að teljast vera þjóðhollir menn; það væri ekkert annað en yfirskinsástæða hjá okkur, að við værum með þessar kröfur; það væri ekkert annað en að við værum að reyna að blekkja landslýðinn með því að bera fram þessar kröfur og halda á þessum rétti. Ég skal nú ekkert fara frekar út í það. Hæstv. ráðh. friðar sína samvizku máske með þessu. En það var líka auðfundið á honum, að honum fannst, að ástæða væri til að bera nokkuð í bætifláka fyrir þessa nýju afstöðu. Hann vildi gera lítið úr því, sem felst í samþykktum Alþingis að undanförnu í þessu máli, og þess vegna væri ekki úr háum söðli að detta. Það skal fullkomlega viðurkennt af mér, að Alþingi hefur engan veginn verið svo skeleggt í þessu máli sem því hefði borið að vera. Hins vegar hefur í meðferð þessa máls frá því fyrsta allt til þessa dags — eða raunar dagsins í gær, því að það er víst komið fram yfir miðnætti — ekkert það komið fram, sem hefur gengið í þá átt, að Íslendingar hefðu hér engan rétt. Allt, sem til þessa dags — eða dagsins í gær — hefur gerzt í þessu máli, er mótað af því, að Íslendingar hefðu rétt. Hæstv. ráðh. sagði, að það bæri beztan vottinn um alvöruleysið hjá mér í þessu máli og þeim, sem að því standa á sama veg, að við bærum ekki fram neinar till. um að endurheimta þennan rétt. En ég skal segja hæstv. ráðherra það, að ef hann nú vill bæta ráð sitt, — og ég veit, að hæstv. ráðherra viðurkennir réttmætt frá mínu sjónarmiði, að ég viðhafi þau orð um afstöðu hans til málsins nú, — þá skal ekki á mér standa að bera enn einu sinni fram till. um að heimta þennan rétt. En Sameinuðu þjóðirnar eru ekki sá aðili, sem við í því efni eigum að snúa okkur til; það er hinn almenni dómstóll, það er Haagdómstóllinn. Að því leyti höfum við hér á Alþingi verið á réttri leið með þetta vald, að ef málið ynnist ekki með samkomulagi við Dani, þá yrði því skotið til úrskurðar Haagdómstólsins; það er sá réttur, sem á um það að fjalla. En það er náttúrlega, eins og ég hef áður lýst, tómt mál að tala um það, eftir að búið væri að samþykkja slíka till. sem þá, er hæstv. ríkisstj. hefur nú borið hér fram á Alþingi. Þá getum við alveg sparað okkur allt ómak við að gera tilraunir til að endurheimta þennan rétt, því að þá er búið að búa svo rækilega um þá hnúta, að við erum orðnir réttlausir, og það er það, sem hæstv. ríkisstj. ætlast til að Alþingi samþ. og gefi yfirlýsingu um með þessari till., sem hér er borin fram, að Íslendingar hafi um alla eilífð engan rétt framar til Grænlands. Í samþykkt hennar felst það skýrt og ótvírætt.