19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2410)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er af tilefni ummæla, sem hæstv. utanrrh. lét falla hér áðan, sem ég bið um orðið, og tekur það mig væntanlega stuttan tíma að leiðrétta þau.

Hæstv. ráðh. spurði fyrst: Er það ekki að rýra rétt Íslendinga að láta málin liggja áratug eftir áratug án þess að taka um þau fullnaðarákvörðun? Ja, þessu getur hæstv. ráðh. svarað jafnvel og ég. Meðan ekki eru gerðar ályktanir um að falla frá einhverjum rétti, sem til er, þá er enginn réttur rýrður. Þær ályktanir, sem Alþ. hefur gert í þessu, eru öllum opinberar, líka sendiherrum þeirra ríkja, sem hafa hug á að kynna sér afstöðu Alþ. til málsins. Þyki hæstv. ráðh. ekki, að þetta hafi verið nóg til þess að halda þeim rétti, sem Ísland kann að eiga í þessum efnum, þá gefst nú tilefni til þess á þingi Sameinuðu þjóðanna að minna á, hvað Alþ. hefur um þetta sagt fyrr og síðar. Og það tilefni tel ég að eigi að nota.

Þá lét hæstv. ráðh. þau ummæli falla, að ég hefði vænt stjórnir Noregs og Svíþjóðar um óheiðarleik í þessu máli. Ég skora á hæstv. ráðh. að segja, við hvað hann á með þessu. Hvaða ummæli hafði ég við, sem gefa honum tilefni til að segja slíkt? Hann bætti því við, að ég hefði látið í það skína, að Danir beittu kúgun á Grænlandi. Þetta eru rakalausar fullyrðingar. Það er ekki nokkurt minnsta tilefni til slíkra ummæla, og mig furðar, að hæstv. ráðh. skuli taka sér slíkt í munn, ef hann hefur hlustað á ræðu mína. Ég sagði ekki eitt orð um Dani eða Svía og þeirra afstöðu til þessa máls. Norðmenn hafa að sjálfsögðu beygt sig fyrir Haagdóminum, enda gekk hann í þeirra máli við Dani, þó að hann skæri ekki úr um rétt Íslendinga í málinu, þar sem því var ekki hreyft. Svíar hafa aldrei talið sig hafa nokkurn rétt til Grænlands, svo að mér sé kunnugt um. Afstaða þeirra er því öll önnur en okkar Íslendinga og fullkomlega eðlileg og skiljanleg.

Að ég hafi sagt, að Danir beittu Grænlendinga kúgun, er hið fyllsta ranghermi, sem hægt er að hugsa sér. Ég átaldi þau ummæli, sem höfðu fallið hér í garð Dana í þessu efni, og ég tók það fram, að það væri ekki nokkur minnsta ástæða til þess að væna Dani um það, að þeir mundu beita illri meðferð gagnvart Grænlendingum, enda ber till. mín það með sér, því að þar er beinlínis gert ráð fyrir því, að Íslendingar greiði ekki atkv. á móti því, að létt sé af Dönum skyldu um að gefa skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um Grænland, eins og ég tók fram í ræðu minni. Það er ekki lagt til, að Íslendingar greiði atkv. gegn því, að þessari skyldu sé létt af Dönum, einmitt af því, að ég tel, að það sé engin ástæða til þess að væna Dani um misbeitingu eða kúgun gagnvart Grænlendingum. Hins vegar er því mótmælt og þess krafizt, að það komi fram á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þó að við greiðum ekki atkv. gegn því, að létt sé af Dönum skyldunni til að gefa skýrslu um þetta efni, þá felist í því nokkur viðurkenning á því, að réttur Íslendinga til afskipta af málum Grænlands, sem vera kann fyrir hendi, falli niður. Það er einmitt það, sem tilætlunin er með till. okkar að komi berlega og skýrlega fram.

Ég endurnýja tilmæli mín til ráðh. að benda á, hvaða ummæli það voru í ræðu minni áðan, sem hann taldi, að í fælist aðdróttun til stjórna Noregs og Danmerkur um óheiðarleik í þessu máli.