19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2411)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er nú þegar orðið áliðið, og hér hafa farið fram alllangar umræður um þetta mál, svo að það er ef til vill ekki rétt og ekki ástæða til að lengja þær mjög, og býst ég ekki við að gera það.

Hér liggja nú fyrir fjórar brtt. við till. hæstv. ríkisstj. um þá afstöðu, sem fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna verði falið að taka til þeirrar till., sem liggur fyrir þinginu og á að afgreiða n. k. mánudag. Það er vitanlegt, að þetta tækifæri til þess að láta í ljós afstöðu Íslands til Grænlands, bæði að því er snertir réttarstöðu þess og að því er snertir hagsmuni Íslendinga vegna lokunar Grænlands, verður ef til vill síðasta tækifærið og eina tækifærið, sem til þess gefst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, því að till. Dana felur það í sér, að Grænland verði tekið af skrá Sameinuðu þjóðanna sem nýlenda. Og eins og hefur verið bent á af hv. þm. Borgf. (PO), er þing Sameinuðu þjóðanna að vísu ekki vettvangur til þess að kveða á um réttarstöðu Grænlands. En það er vettvangur til þess að kveða á um stöðu Grænlands, hvort það sé fullkomin ástæða eftir þeim upplýsingum, sem allsherjarþinginu hafa verið gefnar, til þess að afskrifa Grænland sem nýlendu Dana og viðurkenna það sem ævinlegan hluta Danmerkur. Nú lýsir hæstv. ríkisstj. því yfir, að fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum eigi að sitja hjá um þetta mál og hann eigi enga grein að gera fyrir þeirri afstöðu, því að ég get ekki skilið öðruvísi þögn hæstv. utanrrh. og annarra hæstv. ráðh., sem hér hafa talað um þetta mál, við þeim spurningum, sem bæði ég og t. d. hv. 4. þm. Reykv. bárum fram um það, hvort fulltrúa Íslands sé ætlað samkv. till. ríkisstj. að gera nokkra grein fyrir hjásetu sinni. Ég get ekki skilið hana öðruvísi en svo, að honum beri að gera alls enga grein fyrir henni og þegja sem fastast, eða með öðrum orðum að lýsa því yfir með þögninni, að Ísland hafi ekkert að segja, hvorki að því er snertir hagsmuni þess vegna lokunar Grænlands né vegna réttarstöðu Grænlands.

Hæstv. ráðh. hafa gefið stórorðar yfirlýsingar. Hæstv. utanrrh. lýsir því t. d. yfir, að það, að fulltrúi Íslands sitji hjá, sé alveg sama og hann segi já. Hæstv. ráðh. mega gæta þess, að þær yfirlýsingar, sem þeir gefa í umræðum um þetta mál, eru geymdar og þær hafa þýðingu í framtíðinni. Hæstv. fjmrh. varð hér helzt fyrir svörum, en yfirleitt hafa hæstv. ráðh. forðazt að svara með rökum, eins og þeirra er siður og venja, þegar rætt er um utanríkismál hér á hv. Alþ. En hæstv. fjmrh. talaði um, að í mínum málflutningi og annarra væri stórkostlegur tvískinnungur, við værum með rýtinginn í erminni o. s. frv. í þessu máli.

Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. hafa ágætlega svarað þessum rökum hæstv. fjmrh., ef rök skyldi kalla. En hans rökfræði yfirleitt í umræðum er alveg sérstaks eðlis. Hún er venjulega það, sem er kallað „hundalogik“ á slæmri íslenzku. Og svo er það í þessu máli. Blað þessa hæstv. ráðh. hefur allra blaða mest birt greinar dr. Jóns Dúasonar um réttarkröfur Íslands til Grænlands. Það hefur enn fremur birt lýsingar erlendra blaðamanna á því ástandi, sem ríkir í Grænlandi undir nýlendustjórn Dana, eins og hv. 2. þm. Reykv. las hér upp til þess að minna hæstv. ráðh. á. En hér á hv. Alþ. lýsir þessi talsmaður Framsfl., hæstv. fjmrh., því yfir, að við höfum hvorki neinar réttarkröfur til Grænlands né höfum við nokkurt leyfi til þess að vefengja, að sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna, grænlenzku þjóðarinnar í þessu tilfelli, hafi verið sniðgenginn. Hann segir: Það á að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna. — Það hefur verið upplýst hér og hefur líka verið upplýst á þingi Sameinuðu þjóðanna, að það hefur engin þjóðaratkvgr. farið fram í Grænlandi. Grænlenzka þjóðin hefur alls ekki verið spurð um afstöðu sína til innlimunar í Danmörku. Er þetta að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna? Er með þeirri till., sem liggur fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna og Danir hafa haft áhrif á, virtur sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna? Eða hefur hæstv. fjmrh. á hinn bóginn gengið alveg úr skugga um það, að þær kenningar, sem hefur verið haldið fram af mörgum ágætum Íslendingum um rétt Íslendinga til Grænlands, séu allar tóm vitleysa? Hann hefur ekki fært rök fyrir því hér á hv. Alþ. En hann og hæstv. utanrrh. og ríkisstj. öll hafa nú lagt til, að Íslendingar slái því föstu með afstöðu sinni við það tækifæri, sem þeir fá við endanlega afgreiðslu málsins nú á mánudaginn kemur hjá Sameinuðu þjóðunum, að Íslendingar hafi ekkert að segja, hvorki um réttarstöðu Grænlands, sjálfsákvörðunarrétt grænlenzku þjóðarinnar né hafi þeir heldur neitt að segja um hagsmuni Íslendinga vegna innlimunar og lokunar Dana á Grænlandi.

Hæstv. utanrrh. sagði, að það hefði ráðið um þá ákvörðun ríkisstj., að fulltrúi Íslands skyldi sitja hjá við atkvgr. um málið hjá Sameinuðu þjóðunum, að einhverjir hefðu haldið því fram, að það væru vissir formgallar á framkomu Dana í þessu máli hjá Sameinuðu þjóðunum. Hverjir eru þessir formgallar? Eru þeir ef til vill þeir, að sú ályktun, sem liggur fyrir og hæstv. utanrrh. hefur lýst og hv. 2. þm. Reykv. tók svo rækilega til meðferðar, sé helber firra, hreinasta firra, eins og allir Íslendingar vita. Það vita allir, að það hefur engin þjóðaratkvgr. farið fram með Grænlendingum. Sjálfsákvörðunarréttur þeirra hefur ekki verið virtur. Og við Íslendingar vitum líka miklu fleira og meira en flestar eða allar þjóðir aðrar en Danir og Norðurlandabúar um stöðu Grænlands, og við vitum meira um stöðu Grænlands í sögunni en þeir. En þessu tækifæri til þess að skýra það, sem allir Íslendingar vita um landnám Grænlands og stöðu Grænlands gegnum aldirnar, og líka það, sem allir Íslendingar vita um hagsmuni Íslendinga vegna fiskveiða við Grænland, er sleppt, allt þetta verður nú fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum skipað af hálfu íslenzku ríkisstj. að þegja um.

Ef meiri tími væri til þess að fjalla um þetta mál hér á hv. Alþ., þá væri til dæmis fróðlegt að fá að vita afstöðu íslenzkra útgerðarmanna til þess, hvort þeir telja rétt að fella hér á Alþ. till. um það, að lokun Grænlands, eins og hún hefur verið framkvæmd, verði ekki hagað í framtíðinni gagnvart Íslendingum eins og gert hefur verið. En ef brtt. mín, sem það felst í, að ekki aðeins innlimun Grænlands, heldur einnig lokun Grænlands sé mótmælt af hálfu Íslendinga, er felld, þá þýðir það, að á það megi ekki minnast á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég er hins vegar persónulega sannfærður um, að það þyrfti ekki meira til þess að opna Grænland fyrir þeim viðskiptum við aðrar þjóðir, sem eru sjálfsögð meginregla þjóðaréttarins, heldur en það, að Íslendingar vektu á þingi Sameinuðu þjóðanna athygli á hinni ólöglegu lokun Grænlands af hálfu Dana. En ég vil spyrja: Að felldri þessari till. um það, að lokun Grænlands sé mótmælt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ætlar þá hæstv. ríkisstj. næst að leita samninga við Dani um aðstöðu handa Íslendingum á Grænlandi?

Ég verð að líta svo á, að með þeirri afstöðu, sem fulltrúa Íslands verður fyrirskipuð með samþykkt till. ríkisstj., sé ekki aðeins verið að reyna að girða fyrir, að haldið verði fram í framtíðinni sögulegum réttarkröfum til Grænlands, heldur verði einnig viðurkenndur réttur Dana til að loka Grænlandi.

Ég tel víst, að í þessu máli sem öðrum hafi hæstv. ríkisstj. handjárnað sína þm. til þess að fylgja fram þeirri till., sem hún hefur lagt hér fram.

Ég lýsi ábyrgðinni á því á hendur hæstv. ríkisstj., að ef Alþ. Íslendinga fellir það, að vakið sé máls á hinni ólöglegu lokun Grænlands, þá hefur íslenzka ríkisstj. heldur lítinn grundvöll til þess að krefja Dani um aðstöðu handa íslenzkum fiskiskipum við Grænland. Hún verður að fara bónarveg að Dönum um það.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikla þýðingu að færa fleiri og lengri rök fyrir þeim brtt., sem hér eru bornar fram við till. hæstv. ríkisstj. Við höfum reynsluna af því, að hæstv. ríkisstj. og hv. stuðningsmenn hennar hér á þingi flestir eru alveg pottheldir fyrir öllum rökum, jafnvel í hinum stærstu málum.

En það vil ég segja hæstv. ríkisstj. að lokum, að það verður haldið áfram bæði að rannsaka sögulega stöðu Grænlands og hæstv. ríkisstj. mun ekki geta girt fyrir það, að það verði færð sterk rök og frambærileg fyrir þeim sjónarmiðum, sem þegar hafa verið sett fram í þeim málum. Og það verður líka haldið áfram að vekja athygli á þeirri meðferð, sem grænlenzka þjóðin hefur sætt og sætir með því, að fram hjá hennar rétti er gengið í þessum málum. Og það verður líka haldið áfram að benda á þá hagsmuni Íslendinga vegna lokunar Grænlands, sem ríkisstj. er nú að reyna að gera að engu með samþykkt þeirrar till., sem hún hefur lagt hér fram.