19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2413)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Forseti (JörB):

Þá hafa ekki fleiri kvatt sér hljóðs, og er umr. lokið. (EOl: Það eru tilmæli um, að umr. verði frestað og málinu vísað til utanrmn.) Það hefði nú verið mjög svo æskilegt, ef það hefur vakað fyrir hv. þingmönnum, að það hefði komið fram fyrst í umræðunni. (EOl: Ég er búinn áður að gera þá till. til forseta, og ég óska eftir, að hún sé borin upp.) Það hefur hv. þm. ekki gert. Hann hefur alveg nú í þessu haft orð á því, að það væri réttast að fresta þessari umr., en það getur maður ekki tekið sem fullgilda kröfu. Nú er því einnig yfir lýst, að það þarf að fá afgreiðslu málsins það fljótt, að unnt sé að koma skeytum til sendimanna Íslands í Ameríku, svo að það er ekki hægt að skjóta afgreiðslu þessa máls á frest. (EOl: Eitt orð um þingsköp, forseti.) Að sjálfsögðu skal ég veita hv. 2. þm. Reykv. það, en það mun ekki raska að neinu þeirri ákvörðun, að umr. er lokið.