13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. forsrh., að ég hafði ekki búizt við því fremur en hann, að þetta mál kæmi nú til umræðu hér í dag. Eftir því sem ég þekki til um hraða í vinnubrögðum hér á hv. Alþingi, þá hafði ég nú tæplega reiknað með slíkum röskleika sem verið hefur hér á vinnubrögðum í dag, og hafði því ekki búið míg undir að ræða þetta stóra og víðtæka mál. En þar sem það er hér komið til 1. umr., vil ég leyfa mér að bera fram fáeinar fyrirspurnir. Þar sem þær eru fremur einfaldar, vænti ég þess, að hæstv. forsætis- og sjávarútvegsmálaráðherra sjái sér fært að svara þeim, þó að þær séu bornar fram hér við umræðu um frv., en ekki í fyrirspurnatíma.

Það er þá í fyrsta lagi, að mér þætti fróðlegt að fá upplýst, hvort nefnd sú, sem skipuð var í lok síðasta þings til þess að athuga hag togaraútgerðarinnar og gera tillögur um umbætur þar á, hafi nokkru sinni lokið störfum. Ég hygg, að það hafi ekki fyllilega komið fram, en þó verið gefið í skyn í blöðum, að hún hafi aldrei lokið fyllilega störfum, þau hafi verið stöðvuð, hæstv. ríkisstj. hafi ekki æskt eftir því, að hún héldi störfunum áfram. Það hefur ekki heldur komið fyllilega í ljós, hvort samkomulag hafi verið innan nefndarinnar um þær ráðstafanir, sem tiltækilegar þættu, hvort þar hafi verið búið að ná allsherjarsamkomulagi, eða samkomulagi um einhver tiltekin atriði. Væri fróðlegt að fá þetta upplýst.

Ég sé, að í till. til þál. um aðstoð við togaraútgerðina, sem einn af nm., hv. 5. landsk. (EmJ), leggur hér fram á þskj. 35, skýrir hann frá því, að n. hafi ekki gert neinar skriflegar tillögur til ríkisstj., en hins vegar muni form. n. og einstakir nm. hafa skýrt ríkisstj. munalega frá tillögum, sem ræddar hefðu verið í n. Þarna kemur ekki heldur fram, hvort þessar tillögur hafi einungis verið uppástungur einstakra manna eða hvort um þær hafi náðst samkomulag í nefndinni. Hafi verið um það að ræða, að n. hafi komið sér saman, annaðhvort meiri hl. n. eða öll n., um ákveðnar till. til úrbóta fyrir togaraútveginn, þá væri fróðlegt að fá það upplýst, hvort sú ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert með bráðabirgðalögunum um skattlagningu bifreiða, sé samkv. till. n. og hvort n. hafi ekki komið sér saman um fleiri aðgerðir í þessum efnum.

Að lokum vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvmrh. um það, hvort hann telji, að þær aðgerðir, sem þegar hafa verið gerðar togaraútveginum til handa, þ.e.a.s. þessi skattlagning á innfluttar bifreiðar, muni vera nægilegar til að fleyta togaraútgerðinni áfram. Eins og kunnugt er, hafa nú fyrir skömmu náðst samningar um allverulega bætt kjör togarasjómanna, þ.e.a.s. undirmanna, og var sízt vanþörf á, að þau væru bætt verulega, en þetta eykur hins vegar að sjálfsögðu rekstrarútgjöld skipanna. Svo er mér ekki grunlaust um það, að yfirmenn á skipunum telji nú, að sinn hlutur sé helzt til litill orðinn, og muni hyggja á að fá hann bættan. Það væri mjög fróðlegt að fá það af vörum hæstv. ráðherra, hvort hann telji þessar aðgerðir, bifreiðaskattinn, nægilegar til þess að fleyta togaraútgerðinni áfram yfir þann örðuga hjalla, sem hún er nú að reyna að klífa.