13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, samþ. síðasta Alþingi að skipa 7 manna mþn. til þess að athuga sérstaklega um vandamál togaraútgerðar landsmanna. Þessi mþn. starfaði allmikið s.l. sumar og skilaði til ríkisstj. allýtarlegri grg. um ástand og afkomu togaraflotans. Ég hefði fyrir mitt leyti talið eðlilegt, að nú, þegar þetta frv. er hér tekið fyrir til umræðu, hefði hæstv. ríkisstj. skýrt Alþingi frá störfum mþn. og þeirri skýrslu, sem n. flutti stjórninni. Það frv., sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti til orðið vegna þeirra tillagna, sem mþn. í togaramálunum vann að, þó að henni entist ekki aldur til þess að skila frá sér formlegum tillögum að öllu leyti, vegna þess að n. var látin hætta störfum nokkuð skyndilega, eða nokkru áður en fullt samkomulag hafði tekizt í n. um að skila tillögum.

Vegna þess að ég geri mér vonir um það, að ríkisstj. muni síðar í þessum umræðum gera ýtarlega grein fyrir störfum mþn. og þeim staðreyndum, sem hún hefur dregið fram í skýrslu sinni, þá skal ég ekki nú á þessu stigi málsins fara að gera störf n. sérstaklega að umtalsefni, en ég get ekki látið þetta mál fara svo til 2. umr., að ég bendi ekki á, að það frv., sem hér er um að ræða, leysir ekki þann vanda, sem Alþingi hafði fyllilega gert sér grein fyrir á s.l. þingi að var fyrir hendi í sambandi við togaraflotann, að þetta frv. leysir ekki vanda togaraútgerðarinnar nema að sáralitlu leyti. Í fyrsta lagi er það svo, að það er gert ráð fyrir því, að sá stuðningur, sem hér er rætt um að veita togaraútgerðinni, nái aðeins til næstu áramóta, en úr því er ekki um neinn stuðning að ræða. Og má öllum vera það ljóst, að þá sitjum við í öllum aðalatriðum í sama vanda og við sátum áður. Auk þess er svo það, að þessi stuðningur er ekki meiri en svo, að hann nær aðeins yfir lítinn hluta af því, sem mþn. var öll sammála um að yrði óhjákvæmilega að bæta togaraútgerðinni, ef hún ætti að geta haldið áfram störfum. Þessar staðreyndir hljóta að verða dregnar fram, og þær hljóta líka að kalla á það, að ríkisstj. svari einhverju til um það, hvað hún hyggst fyrir í sambandi við þessi vandamál. Hvaða tillögur hefur hún á prjónunum. í sambandi við rekstur togaraútgerðarinnar frá næstu áramótum að telja? Eða hyggst hún að taka upp og koma áleiðis í lagaformi einhverju af þeim tillögum, sem ríkisstj. hafði fengið að heyra að mþn. vann að og var að verulegu leyti sammála um.

Það hefur verið kunngert í blöðum, að mþn. var sammála um það, að meðaltogari yrði að fá bættar tekjur sínar frá því, sem verið hefur, um 950 þús. kr. á ári. Og þá var þó miðað við það, að tekjuhækkun til skipshafnar yrði aðeins 300 þús. kr. Nú hafa þegar gerzt samningar á milli togaraeigenda og skipverja á togurunum, sem sennilega þýða útgjaldahækkun í kaupi á meðaltogara hartnær 500 þús. kr. á ári, ef a.m.k. tekið er nokkurt tillit til þeirra launahækkana, sem yfirmenn á skipunum nú gera kröfur um og hljóta í rauninni að fá fram að verulegu leyti. Það er því alveg sýnilegt mál, að það vantar stórkostlega mikið fé á, til þess að það megi gera sér vonir um, að togararnir haldi áfram rekstri, ef ekki á annað til að koma þeim til handa heldur en það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Mér fannst hæstv. forsrh. taka heldur linlega til orða, þegar hann ræddi þetta mál. Ég þóttist heyra, að hann segði eitthvað á þá leið, að vel mætti vera, að enn þyrfti að styrkja togaraútgerðina, a.m.k. frá næstu áramótum. Ég efast ekkert um það, að honum er það mætavel kunnugt og reyndar flestum mönnum í landinu, að það er ekki aðeins, að vel megi vera, að það þurfi að grípa til frekari stuðnings. Það er alveg gefinn hlutur, að það þarf að gera allverulega stórar ráðstafanir í þessum efnum, ef við eigum ekki að standa frammi fyrir stöðvun skipanna enn einu sinni.

Sú leið, sem valin var til stuðnings togaraútgerðinni og þetta frv. fjallar um, að leggja á sérstakan bílaskatt, gefur að vísu tilefni til þess, að um hana sé rætt nokkuð mikið. Ég skal nú ekki gera það, en vil þó benda á það um leið, að svo hefur verið á framkvæmd þessa máls haldið, að um leið og ákveðið er að afla togaraútgerðinni nokkurra tekna með sérstökum bílaskatti, tekna, sem vel geta numið kringum 10–11 millj. kr. á fimm mánaða tímabili, þá er gert ráð fyrir, að með þessum sömu ráðstöfunum verði tekjur ríkissjóðs hækkaðar um ekki minna en 15–20 millj. kr. Ég held, að það hafi fáum komið til hugar, þegar var verið að gera till. um að leysa vandamál togaranna, að þá mundu þær tillögur koma þannig fram í framkvæmd, að þær yrðu sérstaklega til að auka við tekjur ríkissjóðs. Það er óhætt að fullyrða, að þeir menn, sem unnu að þessum málum í mþn. í togaramálum, hafi flestir búizt við því, að ráðstafanir, t.d. í sambandi við sérstakan bílaskatt, ef á yrði lagður, yrðu framkvæmdar þannig, að allar þær tekjur, sem kæmu vegna þessara sérstöku ráðstafana, yrðu látnar renna í sjóð til þess að styrkja og styðja útgerðina, en ekki að meiri hluta til til þess að bæta hag ríkissjóðs. En það má öllum vera ljóst, að þegar svo er áfram haldið, að ríkissjóður heldur áfram öllum söluskatti af bifreiðum og öllum hinum gamla innflutningstolli af bifreiðum, en hins vegar gert ráð fyrir því að flytja inn allmikið magn af bifreiðum, þá hljóta tekjur ríkissjóðs að stórhækka við þessar ráðstafanir. Hafi það verið svo, að þessi litli stuðningur, sem hér hefur fengizt við togaraútgerðina og nær aðeins fram að næstu áramótum, hafi fengizt með því skilyrði, að ríkissjóður yrði um leið að fá hækkaðar tekjur sínar um 15-20 millj. kr., gegn því að þessi skattur yrði lagður á, að nafninu til til þess að styrkja útgerðina, en útgerðin fengi ekki af honum nema í kringum 10–11 millj. kr., þá hafa þessi kaup verið heldur dýr, þau hafa verið heldur óhagstæð. Það er látið svo heita, að lagður sé á sérstakur skattur til stuðnings útgerðinni, en útgerðin fær aðeins 10—11 millj. kr. af honum, en ríkissjóður fær hins vegar 15-20 millj. kr. í sinn hlut.

Ég skal svo ekki ræða um þetta frekar að sinni, en geri ráð fyrir því, að á síðara stigi málsins gefist tækifæri til þess að ræða þetta mál miklu ýtarlegar hér, enda hafi þá ríkisstj. gert grein fyrir till. eða skýrslu togaranefndarinnar.