21.10.1954
Neðri deild: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

47. mál, gistihús á Þingvöllum

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. N-Ísf. (SB) flyt ég þessa till. til þál. um gistihús á Þingvöllum.

Þingvellir eru í augum allra Íslendinga helgur staður. Þar hafa margir þeir atburðir gerzt, sem stærst spor marka í sögu íslenzku þjóðarinnar. Á stundum hefur þangað safnazt mikið fjölmenni. og er þar skemmst að minnast Alþingishátíðarinnar 1930 og lýðveldisstofnunarinnar 1944. En þó að ekki sé slíkt fjölmenni þar saman komið á sérstökum hátíðastundum, þá er til Þingvalla stöðugur straumur ferðamanna, innlendra og erlendra. Því veldur bæði hin sögulega frægð staðarins og einstæð náttúrufegurð.

Alþingi Íslendinga hefur að sjálfsögðu gert sínar ráðstafanir til þess að prýða þennan sögufræga helgistað. 1928 voru samþykkt hér á Alþingi lög og með þeim ákveðið, að frá ársbyrjun 1930 skyldu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Sérstök nefnd, Þingvallanefnd, skipuð þrem alþingismönnum, hefur á hendi yfirstjórn og eftirlit á þessum stað.

Þó að margt hafi þar verið vel gert síðan, á þessum aldarfjórðungi, skortir að sjálfsögðu enn á í ýmsum efnum. Nýskeð hefur Þingvallanefnd haft forgöngu um að reisa kirkju á Þingvöllum í stað þeirrar gömlu kirkju, sem þar er nú, til minningar fyrst og fremst um kristnitökuna árið 1000. Það eru mörg verkefni önnur, en eitt þeirra er að koma upp myndarlegu gistihúsi á Þingvöllum. Þar er nú gistihúsið Valhöll, sem er nærri hálfrar aldar gamalt timburhús, hefur síðan verið flutt til og bætt við það og aukið. En það fullnægir á engan hátt þeim kröfum, sem gerðar eru til gistihúsa nú og veit ég, að það er ekki sízt þeim ágætu mönnum ljóst, sem eru eigendur gistihússins og reka það að húsakynnin eru með þeim hætti, að ekki er hægt að reka þar gistihús við hæfi. Að sjálfsögðu hefur það mikinn kostnað í för með sér að koma þar upp gistihúsi. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að vera neitt „lúxus“-gistihús, ef nota má það orð; það þarf þó að vera virðulegt og fagurt, svo sem hæfir helgi staðarins, hóflegt um leið. En það er ljóst, að allmikið fé þarf til þeirrar byggingar, og viðbúið er, að rekstur slíks gistihúss geti ekki allajafna borið sig. Nú er það einnig svo, að það er aðeins skammur tími ársins. sem gistihúsið er opið, eða 2–3 mánuðir á ári, um hásumarið. Hins vegar mundu margir fagna því að geta komið til Þingvalla, dvalizt þar og gist einnig á öðrum tímum árs, vor og haust og jafnvel að vetrarlagi, þegar samgöngur leyfðu.

Ég geri ráð fyrir, að eðlilegast væri að byggja gistihús á Þingvöllum með þeim hætti, að nokkurn hluta þess mætti taka úr notkun þá mánuði ársins, sem aðsókn væri minni, til þess að draga úr rekstrarkostnaði, en hafa það svo allt í fullum rekstri um þá sumarmánuði, þegar aðsókn og ferðamannastraumur er mestur.

Sumir hafa rætt um það, að í rauninni ætti ríkisvaldið sjálft að reisa og reka slíkt gistihús. Um það skal ég ekki dæma á þessari stundu. Það má vel vera, að einstakir aðilar, félög og samtök væru reiðubúin til samstarfs og til fjárframlaga, m. a. er mér tjáð, að þeir, sem nú reka gistihúsið Valhöll, muni hafa hug á að leggja sinn skerf fram til slíkrar byggingar og rekstrar.

Það, sem farið er fram á með þessari till., er, að hæstv. ríkisstj. hafi forgöngu um undirbúning málsins, án þess að nokkuð sé ákveðið á þessu stigi um fjárframlög af ríkisins hendi eða þátttöku þess. Það, sem þarf að undirbúa, er í fyrsta lagi staðarvalið, í öðru lagi að gera sér grein fyrir, hver væri eðlileg og hófleg stærð gistihússins og fyrirkomulag allt, í þriðja lagi þyrfti að gera áætlanir um byggingarkostnað og rekstrarkostnað, í fjórða lagi, hvaða aðilar þarna kæmu helzt til greina til að standa að stofnun og rekstri gistihússins, og svo í sambandi við það og þá í fimmta lagi um fjáröflun.

Ég geri ráð fyrir, að í þeim undirbúningi, sem hafinn verður að sjálfsögðu, ef þessi till. verður samþykkt, verði fyrst og fremst haft náið samstarf við Þingvallanefnd.

Ég vil ítreka, að með þessari till. er aðeins ætlunin að hreyfa þessu nauðsynjamáli og gera ráðstafanir til að hefja undirbúning þess, en ekki að Alþ. á einn eða annan hátt skuldbindi sig til fjárframlaga í þessu skyni, heldur koma svo þær till. sem undirbúnar verða um fyrirkomulag, fjáröflun og önnur atriði, síðan til ríkisstj. og þá væntanlega fyrir Alþ. síðar meir.

Ég vildi vænta þess. að hv. þd. taki þessari till. vel, og legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. samgmn.