07.12.1954
Sameinað þing: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2450)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið þáltill. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Sambandslýðveldisins Þýzkalands. Samkomulag þetta var undirritað í París hinn 23. okt. s.l., og þarfnast það fullgildingar allra aðildarríkja til þess að öðlast gildi.

Þar sem Atlantshafssamningurinn var á sínum tíma samþykktur af Alþingi og síðan viðbót við hann um aðild Grikklands og Tyrklands, er það álit ríkisstj., að Alþingi skuli einnig fjalla um viðbótarsamkomulag þetta.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa varnir Norður-Atlantshafsbandalagsins eflzt mjög á undanförnum árum. Mun það álit flestra, að með þeim samtökum hafi verið stuðlað að því, að friður héldist í heiminum. Það er skoðun Norður-Atlantshafsríkjanna, að varnir Vestur-Evrópu séu ekki nægjanlegar án þátttöku Vestur-Þýzkalands. Nú er verið að gera ráðstafanir til þess, að þátttaka Sambandslýðveldisins Þýzkalands verði að veruleika. Ríkisstj. er því þeirrar skoðunar, að aðild sambandslýðveldisins að Norður-Atlantshafsbandalaginu muni mjög styrkja varnir Vestur-Evrópu og þannig auka friðarhorfurnar í heiminum. Vestur-Þýzkaland verður einnig aðili að hinum svokallaða Brüssel-samningi, en með honum verður það í nánum tengslum hernaðarlega, fjármálalega og menningarlega við Bretland, Frakkland og Benelux-löndin. Má það vera öllum gleðiefni, að margþætt samvinna takist með þessum ríkjum, sem tvisvar á þessari öld hafa verið andstæðingar í styrjöldum.

Margir hafa látið í ljós ótta við það, að með endurvopnun Þýzkalands væri endurvakinn hinn prússneski hernaðarandi. Tæplega er hægt að búast við því, að jafnstórt og mannmargt ríki og Vestur-Þýzkaland verði til langframa óvopnað, meðan Austur-Þýzkaland og nálæg ríki í austri og vestri eru öll grá fyrir járnum. Vandinn með hervæðingu Vestur-Þýzkalands hefur því verið sá að finna leið, sem tryggði það, að þýzkum vopnum yrði hvorki beitt til árásar né til þess að endurheimta lönd, enda þótt hervæðing yrði leyfð. Stjórnmálamenn Norður-Atlantshafsríkjanna telja. að með aðild Vestur-Þýzkalands að Brüssel-samningnum og Norður-Atlantshafsbandalaginu sé trygging fyrir því fengin, enda hervæðing og vopnasmíð Vestur-Þýzkalands undir öruggu eftirliti hinna ríkjanna.

Það er talið öruggt, að upptaka Vestur-Þýzkalands í Norður-Atlantshafsbandalagið verði samþ. af hinum 14 bandalagsríkjum. Noregur hefur þegar fullgilt viðbótarsamninginn gegn örfáum atkvæðum. Sama mun verða í Danmörku. Í Bretlandi er það vitað, að stjórnarandstaðan því nær óskipt styður stjórnina í þessu máli. Sama mun vera í Benelux-löndunum þrem. Ég tel, að svo óskipt almenningsálit í löndum þeim, sem mest eiga í húfi, hvernig máli þessu reiðir af, sé trygging fyrir því, að hér sé verið á réttri braut. Legg ég því til, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.