07.12.1954
Sameinað þing: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2451)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var. eins og öllum er kunnugt, samþ. hér á hv. Alþingi 30. marz 1949. að afloknum miklum umræðum um það, hvað sá samningur sem Alþingi var þá ætlað að samþykkja, hefði í sér fólgið, sem þýðingu hefði fyrir Ísland. Það voru þá til menn, sem fullyrtu, að í þeim samningi fælust alls engar skuldbindingar, sem Ísland tæki að sér vegna þátttöku í þessu bandalagi. Tveimur árum seinna, árið 1951, komst svo íslenzka þjóðin að raun um það, hvað þátttakan í Atlantshafsbandalaginu raunverulega þýddi, og þá vitnuðu sumir menn, sem árið 1949 höfðu haldið því fram, að Atlantshafssamningurinn fæli í sér engar skuldbindingar fyrir Ísland, til þeirra skuldbindinga, sem í honum hefðu falizt og mönnum mættu vera ljósar, og sögðu, að Ísland væri bókstaflega skuldbundið til þess að taka við her og leyfa herstöðvar hér á landi vegna þeirra ákvæða, sem hefðu falizt í Atlantshafssamningnum. Þetta, þótt ekki væri annað, sýnir, að það er fyllsta ástæða til þess að athuga vel þá samninga, sem lagðir eru fyrir hv. Alþingi til fullgildingar og staðfestingar, jafnve1 þó að þeir snerti ekki beint Ísland, að því er séð verður, nema vegna þess að það er þegar þátttakandi í hernaðarbandalagi, sem alltaf er verið að auka og bæta við.

Síðan 1949 hafa tvisvar verið lagðir fyrir Alþingi viðbótarsamningar við Atlantshafssamninginn til fullgildingar, og þetta er því í þriðja sinn, sem slíkur viðbótarsamningur við Atlantshafssamninginn er lagður fyrir.

Á Alþingi 1951 var lagður fyrir til samþykktar Alþingis viðbótarsamningur um þátttöku Grikklands og Tyrklands í Atlantshafsbandalaginu, en Grikkland og Tyrkland voru þá tekin í bandalagið til þess að auka öryggi þjóða í Norður-Atlantshafi, og féllst Alþingi á að staðfesta þann samning.

Á Alþingi 1952 var í þingbyrjun enn lagður fram viðbótarsamningur við Atlantshafssamninginn, eins og þar var kveðið að orði, varðandi skuldbindingar aðildarríkja þess samnings gagnvart varnarbandalagi Evrópu, en samningar um varnarbandalag Evrópu höfðu verið samþykktir í París í maí 1952, — það sama ár, — og voru aðilar að þeim samningum 6 ríki, þ. á m. Vestur-Þýzkaland. Nú var það að vísu ekki svo þá, að gert væri beint ráð fyrir því, að Þýzkaland yrði aðili að Atlantshafsbandalaginu. Það var af sérstökum ástæðum ekki talið rétt að fara þá beinu leið, en það var ætlazt til þess, að það gerðist eftir nokkrum krókaleiðum. Í þeim samningum, sem þá voru lagðir fyrir, var gert ráð fyrir, að Atlantshafsbandalagið léti þá ábyrgð, sem það hafði tekið á löndum allra þeirra þjóða, sem í því væru, ná til aðildarríkja varnarbandalags Evrópu, þ. á m. Vestur-Þýzkalands. En öll önnur ríki, sem að þessum samningum um varnarbandalag Evrópu stóðu, voru áður í Atlantshafsbandalaginu, svo að raunverulega var hér aðeins um það að ræða að taka Þýzkaland óbeint inn í Atlantshafsbandalagið. En þessar miklu umbúðir um þetta, sem var þó aðalatriði málsins, að Vestur-Þýzkaland, þýzka sambandslýðveldið svokallaða, yrði raunverulega þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu, komu af því, að menn treystu sér ekki til þess þá að leggja málið svo fyrir, að Þýzkaland ætti að verða þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu, því að þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949, hafði enginn maður treyst sér til þess að gera ráð fyrir því, að Þýzkaland yrði nokkurn tíma tekið í Atlantshafsbandalagið. Þá deildu menn um það, hvort Atlantshafssamningurinn sjálfur væri í samræmi við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. En Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar upphaflega sem bandalag þeirra þjóða, sem höfðu staðið í margra ára styrjöld við Þýzkaland og Japan og mynduðu með sér bandalag, Sameinuðu þjóðirnar, til þess að tryggja það fyrst og fremst, að Þýzkaland og Japan risu aldrei framar upp sem herveldi, og samningurinn um Atlantshafsbandalagið varð að vera í samræmi við þennan tilgang Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna var það í raun og veru fjarstæða, að bandalag, sem var haldið fram að gæti verið innan Sameinuðu þjóðanna og gæti samrýmzt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, gæti tekið veldi eins og Þýzkaland í sinn hóp, því að „tekniskt“ var Atlantshafsbandalaginu, eins og bandalagi Sameinuðu þjóðanna, raunverulega stefnt gegn Þýzkalandi. Aðaltilgangur þess var að koma í veg fyrir, að Þýzkaland yrði nokkurn tíma herveldi aftur.

Þegar þáltill., sem ég gat um áðan, um staðfestingu Alþingis Íslendinga á viðbótarsamningnum við Atlantshafsbandalagssamninginn 1952, samningnum, sem kenndur er við Evrópuherinn, var lögð fram, þá var sagt í grg. með henni af þáverandi utanrrh., Bjarna Benediktssyni, að það væri mikil nauðsyn í þágu varna Norður-Atlantshafsbandalagsins, að sem nánust samvinna yrði milli þessa varnarbandalags Evrópu og Norður-Atlantshafsbandalagsins. En á því ári, 1952, og lengi síðan hefur því verið haldið fram í öllum ríkjum Atlantshafsbandalagsins, að það væri einmitt höfuðnauðsyn, að samningarnir, sem kenndir eru við Evrópuher, yrðu staðfestir af Evrópuríkjunum, sem hlut eiga að máli. Og það hafa verið höfð um það mörg stór orð, að Evrópa væri á glötunarbarmi, ef þessi Evrópuher yrði ekki stofnaður og samningarnir um hann staðfestir af öllum ríkjunum. Ég leyfði mér að benda á það, þegar þessi þáltill. var lögð fram í þingbyrjun 1952, nokkrum mánuðum eftir að samningarnir um Evrópuher höfðu verið gerðir, að það væri alveg óvíst, að þessir samningar, sem voru á bak við viðbótarsamninginn um Vestur-Þýzkaland og Atlantshafsbandalagið, yrðu nokkurn tíma staðfestir, og að það virtist ekki liggja á fyrir Alþingi Íslendinga að fullgilda þá samninga af sinni hálfu, fyrr en a. m. k. aðildarríkin sex að Parísarsamningunum hefðu staðfest þá sjálf, en hitt, að Alþingi yrði einna fyrst til þess allra ríkja í Atlantshafsbandalaginu, jafnvel þeirra, sem áttu ekki beinan hlut að Parísarsamningunum, væri að gera Alþingi hlægilegt. En það virtist liggja svo mikið á af einhverjum ástæðum, að Ísland var í fyrsta hópnum, sem lagði þessa samninga fyrir til staðfestingar, — það hefur ef til vill verið búið að gera það á einu þjóðþingi í Evrópu að leggja fyrir þessa samninga, þegar þeir voru lagðir fyrir Alþingi. Þetta átti vafalaust að sýna mikinn áhuga íslenzku ríkisstj. á þessum samningum. En svo leið og beið, og í byrjun þessa árs höfðu aðeins fjögur af sex aðildarríkjum þessara samninga staðfest þá, og nú í sumar gekk svo franska þjóðþingið af þeim dauðum. Till. um staðfestingu Alþingis á þeim var vísað til utanrmn., en sem betur fór kom hún þaðan aldrei og því varð við bjargað, að Alþingi gerði sig hlægilegt í augum alls heimsins með því að fara að staðfesta þessa samninga fyrr en þau ríki, sem áttu mest undir því, hvað ofan á yrði í málinu, hefðu gert það sjálf.

Nú liggur hér fyrir einn viðbótarsamningur við Atlantshafssamninginn. En í fylgd með honum eru margir samningar aðrir, og þessir samningar hafa að vísu verið undirskrifaðir, voru undirskrifaðir af níu ríkjum í London dagana 28. sept. til 3. okt., og frá þessum samningi er svo gengið 23. okt. Og nú liggur svo mikið á, að enn er Ísland í tölu hinna allra fyrstu ríkja, sem eiga að fullgilda þessa samninga. Það liggur enn á eins og 1952 að sýna áhuga sinn á þessum málum og ætla Alþ. að staðfesta þá, áður en nokkur vissa er fengin fyrir því, að þau ríki, sem þeir hafa verulega þýðingu fyrir, staðfesti þá nokkurn tíma, því að það er enn allsendis óvíst, þó að þessir samningar hafi verið undirritaðir, að þeir verði nokkurn tíma staðfestir af þingum þeirra þjóða, sem hlut eiga að máli.

Árið 1952 var því haldið fram af ýmsum, eins og ég drap á áðan, að Vestur-Evrópa væri á glötunarbarmi, ef samningarnir um Vestur-Evrópuherinn yrðu ekki samþykktir. Og þegar franska þingið felldi þá, gekk af þeim dauðum í sumar, sögðu Bandaríkjamenn, að það væri mesti sigur, sem Rússar hefðu unnið síðan 1945. Því hafði verið haldið fram árum saman, að það væru engir andstæðingar gegn þeirri stefnu, sem fólst í þessum samningum, í Vestur-Evrópu nema kommúnistar. Og það hafði ekki verið sparað hér fremur en áður að kalla alla þá menn kommúnista, sem höfðu leyft sér að hafa sjálfstæða skoðun um þessi mál og vera á móti þeirri stefnu, sem fólst í þessum samningum, og það verður vafalaust ekki enn. En hverjir voru það, sem felldu þessa samninga, sem öll heill og velferð Evrópu átti að vera undir komin? Það voru menn, sem beittu sér fyrir því að ganga af þessum samningum dauðum, það var fyrrverandi forseti Frakklands, jafnaðarmaðurinn Vincent Auriol, það var fyrrverandi forsætisráðherra og af miklum hluta frönsku þjóðarinnar talinn þjóðhetja Frakklands, De Gaulle hershöfðingi, og það var maður eins og Eduard Herriot, maður, sem hefur setið lengur á þingi Frakklands en nokkur annar núlifandi maður og nýtur meiri virðingar í sínu landi en flestir aðrir, kominn á níræðisaldur og kominn svo að fótum fram, að hann getur ekki lengur staðið til þess að halda ræðu í því þingi, sem hann hefur verið forseti í árum saman. Það voru þessir menn, sem gengu af þessum Evrópuher dauðum. Og það getur verið, að það verði þessir sömu menn, sem ganga líka af þeim samningum dauðum, sem nú eru lagðir fyrir Alþingi Íslendinga til staðfestingar, áður en þær þjóðir, sem eru aðilar að þessum samningum, hafa fjallað um þá, — því að hverjir eru það, sem eru á móti þessum samningum og allri þeirri stefnu, sem í þeim felst, því að þeir eru vitanlega ekkert annað en önnur útgáfa af samningunum frá 1952? Það er fyrst og fremst verkalýðurinn í Vestur-Þýzkalandi. Það eru jafnaðarmenn í Vestur-Þýzkalandi. Það er a. m. k. hálfur Verkamannaflokkurinn brezki. Það er a. m. k. hálf franska þjóðin. Og það kemur í raun og veru öllum saman um, að meiri hluti þýzku þjóðarinnar sé á móti þessum samningum, sé á móti endurhervæðingu Þýzkalands. En hún hefur ekki fengið að segja vilja sinn um þá. En það liggur samt nú þegar mikið fyrir, sem tekur af öll tvímæli um það, að öll alþýða Þýzkalands er á móti þessum samningum og mun aldrei samþykkja þá. Það liggja fyrir margítrekaðar yfirlýsingar þýzka jafnaðarmannaflokksins um andstöðu hans gegn þessum samningum. Mér hefur nýlega borizt samþykkt, sem verkalýðssambandið þýzka gerði nú fyrir skömmu einmitt út af þessum samningi. Í verkalýðssambandi Þýzkalands, Deutsehe Gewerksehafts Bund, sem enginn mun telja stjórnað af kommúnistum, eru skipulagðar um 6 millj. þýzkra verkamanna. Þetta þýzka alþýðusamband hélt allsherjarþing sitt í Frankfurt í s.l. mánuði, og það gerði þar samþykkt nær alveg einróma, — af meira en 300 atkv. voru aðeins 4 atkv. á móti, — og af því að þessi samþykkt og afstaða þessara merku félagssamtaka er alls ekki komin fram hér á landi, þá vildi ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana upp orðrétt í þýðingu. Og hún er svo hljóðandi:

„Þriðja allsherjarþing þýzka verkalýðssambandsins lætur í ljós miklar áhyggjur yfir því, að með samningum þeim, sem gerðir hafa verið í London, er hafinn undirbúningur að innlimun þýzka sambandslýðveldisins í herveldabandalag og fyrirhugað að staðfesta þetta með fullgildingu þessara samninga. Með slíkum aðgerðum er stefnt í mikla hættu bæði þeim möguleikum, sem eru á því að draga úr viðsjám þeim, sem nú eiga sér stað milli andvígra pólitískra afla, og einnig þeim möguleikum, sem eru á sameiningu Þýzkalands. — Endurhervæðing Þýzkalands og stofnun þýzks hers á nýjan leik, eins og gert er ráð fyrir í Lundúnasamningunum, felur í sér mikla hættu fyrir innri þróun þýzka sambandslýðveldisins. Það er hætta á því, að með því verði skapað hernaðarsinnað einræðisríki, en það mundi binda endi á tilraunir þýzku verkalýðshreyfingarinnar til þess að koma á lýðræðisríki í pólitískum, félagslegum og fjárhagslegum skilningi. Allsherjarþingið hafnar því hvers konar þátttöku í hernaðarmálum, fyrr en allir möguleikar til samninga hafa verið reyndir í þeim tilgangi að koma á sáttum milli þjóðanna og sameiningu Þýzkalands.“

Verkalýðsbandalagið þýzka gerði enn fremur samþykktir gegn áhrifum nazistaaflanna, sem allir vita að eru að grafa um sig í Þýzkalandi og hafa náð þar miklum áhrifum. Í samþykkt, sem þingið gerði um þetta, segir m. a. svo:

„Þriðja allsherjarþing þýzka verkalýðssambandsins lýsir enn yfir, að yfirlýstir nazistar og skipulögð hernaðarsamtök eru enn einu sinni að misnota lýðræðisskipulagið til þess að ná fylgi almennings við hinar siðspilltu hugsjónir, sem leiddu algert hrun yfir Þýzkaland 1945. Allsherjarþingið vekur athygli á því, að níu árum eftir hið hræðilega hrun þess ríkiskerfis, sem þessir flokkar stóðu að, hafa fulltrúar þeirra aftur náð forustuaðstöðu í iðnaði og stjórnardeildum ríkisins, þannig að þeir, sem fyrir skömmu lýstu yfir gjaldþroti sínu, hafa nú á ný aðstöðu til að hafa mikil áhrif á gang mála með þýzku þjóðinni.“

Það er ekkert leyndarmál, og það er þegar orðin alkunnug staðreynd um allan heim, að í skjóli þeirrar stjórnar, sem nú situr að völdum í Vestur-Þýzkalandi, eru öll þau öfl, sem eftir eru, allar leifar þýzka stjórnarkerfisins að grafa um sig og koma sér fyrir á ný. Það hefur vakið athygli um allan heim, að undanfarna mánuði hefur þýzkum hershöfðingjum, sem fyrir nokkrum árum voru dæmdir til langrar fangelsisvistar fyrir stríðsglæpi, verið hleypt út úr fangelsunum — og ekki aðeins það, þeim hefur verið hleypt inn í stjórnarkerfi þýzka sambandslýðveldisins, og þeir eru þar orðnir sumir þingmenn og aðrir miklir áhrifamenn. Þetta er það, sem þýzka verkalýðssambandið á við og vill vara heiminn við í tíma.

Það er enn fremur komið í ljós, að sá her, sem á að setja upp í Þýzkalandi samkv. þessum samningum, er ekkert smáræði. Það er að vísu ekki talað opinberlega um nema her, sem í sé ½ millj. manna, en það er jafnframt talað um að setja upp varaliðssveitir, sem í geti verið um 4–5 millj. manna. Og allur þessi her á að vera búinn nýtízku amerískum vopnum. Og þau vopn eru þegar til og mikið af þeim komið til Þýzkalands.

Það veit nú enginn, hvað ofan á verður í Evrópu innan þeirra ríkja og þeirra þjóða, sem eiga aðild að þeim samningum, sem hér er verið að biðja Alþingi Íslendinga að staðfesta. En hitt er víst, að það takast nú á þau sömu öfl í Evrópu, sem tókust á um stefnuna, sem fólst í samningunum um Evrópuherinn. Þau takast enn á um það, hvort þessir samningar um endurhervæðingu Þýzkalands verði ofan á eða ekki. Og alveg eins og það hefur komið á daginn, að það lá ekki á fyrir Alþ. 1952 að staðfesta þá samninga, sem þá voru lagðir fyrir það og því var ætlað að samþykkja, þá er það alveg víst, að það liggur ekki á enn. Ef Alþ. vill ekki eiga á hættu að gera sig beinlínis að viðundri, þá liggur ekki á að staðfesta þá samninga, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fyrir.

Ég hef gert mér skoðun um þessi mál, og ég held, að hv. alþm. ættu að gera sér ljóst, að það hvílir sú skylda á þeim að gera sér rökstudda skoðun um öll þessi mál. Þau hafa a. m. k. óbeint stórkostlega þýðingu fyrir okkar þjóð. Stundum er talað um, að það sé mikilfenglegt, að Ísland sé sjálfstæður aðili í Atlantshafsbandalaginu, ráði þar jafnmiklu og stórveldin sjálf. Ef svo er, þá er Íslendingum líka skylt að gera sér ljósa grein fyrir málunum, sem fyrir liggja hverju sinni, eins og stórþjóðunum sjálfum. Og úr því að hæstv. ríkisstj. vill sýna svo mikinn áhuga á þessum málum, að hún verður alltaf einna fyrst til þess þeirra þjóða, sem hlut eiga að máli, að leggja þau fyrir sitt þjóðþing, þá held ég, að hv. alþm. ættu að nóta tækifærið og kynna sér þessi mál gaumgæfilega og það, sem um þau er rætt með öðrum þjóðum. Ég vil, eins og ég sagði áðan, benda þeim á, að því fer fjarri að það séu allt saman kommúnistar, sem standa á móti þeirri stefnu, sem felst í þessum samningum, sem nú eru til umræðu. Það er mikill hluti þjóðanna í Vestur-Evrópu á móti þeim, e. t. v. meiri hluti, eins og kom í ljós um Evrópuherssamningana. Og ef hér á landi væri um það að ræða, að hér væru frjáls blöð, sem ræddu þessi mál, alþjóðamál, eins og frjáls blöð eiga að gera, segðu frá staðreyndum, sem fram koma, í stað þess að fela þær, eins og blöð hæstv, ríkisstj. leyfa sér að gera hér í hverju alþjóðamáli, þá er ekki víst nema það yrði eins hér og annars staðar, að mikill hluti íslenzku þjóðarinnar gerði sér ljósa grein fyrir því, hve mikil ábyrgð hvílir á henni í þessum málum, og léti sig þau meira skipta en hún hefur gert hingað til.

Ég vil að síðustu láta í ljós, að ég vona, að hv. utanrmn, hafi vit á því að láta þetta mál liggja og bíða, — það kemur fyrir um mál, að þau fá að staldra við í utanrmn., og hún hefur af einum velmetnum hv. þm. verið kölluð gröf þingmála. Ég vona, að þetta mál komi aldrei aftur frá utanrmn. Ég vona, að þjóðirnar í Vestur-Evrópu verði búnar að ganga af því dauðu, áður en til þess þurfi að koma.