13.12.1954
Sameinað þing: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm., fulltrúi Sósfl. í utanrmn., er fjarverandi, svo að ég verð að segja hér nokkur orð út frá hans nál. og okkar skoðun á málunum. Á þskj. 264 liggur fyrir nál. hv. 6. landsk., og í því er greinilega sýnt fram á, hvaða ástæður séu til þess, að Ísland eigi að beita þeim áhrifum, sem það nú getur haft til þess að hindra endurvígbúnað Vestur-Þýzkalands. Enn fremur er síðan bent á, að a. m. k. sé sjálfsagt fyrir Alþ. að taka þetta mál ekki til endanlegrar afgreiðslu fyrr en aðrar þjóðir á meginlandi Evrópu og þá flestar Atlantshafsbandalagsþjóðirnar hafi gert það, og þess vegna leggur hv. 6. landsk. til í fyrsta lagi, að núverandi umr. sé frestað og ekki haldið áfram fyrr en eftir nýár. En í öðru lagi, svo framarlega sem málið komi nú þegar til atkv., sé þáltill. ríkisstj. felld.

Ég skal fyrst með nokkrum orðum minnast á þær tvær framsöguræður, sem hér hafa þegar verið haldnar af meðlimum utanrmn. Það var stutt ræða, sem hv. þm. Str., frsm. meiri hlutans í utanrmn., hélt. Það var engu líkara en að hann vildi gera grín að stjórnarflokkunum með því, sem hann sagði. Hann sagði, að það hefði verið rætt mikið almennt um þetta mál við fyrri umr. Hverjar voru umræðurnar við fyrri umr. þessa máls? Hæstv. utanrrh., sem ekki er þingmaður, hélt eina stutta ræðu. Enginn ráðherra, sem er þingmaður, eða enginn þm. stjórnarflokkanna tók til máls um málið, ekki einn einasti. Tvær ræður voru haldnar af hálfu okkar tveggja þm. frá Sósfl., og það er auðsjáanlega það, sem hv. þm. Str. kallar miklar umræður og að það hafi verið rætt mikið almennt um þetta mál. Ég tek það nú eiginlega sem sérstakt hrós til okkar beggja, að það hafi kannske ekki þurft miklu meira að segja en þar hafi verið sagt, að áliti hv. þm. Str., en þá hefði hann átt að draga aðrar afleiðingar af því, sem sagt var, en að mæla með þessari till. Hins vegar sýnist mér, að nokkur áhrif mun þetta hafa haft á hv. þm. Str., því að hann sagði í sinni ræðu: Það er ekki óeðlilegt, að málið hefði verið látið bíða eitthvað. — Hann hefur sem sé komizt að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera mjög eðlilegt, að málið biði. Hins vegar væri það hæstv. ríkisstj., sem ræki svona mikið á eftir, og þegar talað er um hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi, þá er ég hræddur um, að hann hugsi fyrst og fremst um annan aðila. Það er þess vegna það eina, sem fram kemur frá nokkrum þm. í stjórnarflokkunum, að það sé ekki óeðlilegt, að málið hefði verið látið bíða eitthvað. Og ég held, að það megi líta svo á, að innan stjórnarflokkanna sé sem sé mjög ríkjandi tilhneiging í þá átt, að það væri bezt að þurfa ekkert að eiga við að afgreiða þetta mál núna, og ég býst við, að það sé í fullu samræmi við það, að það ætlaði yfirleitt enginn af þm. stjórnarflokkanna í utanrmn. að fást til þess að hafa framsögu í þessu máli. Ég sé á því, sem hv. þm. Str. segir, að hann hefur auðsjáanlega tekið það að sér með ólund og undir samvizkunnar mótmælum, þannig að þær eru ekki allt, röksemdafærslurnar, sem hérna koma fram af hálfu þingmanna stjórnarliðsins, enda auðséð, að þeim er ekki um málið gefið.

Þá sagði hv. 1. landsk., að raunverulega ætti ekki að ræða spurninguna um hervæðingu Þýzkalands í sambandi við þessi mál og strangt tekið kæmi það þessu máli ekki við. Þetta er ekki rétt hjá hv. 1. landsk.

Á þeirri ráðstefnu, sem haldin var í Lundúnum af níu veldunum þar, var samþykkt að tengja saman sex sáttmála og yfirlýsingar, sem allir saman eru samantengdir þannig, að ef einhver þeirra rofnar, þá er þar með forsendan fyrir þeim brostin. Þessar sex yfirlýsingar og samningar eru í fyrsta lagi yfirlýsing brezku, bandarísku og frönsku stjórnarinnar um að ljúka hernámsástandinu í Þýzkalandi og afnema hernámsráð þeirra velda þar. Í öðru lagi að veita Vestur-Þýzkalandi og Ítalíu inngöngu í Brüsselsambandið, og þar í átti að vera það eftirlit með vopnabúnaði Þýzkalands, sem rætt hefur verið um. Í þriðja lagi yfirlýsingar frá stjórnum Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada viðvíkjandi her, sem Bretar mundu hafa í Evrópu, og afskiptum Bandaríkjanna viðvíkjandi hermálum í Evrópu. Í fjórða lagi yfirlýsing um að taka Vestur-Þýzkaland inn í Norður-Atlantshafsbandalagið, og í sambandi við það ákvarðanir um ráðstöfun á herjum Atlantshafsbandalagsins í Evrópu. Í fimmta lagi yfirlýsing frá vestur-þýzka lýðveldinu, sambandslýðveldinu, viðvíkjandi þess afstöðu. Og í sjötta lagi ákvæði um, að úr öllum þessum samningum og yfirlýsingum mundi verða unnið af viðkomandi ríkisstjórnum og lagt fyrir ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins. Með öðrum orðum: Allt þetta heyrir saman, allir þessir samningar. Og svo framarlega sem eitthvað af þessu brestur, þá verður að taka þetta allt aftur til umræðu og athugunar. Enn fremur heyrir, — eins og menn vita, undir þetta sérsamningur á milli Frakklands og Vestur-Þýzkalands um Saar. Einnig ef sá samningur verður ekki samþykktur eins og hann er, þá eru forsendurnar brostnar fyrir þessum málum. Þess vegna er það engum efa bundið, að Ísland hefur nú vegna neitunarvalds þess gagnvart nýjum meðlimum í Atlantshafsbandalaginu formlegt og raunverulegt vald til þess að beita sér í þessum efnum, fyrir utan svo hitt, sem ég legg nú meira upp úr, það siðferðislega vald, sem í því felst, ef Alþingi Íslendinga segir nei. Alþingi Íslendinga hefur áður á svipuðum tíma og nú er sagt nei viðvíkjandi yfirgangi fasisma í Þýzkalandi, 15. marz 1939. Þá neitaði Alþingi Íslendinga Hitler og þýzku ríkisstjórninni þá um afnot af flugvöllum hér á Íslandi, og sú neitun Alþingis Íslendinga og ríkisstjórnarinnar, sem einmitt var þá undir forsæti hv. þm. Str., vakti þá athygli úti um allan heim.

Við skulum þess vegna ræða þetta mál alveg sem stórpólitískt atriði og ekki sem neitt smávægilegt, sem formlega afgreiðslu, sem engar afleiðingar hafi. Við höfum vald í þessum efnum, og okkur ber skylda til að nota það vald. Og það er tvennt, sem fyrst og fremst er hættan í sambandi við samþykkt þessa máls í heild og þar með samþykkt þessarar till., sem hér liggur fyrir; það er annars vegar hervæðing Vestur-Þýzkalands, sem gefur fasistisku öflunum í Vestur-Þýzkalandi byr undir báða vængi og fær þeim hættuleg vopn í hendur, og hins vegar sundrung Þýzkalands, sem eykur stórkostlega á alla stríðshættuna í Evrópu.

Við skulum reyna að gera okkur nokkuð ljóst um hervæðingu Vestur-Þýzkalands, hvaða afleiðingar hún mundi hafa og hvert hún mundi beinast. Og það er þrennt, sem ég sérstaklega vildi leyfa mér að benda hv. þm. á í því sambandi.

Það er í fyrsta lagi: Vitanlegt er, að frá hálfu þess aðila, sem er höfuðfrumkvöðullinn að hervæðingu Vestur-Þýzkalands, sem sé Bandaríkjanna, á þessi hervæðing að beinast að sósíalistísku löndunum í Austur-Evrópu. Ég vil í því sambandi minna á, að það er ekki í fyrsta skipti, sem reynt er af hálfu auðvaldsins í veröldinni að efna til ófriðar við alþýðuríkin þar eystra. Strax eftir að verkamenn og bændur höfðu tekið völdin af keisarastjórninni, auðvaldinu og aðlinum í því gamla Rússlandi 1917, hófst meginið af auðvaldsríkjum Evrópu og Ameríku handa um að reyna að steypa sovétstjórninni af stóli með borgarastyrjöldum og innrásarstyrjöldum. Í fjögur ár voru þessar styrjaldir háðar, og þó að verkamenn og bændur Sovét-Rússlands væru þá, eftir fjögurra ára heimsstyrjöld, ákaflega illa búnir undir að verjast þessum árásum, þá tókst þeim að lokum að hrinda þeim öllum, þannig að þó að 14 auðvaldsríki reyndu að kæfa verkalýðsbyltinguna rússnesku í fæðingunni, þá var það hún engu að síður, sem bar sigur af hólmi.

Í annað skipti reyndi auðvald veraldarinnar að sameinast gegn Sovétríkjunum. Það var með samningnum í München haustið 1938, þar sem raunverulegt bandalag var gert milli Englands, Frakklands, Þýzkalands og Ítalíu, og útreikningurinn, sem því bandalagi lá til grundvallar, er sá sami og nú liggur til grundvallar og er raunverulega aðalatriðið í þessari till., sem fyrir liggur um hervæðingu Vestur-Þýzkalands, að reyna að tryggja, að þýzkum her yrði beitt austur á bóginn, yrði beitt til þess að berja niður sósíalismann í heiminum. Það var í samræmi við alla pólitík Hitlers, að það mætti 1938 í München reikna með því, að hann réðist á Sovétríkin. Hitler hafði ásamt Ítalíu og Japan myndað bandalag, sem þá var kallað Anti-Kominternbandalagið og hafði það að takmarki að berja niður sósíalismann í heiminum. Sú er og hugsun Bandaríkja Norður-Ameríku, eins og hvað eftir annað hefur komið fram í yfirlýsingum, líka af hálfu þeirra manna, sem hér á Alþingi Íslendinga hafa haft framsögu um Atlantshafsbandalagið, svo sem greinilegast stendur í ræðum Stefáns Jóhanns þegar hann hafði framsöguna. Bandaríki Norður-Ameríku hugsuðu sér með Norður-Atlantshafsbandalaginu samsvarandi herferð á móti sósíalismanum í heiminum og Hitler hafði gengizt fyrir á sínum tíma. En bæði enska og franska þjóðin hafa lært nokkuð af allri síðustu styrjöld, hafa lært nokkuð af Münchensamningnum og hafa lært nokkuð af því, hvað krossferð á móti sósíalismanum í heiminum þýði. Þær eru þess vegna ekki sérstaklega auðfúsar á að leggja út í slíkt hættulegt ævintýri aftur. Þess vegna leggja Bandaríkin höfuðáherzluna á að fá nú Vestur-Þýzkaland vígbúið.

Öllum hv. þm. er ljóst, hve herfilega krossferð Hitlers og þeirra, sem stóðu á bak við hann í München, mistókst, en kostaði engu að síður mannkynið fjögurra ára ægilega styrjöld. Það, sem nú er verið að gera með samningnum um hervæðingu Vestur-Þýzkalands, er samsvarandi því, sem gert var í Münehen. Og það eru sömu aðilarnir að miklu leyti, sem þar standa að. En það vil ég minna hv. þm. á, að hafi verið vonlítið að ráðast á þann litla sósíalistiska heim, sem til var 1917–18, og hafi það verið fásinna að ráðast á þann sósíalistiska heim, sem til var 1939, þá er það orðið algerlega óráðlegt fyrir það auðvald, sem enn er til í veröldinni, að leggja út í það brjálaða stríðsævintýri að reyna að ráðast á þann þriðja hluta veraldarinnar, sem sósíalisminn í heiminum nú er. Þess vegna er það jafnvitfirrt sem fyrirtæki eins og það er ægilegur glæpur gagnvart mannkyninu að ætla að stofna til nýs stríðs. Þess vegna skulum við gera okkur fyllilega ljóst, að sjálfur tilgangurinn, sem fyrir þeim mönnum í Bandaríkjunum vakir, er heimta styrjöld gegn hinum sósialistiska heimi, er þannig, að Ísland á ekki að neinu leyti að ljá honum liðsinni. Það leiðir skelfingar yfir veröldina, ef lagt er út í nýja styrjöld gegn sósiallstiska heiminum, en það þýðir máske tortímingu menningarinnar, en a. m. k. tortímingu auðvaldsins, ef úr því verður.

En það eru ekki aðeins sósialistisku ríkin, sem hervæðingu Vestur-Þýzkalands er beint gegn. Og þá komum við að þeim atriðum, sem eru ef til vill enn þá raunhæfari en hugsanlegt stríð við þann sterka sósíalistíska heim. Hervæðing Vestur-Þýzkalands beinist gegn þýzka verkalýðnum og þýzku alþýðunni. Hervæðing Vestur-Þýzkalands skapar stórhættu á borgarastyrjöld í Þýzkalandi, annars vegar hættu á því, að óðir hernaðarsinnar Vestur-Þýzkalands ráðist á Austur-Þýzkaland þrátt fyrir öll loforð, sem Adenauer eða aðrir slíkir kunna að gefa þar um, og í öðru lagi hættu á borgarastyrjöld í Vestur-Þýzkalandi.

Hv. 6. landsk. las hér við fyrri umr. þessa máls upp mótmæli þýzka verkalýðssambandsins og þýzka sósíaldemókrataflokksins gegn hervæðingu Vestur-Þýzkalands og gegn öllum þeim samningum, sem keðjaðir voru saman með Lundúnaráðstefnunni. Og ég vil aðeins minna á eina setningu úr þeirri samþykkt þýzka verkalýðssambandsins, sem gerð var 9. okt. og gerð var svo að segja einróma af fulltrúum fyrir 6 millj. þýzkra verkamanna og það eingöngu verkamanna í Vestur-Þýzkalandi. Þar stóð í:

„Endurhervæðing og sköpun þýzks hers, eins og Lundúnasamningurinn gerir ráð fyrir, skapar fyrir innri þróun sambandslýðveldisins þá hættu að skapa hernaðarlegt einræðisríki. Þetta mundi eyðileggja alla viðleitni þýzka verkalýðsins til að byggja upp pólitískt, þjóðfélagslegt og efnahagslegt lýðræði.“

Það er engum efa bundið, að það vita ekki aðrir betur um hættuna, sem yfir vofir af endurhervæðingu Vestur-Þýzkalands en þýzki verkalýðurinn. Við verðum að gera okkur fyllilega ljóst, hvað endurhervæðing Vestur-Þýzkalands er. Hún er hervæðing þeirra Þjóðverja, sem börðust í síðustu styrjöld undir merkjum Hitlers. Hún er hervæðing þýzks hers, sem fram til 1945 barðist sem nazistískur her um alla Evrópu og undir forustu þýzkra herforingja, sem stjórnuðu í síðustu styrjöld, sumpart herforingja, sem voru dæmdir sem stríðsglæpamenn að lokinni þeirri styrjöld. Þetta gerir þýzki verkalýðurinn, þetta gera jafnt þýzku kommúnistarnir sem þýzku sósíaldemókratarnir og aðrir raunverulegir lýðræðissinnar í Þýzkalandi sér fyllilega ljóst. Þeim er ljóst, að hervæðing Vestur-Þýzkalands þýðir að gefa þýzku auðmannastéttinni, því sem eftir er af gamla þýzka aðlinum og þeim hluta af þýzku þjóðinni, sem þessu valdi hefur alltaf tekizt að fylkja á bak við sig, möguleikana til þess að koma aftur á hernaðarlegu einræði í þeim hluta Þýzkalands, sem þeir ráða yfir. Pólitík þýzku sósíaldemókratanna hefur verið gerð alveg ljós í þessum efnum. Þeir hafa lýst því yfir, að með samþykkt á öllum þeim samningum, sem keðjaðir voru saman með Lundúnaráðstefnunni, væri girt fyrir sameiningu Þýzkalands og sundrung Þýzkalands ákveðin fyrir máske ófyrirsjáanlega framtíð. Ollenhauer, formaður þýzka sósíaldemókrataflokksins, lýsti því yfir í þingi Vestur-Þýzkalands 7. okt., að þeir, sósíaldemókratarnir, væru skilyrðislaust fylgjandi því, að áður en nokkur samþykkt yrði gerð á þeim samningum, sem um er rætt, yrði reynt til hlítar að ná samkomulagi við sovétstjórnina til þess að koma þannig í veg fyrir sundrungu Þýzkalands og þá hættu, sem af því mundi hljótast að sundra Þýzkalandi í tvennt og vígbúa hlutana hvorn gegn öðrum. Ollenhauer, formaður þýzku sósíaldemókratanna, lýsti því þá yfir, að það, sem hann og hans flokkur áliti rétta stefnu í þessum málum, væri, að fyrst væri Þýzkaland allt, Austur- og Vestur-Þýzkaland, sameinað á þeim grundvelli, að það sameinaða Þýzkaland væri utan við þau bandalög, sem annaðhvort væru til eða mynduð yrðu í Vestur-Evrópu eða í Austur-Evrópu, þannig að sameinað Þýzkaland stæði sem sjálfstætt, sameinað stórveldi á milli þeirra tveggja stórveldaflokka, sem væru til beggja vegna við það. Og þetta hlýtur öllum að skiljast, sem á annað borð vilja frið í Evrópu, að er eina ráðið til þess að koma í veg fyrir, að við Saxelfi standi tveir vígbúnir herir hvor gegn öðrum og ekki þurfi nema eldspýtu í púðurtunnuna til þess að kveikja í.

Það er vitanlegt, að auðvitað fallast verkalýðsríkin í Austur-Evrópu aldrei á það, að Austur-Þýzkaland verði afhent undir yfirráð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra sem svæði til þess að vígbúast á gegn Sovétríkjunum og öðrum sósíalistískum ríkjum. Slíkt kemur aldrei til mála. Og eina leiðin til þess að skapa friðartryggingu á þessu svæði er þess vegna sameinað Þýzkaland, Austur- og Vestur-Þýzkaland sameinað utan við hernaðarblokkirnar báðar, sem kynnu að verða til í Evrópu.

Það var þessi aðferð, að skapa slíkt ríki, sem hvorugri blokkinni skyldi tilheyra, sem nú takast á í heiminum, sem var framkvæmd með Genfarsáttmálanum, ákvörðuninni viðvíkjandi framtíðarstöðu Indó-Kína. Og það var einmitt á grundvelli þessa, sem tókst að gera samkomulag í Genf, — það samkomulag, sem batt enda á sjö ára styrjöld í Indó-Kína, það samkomulag, sem hefur aukið gífurlega á friðarhorfurnar í heiminum. Og sú regla var þar lögð til grundvallar án tillits til þess, hvaða aðilar yrðu ofan á í kosningum í Indó-Kína, að þetta land, hvernig sem því væri stjórnað, skyldi vera utan við þær stórveldablokkir, sem til væru í veröldinni. Og það er sama ráðið, sem er auðsjáanlega eina ráðið viðvíkjandi Þýzkalandi, ef á að sameina það og ef á að halda því friðsamlegu.

Það er ekki að undra, þó að þýzkur verkalýður sé uggandi út af þeim framtíðarhorfum, sem skapast fyrir hann, svo framarlega sem Lundúnasamningarnir verða samþykktir. Við skulum aðeins muna eftir, að þýzki verkalýðurinn, eftir að hann hefur gert sína byltingu 1918, er barinn niður með vopnavaldi 1919, m. a. af þeim herforingjum og af þeim herdeildum, sem urðu síðan kjarninn í her Hitlers og eru enn þá kjarninn í þeim her, sem nú er verið að undirbúa í Vestur-Þýzkalandi. Og síðan, eftir að auðvaldinu þannig hafði tekizt 1919 raunverulega að halda völdunum í Þýzkalandi, var svo 1933 þýzki verkalýðurinn ofurseldur undir fasisma, undir einræði þýzka auðvaldsins. Við skulum muna það, þegar talað er um allar þær skelfingar, sem fasisminn olli í Evrópu, að fyrsti aðilinn, sem varð fyrir barðinu á nazismanum, varð fyrir barðinu á Hitler, var þýzki verkalýðurinn. Það var þýzki verkalýðurinn, sem fyrst var sleginn niður, það var þýzki kommúnistaflokkurinn, sem fyrst var bannaður, og nú er byrjað að banna hann í Vestur-Þýzkalandi, það var þýzka sósíaldemókratíið og þýzka verkalýðssambandið, sem síðan var bannað og barið niður, og nú er það þýzka sósíaldemókratíið og þýzka verkalýðshreyfingin í Vestur-Þýzkalandi, sem biður verkalýðshreyfinguna í Vestur-Evrópu um hjálp. Seinast í dag munu hv. þingmenn hafa heyrt í útvarpinu, að Ollenhauer, formaður þýzku sósíaldemókratanna, skírskotar til allra jafnaðarmannaflokka í Vestur-Evrópu að taka upp baráttuna á móti samþykkt allra Lundúnasamninganna, á móti hervæðingu Vestur-Þýzkalands.

Þess vegna er ljóst, að það, sem núna berst jafnt hér til Alþingis Íslendinga og annarra þeirra þjóða og þinga, sem ræða þetta mál, er neyðaróp frá þýzku alþýðunni, sem sér, að það er verið að taka til höggstokkinn og reiða upp öxina gegn henni. Og það er bezt, að þeir menn, sem samþykkja þennan samning sem heild, geri sér alveg ljóst, hvað þeir eru að gera með því. Það er verið að ofurselja þýzka verkalýðinn og þýzku alþýðuna aftur í gin þýzka hervaldsins og þýzka auðvaldsins. Ég veit, að menn munu segja í dag: Það er lýðræði í Vestur-Þýzkalandi, og það er inn í lýðræðisbandalag, sem við erum að taka Vestur-Þýzkaland, og við erum að koma lýðræðinu á og tryggja lýðræðið í Vestur-Þýzkalandi. Ég ræddi ofur lítið um andlit lýðræðisins í þessu sambandi við fyrri umr. þessa máls, og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég ætla að minna menn á framkvæmd „lýðræðisins“ í Guatemala af hálfu ríkja Atlantshafsbandalagsins, og ég ætla að vara menn við að láta falleg orð, jafnvel þó að Adenauer noti þau, blekkja sig um innihaldið í því, sem verið er að koma á. Lýðræði er ákaflega fallegt orð, en það er hægt að dylja harðstjórnarkúgun í Vestur-Þýzkalandi, endurreisn hervalds og auðvalds í Vestur-Þýzkalandi undir þeirri grímu.

Ég vil aðeins minna menn á: Það var ekkert amalegt orð, sem Hitler hafði viðvíkjandi sínum flokki og því, sem hann var að koma á. Það hljómaði svo sem ekki verr en lýðræði, og það var ekki síður róttækt en lýðræði. Ég vil minna menn á, að hans flokkur hét „National-socialistische Arbeiter Partei Deutsehlands.“ Það var Þjóðlegi sósíalistíski verkamannaflokkurinn í Þýzkalandi. Það vantaði svo sem ekki róttæknina og fögru hljómana, ekki síður en í orðið lýðræði, en það er bara bezt fyrir menn að athuga, hvað innihaldið er og hvað verið er að gera í þessu sambandi. Mennirnir, sem í dag eru forustumennirnir í endurhervæðingu Vestur-Þýzkalands, eru hershöfðingjarnir. Það er manndjöfull, á þýzku: Mannteufel, það er Kesselring, það er Krupp, það eru mennirnir, sem voru dæmdir sem stríðsglæpamenn og sátu í fangelsi nokkur ár, meðan þjóðir Evrópu enn þá mundu hryðjuverk nazismans, mennirnir, sem nú eru ekki aðeins komnir út, og nú hefur ekki aðeins verið hætt við að þjóðnýta Krupp-verksmiðjurnar, eins og brezki verkamannaflokkurinn heimtaði eftir stríð. Nú hefur Krupp, nú hefur IGF, þýzki köfnunarefnishringurinn, og allir auðhringar Þýzkalands fengið sínar eignir aftur og deila hluta af þeim með Bandaríkjaauðvaldinu, og það er þetta endurreista auðvald og þessir „hreinsuðu“ herforingjar Hitlers, sem nú beita sér fyrir endurhervæðingunni, og við vitum, að þeirra fyrsta verk verður að slá niður þýzka verkalýðinn, þýzku verkalýðshreyfinguna. Þannig byrjuðu þeir 1933, og það er nauðsynlegt fyrir þá, til þess að geta snúið sér að þeim, sem þeir koma til með að snúa sér að næst. Og þessa dagana verður það ákveðið, hvort m. a. stjórnmálaflokkarnir hér á Íslandi ætla að hjálpa til þess að gera þeim þetta mögulegt eða ekki.

M. ö. o.: Næst á eftir því að beinast gegn sósíalísku ríkjunum, þá beinist endurhervæðing Vestur-Þýzkalands gegn þýzku alþýðunni sjálfri.

Í þriðja lagi beinist hún gegn lýðræðinu í Vestur-Evrópu. Endurreistur þýzkur her á að áliti Bandaríkjastjórnar að verða eins konar varðhundur hennar í Evrópu. Og ég vil taka það fram aftur, að þó að Bandaríkin hafi fulla löngun til þess að beita þeim varðhundi á sósíalisku ríkin í Austur-Evrópu, þá er ekki víst, að varðhundinum né herra hans þyki það skynsamlegt, þegar til kemur. Þeim kann að þykja ódýrara að reyna að láta hann rífa í sig lýðræðið í Frakklandi, ekki sízt ef það lýðræði yrði þá orðið heldur róttækara en það er í dag. Það hefur ekki vantað hótanirnar, hvorki frá vestur-þýzkum stjórnmálaleiðtogum né ameríska auðvaldinu, gagnvart Frakklandi út af óþægð þess í sambandi við Evrópusamninginn, út af styrkleika kommúnistaflokksins og verkalýðshreyfingarinnar í því landi, og það er gefið, að þegar Bandaríkin væru búin að hervæða Vestur-Þýzkaland, þá fara þeir að tala öðru máli gagnvart Frakklandi; ég tala nú ekki um ef það Frakkland færi að feta meira í fótspor þess Frakklands, sem var fyrir stríð, jafnvel með nýrri og róttækari alþýðufylkingu en þá var. Menn tala stundum um það sem eitthvað óttalegt, þegar Hitlers-Þýzkaland gerði samning við Sovétríkin og þegar Sovétríkjunum tókst að kljúfa fjandmenn sína, sem höfðu sameinazt með Münchensamningnum á móti þeim, og láta þá fjendur þeirra eigast við í staðinn fyrir að láta þá ráðast sameinaða á Sovétríkin.

Ég vil biðja menn að athuga, að það Vestur-Þýzkaland, sem á að hervæða aftur í dag, er ekki öruggur bandamaður fyrir Frakkland og England eða aðra, sem vildu sérstaklega standa með þeim ríkjum. Það er enginn kominn til með að segja, hvenær það Vestur-Þýzkaland jafnvel kýs heldur, af því að það treystir sér ekki til þess að leggja í Sovétríkin, að sprengja sig út úr Atlantshafsbandalaginu og henda sér heldur yfir Frakkland. Ég vil vekja athygli manna á, að sú pólitík, sem nú er lagt til að Ísland taki þátt í að framkvæma í Evrópu, er hættuleg pólitík. Það er enginn kominn til með að segja, hvert reykinn og eldinn leggur, ef kveikt er í, þannig að það er bezt fyrir menn að athuga sinn gang í tíma. Hinir þýzku herforingjar Hitlers hafa reynslu af því, hvað það þýðir að ætla að slást við sósíalísku ríkin. Þeim gekk betur að eiga við Frakkland 1940. Það má vel vera, að þeim þætti enn þá auðveldara að ráðast á garðinn, þar sem hann væri lægri. Lýðræði Vestur-Evrópu, bæði því, sem nú er, og því, sem kann að koma, stafar hætta af endurhervæðingu Vestur-Þýzkalands.

Ég vil aðeins til fróðleiks, ef allir hv. þm. stjórnarflokkanna skyldu standa í þeirri meiningu, að herforingjar Hitlers hefðu gengið í endurnýjun lífdaganna sem góðir lýðræðissinnar og iðrazt yfir öllum sínum stríðsglæpum, vitna í eina setningu, sem Kesselring marskálkur, fyrrverandi hershöfðingi Hitlers og núverandi foringi Stahlhelm í Þýzkalandi, sagði á einum opinberum fundi, þar sem m. a. forsætisráðherrann úr Nordrhein-Westfalen var viðstaddur. Hann var að tala um, að hann hefði verið ásakaður fyrir að hafa látið drepa 330 gísla í Róm einu sinni, og það var eitt af því, sem hann var dæmdur sem stríðsglæpamaður fyrir. Hann sagði um það: „Ég hef miklar áhyggjur af, að stríðssagnaritarar framtíðarinnar munu álasa mér með eftirfarandi orðum: Kesselring, þú hefur misst af margri góðri bardagaaðstöðu með því að vera allt of mannúðlegur í þínu framferði.“ Það liggur fyrir, að þessir hershöfðingjar Hitlers eru svo fjarri því að sjá eftir aðferðunum, sem þeir hafa haft í frammi, að þeir eru ákveðnir í því að vera harðvítugri, vera ekki eins „mannúðlegir“ og þeir voru í sambandi við múgmorðin, sem þeir framkvæmdu í síðasta stríði, og Bandaríkin munu sjá þeim fyrir atómvopnunum, til þess að þeir þurfi ekki að kvíða því að geta ekki verið nógu fljótir með þau múgmorð, sem þeir hyggja til í næstu styrjöld.

Þessir herforingjar Hitlers gera sér einnig ljóst, að sú stefna, sem Bandaríkin og þau ríki, sem þeim fylgja, taka upp, er áframhaldið af stríðsstefnu Hitlers. Kesselring sagði á þessum sama fundi: „Stríðsdáðir Þjóðverja hafa nú orðið grundvöllurinn að pólitík vesturveldanna.“ Þið skiljið, að hershöfðingjar Hitlers skilja fyrr en skellur í tönnunum. Þeir sjá, að það er „Anti-Komintern“ eða andkommúnistabandalagið, sem verið er að endurreisa, það sé sama pólitík og sú, sem Hitler rak, sem nú eigi að reka, enda segja þeir fullum fetum: Nú loksins eru vesturveldin búin að uppgötva það, að Hitler hafði alveg á réttu að standa. Þetta langt eru menn komnir, og afleiðingin, sem hálffasistarnir og fasistarnir í Bandaríkjunum draga af þessu, er: Nú verður einmitt að fá þýzku fasistana í lið með okkur. Það eru mennirnir, sem vita, hvernig á að fara að, og hafa reynsluna af því að berjast á móti verkalýðnum, móti alþýðunni, móti sósíalismanum í heiminum.

Og það á ekki að sitja við orðin tóm um hervæðingu Þýzkalands. Nýlega tilkynnti sá maður, sem er hinn raunverulegi hermálaráðherra Vestur-Þýzkalands, Theodor Blank, að hinn nýi þýzki her væri þegar í fullum undirbúningi. Nafnið á honum ætti að vera Streitkräfte, hin gömlu nöfn, sem verið höfðu, bæði Wehrmacht, eins og var á nazistatímanum, og Reichswehr, eins og var á Weimartímanum, hefðu of óþægilegar endurminningar í för með sér, sagði hann, til þess að það væri hægt að endurvekja þau. Mann undrar náttúrlega ekki, þótt þeir vilji ekki beint taka upp nafnið á her Hitlers, en hitt undrar mann máske dálítið, að Reichswehr, nafnið á her Weimarlýðveldisins, skyldi vera orðið það óvinsælt, að ekki mætti taka það upp. Og það er áreiðanlega ekki vegna þess, að það nafn sé svo óvinsælt í eyrum þýzkra kommúnista, að þeir þora ekki að endurvekja það, heldur vegna hins, að hinir gömlu herforingjar Hitlers mega helzt ekki heyra minnzt á her Weimarlýðveldisins, og þess vegna á að friðþægja þeim með því að taka nú nýtt nafn, Streitkräfte.

Svo er talað um, að það eigi eingöngu að vera 12 herdeildir, sem Vestur-Þýzkaland eigi að fá. Theodor Blank tilkynnti, að það yrðu 400 þús. manns, sem yrðu í þessum endurreista landher, það yrðu 20 þús. manns í sjóhernum, það yrðu 80 þús. manns í lofthernum, 12 herdeildir á landi, 400 þús. manns, 33 þús. menn í hverri herdeild. Í herdeildum Atlantshafsbandalagsins eru 16 þús. menn. Hver herdeild í Vestur-Þýzkalandi á að vera tvöföld á við herdeildir Atlantshafsbandalagsins. Á þennan hátt á að segja við menn ósköp rólega, að það sé hreinasta lygi, að Þjóðverjar ætli að koma upp 24 herdeildum. Nei, það eru bara 12 herdeildir, en hver þeirra er helmingi stærri en hinar. Um þetta virðist hafa verið samkomulag, að þýzki herinn og þýzki sjóherinn sé endurreistur, 180 herskip og 1300 flugvélar og sprengjuflugvélar. Þær borgir Englands, sem verst urðu úti í síðustu styrjöld, eiga nú að hjálpa til að fá þýzka loftflotann aftur í gang.

Þessar tilkynningar um þann nýja her Vestur-Þýzkalands, eins og samkomulag hafði verið um það í Lundúnum, voru ekki nema rétt komnar út til almennings, þegar Theodor Blank, þessi tilvonandi hermálaráðherra Vestur-Þýzkalands, tilkynnti enn fremur, að Vestur-Þýzkaland ætlaði sér að koma upp varaliði, sem væri milli 4 og 5 milljónir manna. Og þessi tilkynning um að hervæða þannig raunverulega 17 árganga, árgangana af Þjóðverjum, sem eru milli 29 og 45 ára, var gefin án þess, að nokkuð hefði verið á það minnzt eða um það rætt í Lundúnasamningunum og á Lundúnaráðstefnunni, að Vestur-Þýzkaland ætti að hafa nokkurn varaher. M. ö. o.: Undireins og búið er að rétta vestur-þýzka hervaldinu litla fingurinn, búið að leyfa því að fá þessar stóru og nýju herdeildir, vel vopnum búnar, þá tilkynnir þýzki hermálaráðherrann tilvonandi, að þeir komi sér upp varaliði líka. Meginið af þeim mönnum, sem eru á aldrinum 29–45 ára í Vestur-Þýzkalandi, eru menn, sem hafa æfingu úr stríðinu, þannig að þeir þurfa ekki nema nokkurra mánaða skólun með nýtízku vopnum til þess að vera fullfærir og duglegir hermenn. M. ö. o.: Það er 4–5 milljón manna her, sem þetta Vestur-Þýzkaland undireins fær komið á laggirnar.

Þetta sýnir m. a., að hið vestur-þýzka herveldi hugsar sig ekki um. Það bíður ekki einu sinni eftir að samningarnir séu samþykktir, áður en það byrjar að brjóta þá, áður en það byrjar að koma sér upp varaliði, sem það ekki hafði leyfi til. Og annað er auðséð líka að þeir byrja að brjóta nú þegar. Í Lundúnasamningunum var ekki gert ráð fyrir, að þessi þýzki her hefði atómvopn. Nú þegar er farið að flytja af hálfu Bandaríkjanna fallbyssur með atómkúlum til Vestur-Þýzkalands, og það er engum efa bundið, — það veit maður af allri þeirri reynslu, sem maður hefur, — við getum gjarnan sagt af dugnaði þýzkrar stóriðju og sérþekkingu þýzkra vísindamanna, en þó sérstaklega af óskammfeilni þýzkra herforingja og stjórnmálamanna, — að afturhaldið þýzka er nú þegar í fullum gangi með tilraunir um sýklahernað, atómhernað og annað slíkt, og fær áður en margar vikur verða liðnar atómvopn frá Bandaríkjunum í hendur. Við skulum þess vegna gera okkur fyllilega ljóst, að þetta litla af tryggingum, sem talað er um í sambandi við þessa Lundúnasamninga, þessar ráðstafanir, sem þarna á að gera, verður allt tómt hjóm, undireins og þýzka hervaldið er komið af stað. Þeir eru byrjaðir að brjóta Brüsselsáttmálann, áður en búið er að taka þá í Brüsselsambandið eða Atlantshafsbandalagið. Atlantshafsríkin í Vestur-Evrópu munu ekkert ráða við þá anda, sem þau særa fram í Vestur-Þýzkalandi, jafnvel þó að þau seinna meir fari að langa til þess að ráða við þá og sjái glópskuna, sem þau eru að framkvæma. Það er þessar vikurnar, sem tækifærið er enn þá til, áður en þýzku herforingjunum er aftur fengin skammbyssan í hendur, að ráða því, að þeir hafi ekki tækifæri til þess að beita henni.

Ég verð að segja það, að mér voru það nokkur vonbrigði, að það skyldi ekki vera reynt af hálfu þeirra, sem mæla nú með þessum samningi hér, að koma fram með neinar röksemdir fyrir þessum samningi, og ég vil leyfa mér að síðustu, fyrst engar hafa komið hérna fram, að minna aðeins á þær röksemdir, sem helzt hafa verið notaðar úti í Evrópu. Mér þykir hlýða, að eitthvað af þeim röksemdum, sem færðar eru fyrir Atlantshafssamningnum og Lundúnasamningnum, komi fram, til þess að hægt sé að hrekja þær. Ég kann illa við það, að menn hafi þá aðstöðu, eins og stjórnarliðið hefur nú hér, að gera ekkert annað en heyra og hlýða þeim erkibiskupsboðskap, sem þeim nú er fluttur frá erkibiskupum mammons og herguðsins í Washington. Ég skal geta þeirra röksemda, sem helzt komu fram í Noregi fyrir því, að Noregur ætti að samþykkja, að Þýzkaland gengi í Atlantshafsbandalagið.

Í fyrsta lagi kom fram sú röksemd, að þýzk hervæðing væri nauðsynleg til þess að vernda Evrópu fyrir Sovétríkjunum. Ég býst við, að sem stendur sé enginn ábyrgur stjórnmálamaður í Evrópu, sem heldur því fram, að Evrópu standi sem stendur hætta af árás frá Sovétríkjunum, enginn ábyrgur stjórnmálamaður í Evrópu, sem dirfist að halda því fram, og vesturveldin hafa sjálf greinilegast undirstrikað, að þessi árásarhætta væri ekki fyrir hendi, með því að þau hafa sjálf upp á síðkastið verið að draga úr sínum hernaðarstyrk, og þá er ekki undarlegt, þó að menn spyrji: Hví í ósköpunum skyldu vesturveldin vera að draga úr sínum hernaðarstyrk og stytta hjá sér herþjónustutímann, ef þau álitu svo nauðsynlegt að fara að koma upp 12 herdeildum í Vestur-Þýzkalandi vegna hættu á árás frá Sovétríkjunum? Það er með öðrum orðum greinilegt, að þessi röksemd er ekkert annað en bábilja.

Önnur aðalröksemdin, sem notuð hefur verið úti í Evrópu, m. a. í Noregi, var sú, að þýzk hervæðing mundi hindra nýnazismann í Þýzkalandi, mundi koma í veg fyrir, að nazisminn í nýju formi risi upp í Vestur-Þýzkalandi. Það er auðvelt að hrekja þá röksemd, og gera engir það betur en þýzki verkalýðurinn í Vestur-Þýzkalandi sjálfur. Skoðun þýzka verkalýðsins, þýzkra verkamanna, eins og ég þegar hef gert grein fyrir og þeir sjálfir hafa sagt svo skýrt og skorinort, er sú einmitt, að hervæðing Vestur-Þýzkalands skapi nazismann að nýju og geri Vestur-Þýzkaland að hernaðarlegu einræðisríki. Þýzki verkalýðurinn, þýzku kommúnistarnir og þýzku sósíaldemókratarnir ættu manna bezt að vita það, hvað hervæðing þýðir í Vestur-Þýzkalandi.

Þá er þriðja röksemdin, sem notuð hefur verið, sú, að þýzk hervæðing muni gera Sovétríkin samningafús. Það er með öðrum orðum pólitík valdsins, sem Bandaríkin hafa hampað allmikið upp á síðkastið. Hver reynsla er nú af þeirri pólitík? Við fengum bezta reynslu í Genf, við samningana þar, um það, undir hvaða kringumstæðum væri bezt að ná samningum og skapa frið. Í Genf voru vesturveldin ekki sterk, það var ekki pólitík valdsins og pólitík styrksins, sem þau sýndu þar. Nei, þau voru veik í Indó-Kína. Þau voru að tapa í Indó-Kína. Sósíalistísku ríkin voru sterk. Engu að síður náðist samkomulag í Genf, sem vesturveldin gátu mjög vel unað við, samkomulag, sem skapaði frið. Það sýndi sig, að einmitt undir þeim skilyrðum, að vesturveldin höfðu ekki einu sinni aðstöðu til þess að sýna vald eða sýna styrkleik, var hægt að ná mjög góðum samningum líka fyrir þau. Í öðru lagi er það greinilegt, að Sovétríkin — og það hafa allir fulltrúar Atlantshafsbandalagsríkjanna lagt áherzlu á á síðustu mánuðum — hafa verið reiðubúin til samninga og hafa undanfarið viljað semja, en nú lýsa Sovétríkin því yfir, að svo framarlega sem Vestur-Þýzkaland verði hervætt, þá sé of seint að gera samninga, það sé ekki til neins að tala um neina samninga eftir það, þá sé ekki til neins að tala um neina afvopnun. Og ég vil vekja athygli manna á því, hvaða álit sem menn annars hafa á Sovétstjórninni, að hennar stjórnmálamenn eru ekki vanir að tala út í bláinn. Það eru menn, sem láta gerðir fylgja á eftir orðunum, og fyrir hvern, sem man síðasta stríð, er það ákaflega skiljanlegt. Þýzki herinn gafst upp 1945, eftir að rauði herinn var búinn að brjóta hann á bak aftur. Þýzki herinn gafst upp og var afvopnaður, og síðan hefur enginn friður verið saminn. Það er enginn friður enn þá saminn við neitt Þýzkaland, eins og menn vita. Það eina, sem hefur gerzt, er uppgjöf þýzka hersins og vopnahléið, afvopnun þýzka hersins samkvæmt þeirri uppgjöf hans. Ef nú nokkrir af bandamönnum Sovétríkjanna úr síðustu styrjöld ætla að fara að vopna þennan þýzka her á ný, þá skilja Sovétríkin, Pólland, Tékkóslóvakía og öll þau ríki, sem urðu fyrir mestum hryðjuverkum af her Hitlers, hvað verið er að gera. Það voru 7 millj. sovétborgara, sem féllu eða voru myrtir af þýzka hernum í síðustu styrjöld. Hver einasta fjölskylda í Sovétríkjunum, svo að segja, á um sárt að binda eftir það stríð, og það er engum efa bundið, að það er ekki meining sósíalisku ríkjanna í Austur-Evrópu að láta hættuna á þýzkri hervæðingu geta skollið á sér aftur. Eftir að samningurinn hefur verið gerður um hervæðingu Þýzkalands, er hins vegar orðið of seint að semja. Þá er búið að afhenda þýzku herforingjunum þau vopn, sem þeir þrá, þá er búið að kljúfa Þýzkaland í tvennt og þá er búið að slá á þá framréttu hönd sósíalisku ríkjanna, sem enn í dag er tækifæri til þess að taka í. Þess vegna er það sem hver önnur vitleysa, að hervæðing Vestur-Þýzkalands geri Sovétríkin samningsfús. Þau eru reiðubúin til samninga nú, en þau eru sjálf búin að lýsa því yfir, að þau verða það ekki, eftir að búið er að endurhervæða Vestur-Þýzkaland. Þessi röksemd fellur því um sjálfa sig.

Og þá er síðasta röksemdin, sem beitt var, a. m. k. sérstaklega í Noregi. Hún er sú, að Bandaríkin mundu hervæða Vestur-Þýzkaland, ef Atlantshafsríkin neita. Og þetta býst ég við að eigi að vera sterkasta röksemdin, og þetta hef ég nú satt að segja grun um að sé röksemdin, sem hæstv. ríkisstj. beygir sig fyrir: Að svo framarlega sem Vestur-Þýzkaland verði ekki tekið inn í Atlantshafsbandalagið og Brüsselbandalagið og gefið þannig lýðræðis „fernisinn“ yfir það og allan þess fasisma, þá muni Bandaríkin sjálf upp á eigin spýtur hervæða Vestur-Þýzkaland, eins og þau nú eru að hervæða Spán. Ég verð að segja, að þrátt fyrir það þótt þessi röksemd sé vissulega mjög sterk og harðvítug sem svipa, þá efast ég nú samt um, að meira að segja Bandaríki Norður-Ameríku mundu þora, þegar til kæmi, ef Vestur-Evrópuríkin stæðu á móti endurhervæðingu Vestur-Þýzkalands, að hervæða Vestur-Þýzkaland upp á eigin spýtur. Ég efast um, að Bandaríkin mundu þora slíkt, fyrst og fremst vegna þess, að það er nokkurn veginn fyrirsjáanlegt, að ef Bandaríkin hervæða Vestur-Þýzkaland upp á eigin spýtur, þá þýðir það, að Frakkland, sem nú hefur vináttu- og varnarsáttmála við Sovétríkin, mundi gera þann samning aftur að miklu harðvítugri raunveruleika en hann er í dag, m. ö. o., eins og borgararnir í Vestur-Evrópu orða það: Bandaríkin mundu kasta Frakklandi í faðminn á Sovétríkjunum með því að endurhervæða Vestur-Þýzkaland upp á eigin spýtur. Hins vegar er vitað, að þessi röksemd, þessi hótun Bandaríkjanna, það er eina röksemdin, sem hefur dugað, og það er að öllum líkindum líka sú röksemdin, sem veldur því annars vegar, að ríkisstj. Íslands nú leggur þessa þáltill. hér fyrir, og hins vegar hinu, að enginn treystist hér til þess að mæla með henni.

Ég býst við, að leiðtogar stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar viti um þessa hótun Bandaríkjanna og þess vegna þegi þeir. Þess vegna voru þeir líka ófúsir, nokkur þeirra, að taka að sér framsöguna fyrir meiri hl. utanrmn., og þess vegna vilja þeir forðast allar umræður um þetta mál. Það er ekki í fyrsta skipti, sem við Íslendingar kynnumst hótun Bandaríkjanna þannig í sambandi við hennar afskipti af okkar málum. Við munum eftir, þegar þeir heimtuðu Keflavíkurflugvöllinn 1946, þá var hótun þeirra sú: Ef við fáum ekki þennan samning um Keflavíkurflugvöllinn, þá verður okkar her áfram hér í landinu. — Og ég vil minna m. a. Framsfl. á, að hann var þá alveg sérstaklega með kröfurnar um að heimta ameríska herinn burt úr landinu.

Þessi síðasta röksemd um þessa hótun Bandaríkjanna, að þau muni sjálf hervæða Vestur-Þýzkaland, ef Atlantshafsríkin neita, mun hafa verið notuð allóspart í Noregi, ekki síður en hún hefur máske verið notuð hér á Íslandi. Og meðferð norska þingsins á þessu máli, sem er held ég sagt í einhverju nál. að sé það eina, sem hefur það sem kallað er samþykkt þetta, sem komið er, var þannig, að einn af þingmönnum norska verkamannaflokksins skrifar eftirfarandi um það í blað, sem vinstri menn í norska verkamannaflokknum gefa út og heitir Orientering. Það er Jakob Friis, einn af elztu þingmönnum norska verkamannaflokksins, og það er leiðari í þessu blaði, sem heitir: „Det er fullbragt“ — „Það er fullkomnað“. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég lesa þessa lýsingu hans, bara á norskunni, ég vona, að það sé óhætt. Hann segir á þessa leið:

„Stortingets behandling av denne livsviktige sak for vårt folk var líke nedverdigende for regjeringen som for representanterne. Etter forhandsinnpiskning í partigruppene fik regjeringen godkjent en erklæring, som den ikke vågde å ta votering på og som ingen av representamtene (unntatt Kommunistene) vågde å kreve votering om eller stille eget voteringsforslag mot. Tre av talerne erklærte, at hvis de hadde måttet votere ville de ha stemt mot. Mange av dem, som tidde, ville ha sagt det samme, hvis de hadde måttet tale. Men ingen av dem hadde mot til å fremsette et eget voteringstema.

Så ynkverdig har norsk demokrati aldri för opfört seg. På dette grunnlaget erklærte Stortingspresidenten, at utenriks- og forsvarsministeren kunne reise til Paris med et overveldende flertall í Stortinget og det norske folk bak sig og stemme for å innby Vest-Tyskland til å bli medlem av NATO.“

Þetta voru orð eins þm. norska verkamannaflokksins um, á hvern hátt þetta var barið í gegn í Noregi. Ég held þess vegna, að það færi bezt á því að öllu leyti, að Alþingi Íslendinga felldi þetta mál, sem hérna liggur fyrir. Og einmitt til þess að geta gefið hv. þingmönnum, ekki sízt þm. stjórnarflokkanna, möguleika til þess að athuga sinn gang, möguleika til þess að kynna sér þetta mál, möguleika til þess að sjá, hvernig önnur þing Vestur- og Norður-Evrópu afgreiða þetta mál, þá leggur hv. 6. landsk. til, að þessari umr. sé nú frestað. Það er ekkert, sem knýr okkur til þess að afgreiða þetta mál nú, nema ef vera kynni það valdboð Bandaríkjanna, sem ég talaði um hér áðan. Ríkisstj. sjálf hefur hins vegar ekki einu sinni haldið fram, að það væri til staðar. Þess vegna er það nú mín till., sem ég vil endurtaka fyrir hönd hv. 6. landsk. til hæstv. forseta, að í fyrsta lagi verði greidd atkv. um að fresta nú þessari umr., þar til þing kemur aftur saman eftir jól, en hins vegar er það okkar till., að svo framarlega sem nú eigi að ganga til atkvæða um þetta, þá sé þessi þáltill. ríkisstjórnarinnar felld.