14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2465)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði hér um þetta mál almennt í gær, en vil aðeins að gefnu tilefni leiðrétta ummæli hv. þm. Str., sem hann viðhafði í ræðu sinni hér áðan. Hann las hér upp nokkurn hluta af þeirri brtt., sem við þjóðvarnarmenn höfum lagt hér fram, hluta af þeim rökstuðningi, sem þar er fram borinn í 3.lið, en annað tveggja af misgáningi eða af öðrum ástæðum fór hann ekki alveg rétt með það, sem draga ber út úr þessum ummælum. Þegar hann fór að leggja út af ummælunum, sem hann las, fór hann ekki rétt með. Hann vildi halda því fram, að í 3. lið rökstuðnings okkar fælist samþykki við því, að Vestur-Þýzkaland verði tekið inn í Norður-Atlantshafsbandalagið.

Það, sem felst í þessum 3. lið rökstuðnings fyrir brtt. okkar, er ekki annað en það, að við teljum það mjög óeðlilegt, að Íslendingar, sem eru algerlega vopnlaus þjóð og verða það væntanlega um alla framtíð, séu aðilar í hernaðarbandalagi slíku sem Norður-Atlantshafsbandalagið er eða nokkru öðru hernaðarbandalagi og með aðild að slíku bandalagi séu þeir neyddir til að taka ákvarðanir t. d. um hermál Mið-Evrópu, sem þeir hafa að sjálfsögðu mjög takmarkaða aðstöðu til að gera, og um mál, sem vissulega eru afar skiptar skoðanir um í Mið-Evrópuríkjunum sjálfum, eins og mjög rækilega hefur verið rakið hér í ræðum, bæði í gær og í dag.

Í brtt. okkar er fyrst og fremst farið fram á það, að nú sé gerð tilraun til þess að losna úr Norður-Atlantshafsbandalaginu. Fram á það sé farið við aðildarþjóðirnar, að þær liti á sérstöðu okkar sem algerlega vopnlausrar þjóðar og gefi okkur kost á því að losna úr þessu bandalagi. Það er því í brtt. okkar ekkert um það sagt, að taka eigi Vestur-Þýzkaland upp í Atlantshafsbandalagið, heldur aðeins á það bent, hve fjarstætt það sé, að við Íslendingar séum aðili að hernaðarbandalagi. En eins og ég sagði í þeirri ræðu, sem ég flutti hér í gær, þá verðum við, að því er allar líkur benda til, neyddir til þess að taka ákvarðanir um þessi mál, — um hernaðarmál Mið-Evrópu, — og þá verðum við að sjálfsögðu að gera það út frá okkar takmörkuðu möguleikum til að meta allar aðstæður. Ég rakti það þá, að ég hélt sæmilega ljóslega, að þegar við stæðum frammi fyrir þeirri staðreynd að taka ákvarðanir um þessi mál, þá mundum við telja fulla ástæðu til að hlusta mjög gaumgæfilega á rök t. d. þýzkra jafnaðarmanna, annars stærsta flokks Þýzkalands, þess flokks, sem á að fagna mjög vaxandi fylgi í landinu, en þeirra röksemdir í þessum málum hafa verið túlkaðar og skýrðar hér nokkuð. Þeir segja, að það sé hið mesta óráð að hraða þessum málum eða ganga frá þeim nú, áður en þrautreynt sé, hvort ekki séu nein tök á að halda fjórveldaráðstefnu um framtíð Þýzkalands og sameiningu þess alls í eitt ríki. Þeir hafa jafnvel bent á þá hættu, að fari svo, að hernaðarkapphlaup hefjist milli Austur- og Vestur-Þýzkalands, þá gæti svo farið, að til blóðugrar borgarastyrjaldar kæmi milli þessara tveggja ríkja, sem áður voru eitt ríki og þeir leggja eðlilega mjög mikla áherzlu á að reynt verði að sameina í eitt ríki á ný.

Það var fyrst og fremst þetta, sem ég vildi leiðrétta í ræðu hv. þm. Str. Það verður á engan hátt lesið út úr brtt. okkar þjóðvarnarmanna, að við teljum eðlilegt á þessu stigi málsins, að Vestur-Þýzkaland verði veitt aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Eins og ég reyndi að skýra í ræðu minni í gær, teljum við langeðlilegast, að ákvörðun um þetta mál verði látin bíða fyrst um sinn.