14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2466)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það virðist vera, að hæstv. ríkisstj. leggi mikla áherzlu á, að þessu máli verði lokið nú fyrir jólaleyfið. Þó að nokkrar fsp. hafi komið fram hér í umr. um það, hvaða orsakir liggi í rauninni til þess, að ríkisstj. leggi nú áherzlu á að afgreiða þetta mál tiltölulega lítið rætt og á örfáum dögum, þá hafa ekki fengizt frá hæstv. stjórn nein svör í því efni, sem þm. almennt gætu talið frambærileg. Hins vegar hafa komið hér fram í umr. mjög gild rök fyrir því, að það væri ástæða til þess, jafnvel þó að meiri hl. Alþ. ætli sér síðar meir að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, að fresta afgreiðslu málsins a. m. k. þangað til seint í janúarmánuði eða fram í febrúarmánuð, þegar þing kemur væntanlega aftur saman eftir jólaleyfið.

Að vísu kom það nú fram í síðari ræðu hv. þm. Str., að hann leitaðist lítillega við að svara þessum spurningum, en svör hans voru ekki á aðra lund en þá, að hann sagðist ekki sjá, að það skipti neinu máli, hvort alþm. tækju afstöðu til málsins nú eða síðar. Ég verð að segja, að í mínum augum skiptir það verulegu máli, hvort t. d. þær þjóðir, sem hér eiga mest undir, Þýzkaland og Frakkland, hafa áður samþykkt þá samninga á fullbindandi hátt, sem forustumenn þeirra hafa nú komið sér saman um að leggja þar fyrir þjóðþing, hvort þessar þjóðir hafa endanlega gengið frá staðfestingu samninganna eða hvort svo kann að fara síðar, að önnur hvor þessi þjóð á eftir að hafna samningunum og þeir þar af leiðandi ekki að ná fram að ganga. Ég er alveg viss um það, að nái þetta mál í framkvæmdinni aldrei fram að ganga, af því t. d. að Þýzkaland eða Frakkland hafnaði endanlegri staðfestingu, þá yrði samþykkt Íslands skoðuð svo, að við hefðum þó ekki hikað við það strax á þessu stigi málsins að lýsa því yfir, að við værum reiðubúnir að endurvopna Þýzkaland með öllum þeim afleiðingum, sem slík endurvopnun hlýtur að geta haft í för með sér. Við Íslendingar höfum nú þegar tekið upp nokkur viðskipti við báða hluta hins gamla Þýzkalands, bæði við Austur-Þýzkaland og eins við Vestur-Þýzkaland. Við eigum tiltölulega góð viðskipti við báða þessa landshluta, og það eru allmiklar líkur til þess, að viðskipti okkar við hið gamla Þýzkaland fari mjög vaxandi á næstu árum. Hitt dylst mér hins vegar ekki, að það er svo að segja sama, hvort rætt er við íbúa í Vestur-Þýzkalandi eða Austur-Þýzkalandi, að þeir eru nær undantekningarlaust á einu máli um það, að það, sem þeir þrá mest nú í dag, er sameining alls Þýzkalands. Eftir því óska þeir. Hins vegar játa það flestir menn, að verði horfið að því ráði að endurvopna Vestur-Þýzkaland, þá er mjög sennilegt, að af því leiði einnig verulega endurvopnun Austur-Þýzkalands, og allir möguleikar til þess að vinna áð sameiningu Þýzkalands í eina þjóð verða með því torveldaðir. Þeir menn, sem nú vilja stíga það örlagaríka skref að endurvopna Þýzkaland, hafa í rauninni gefizt upp í baráttunni við að yfirstíga þá erfiðleika, sem þarf að yfirstíga í þessu efni, og sameina allt Þýzkaland.

Það mun alltaf verða litið svo á, að við Íslendingar séum heldur litlir karlar í sambandi við hin stóru hernaðarmál og hervæðingu á milli þjóða. Mér finnst því full ástæða til þess, að einmitt þegar slík mál liggja fyrir förum við okkur hægt. Þá höfum við fulla ástæðu til þess að halda því fram, hvar sem er, að það hafi verið ástæða fyrir Íslendinga að bíða eftir því, að þeir, sem þessi mál skipta meira en okkur, hefðu þó sagt sitt lokaorð, áður en við færum að birta okkar samþykktir um málið.

Þetta vildi ég láta koma fram sem skoðun mína á því, að jafnvel þó að meiri hl. alþm. kunni að vera á þeirri skoðun, að það sé rétt að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, þá sé þó ástæða til þess fyrir þennan sama meiri hluta að fresta um sinn afgreiðslu þessa máls og sjá, hverju fram vindur í stjórnmálum Evrópu.

Mér þykir einnig full ástæða til að benda hér á það, að frá hálfu hæstv. ríkisstj. hefur þetta mál fengið hina einkennilegustu afgreiðslu, það sem komið er. Sáralitlar umræður hafa farið fram um þetta stórmál frá hálfu ríkisstj. Hæstv. utanrrh. talaði hér aðeins örfá orð, gaf sáralitlar skýringar á þessu stórmáli. Og síðan, eins og hér hefur verið upplýst í umræðunum, hefur hann horfið af landi brott, á meðan málið liggur hér fyrir til afgreiðslu. Formaður í utanrmn., sem um þetta mál fjallar, hefur líka horfið af landi brott og er hér ekki viðstaddur í sambandi við afgreiðslu málsins. Hæstv. ráðh. hafa lítið verið hér við þessar umræður og að sáralitlu leyti tekið þátt í umræðunum. Aðeins hæstv. fjmrh. sagði hér nokkur orð, þar sem hann mælti með framgangi málsins. Nú verður því væntanlega ekki haldið fram, að hér sé um neitt smámál að ræða, og af þeirri ástæðu væri því full ástæða til að búast við því, að ríkisstj. væri reiðubúin til að ræða málið og tefla fram sínum rökum, m. a. fyrir því, hvað það er, sem knýr hana til þess að hraða svona afgreiðslu málsins eins og hér virðist nú liggja fyrir.

Það fer ekki milli mála, að það mál, sem hér er raunverulega til umræðu, er nú eitt harðasta deilumálið, sem stjórnmálamenn í Evrópu deila um. Og þó að hér sé sagt, eins og hæstv. fjmrh. sagði, að jafnaðarmenn í ýmsum löndum, t. d. Bretlandi, Frakklandi og víðar, stæðu að þessu máli og vildu gjarnan taka á sig þá áhættu, sem fylgdi endurvopnun Vestur-Þýzkalands, þá veit hæstv. ráðh., að það er síður en svo, að jafnaðarmenn í þessum löndum séu sammála um þessa afstöðu. Harðar deilur í jafnaðarmannaflokkum þessara landa hafa verið uppi, og þar hefur munað sáralitlu um það, hvor armurinn hefur orðið sterkari, þegar þetta mál hefur legið fyrir til afgreiðslu. Og það er svo að enn þá er allt í fullkominni óvissu um það, hvort t. d. franska þingið samþykkir þessa samninga endanlega eða ekki. Það er enn þá meira að segja í fullkominni óvissu, hvort það tekst að fá þá samninga, sem hér er um að ræða, staðfesta í sjálfu þýzka þinginu. Því verður áreiðanlega ekki haldið fram með réttu, að þetta mál liggi einfaldlega fyrir mönnum í Vestur-Evrópu. Hitt er hið sanna, að þar eru uppi mjög skiptar skoðanir um málið, og margir, sem hafa látið til leiðast að fylgja málinu þó eftir, gera það sárnauðugir.

Í þessu efni minnist ég þess, að undanfarna mánuði hafa margir af þekktustu stjórnmálamönnum heimsins verið að lýsa því yfir í ræðum sínum, að þeir teldu að ófriðarhætta í heiminum væri minni nú en hún hefði verið um alllangan tíma áður. En einmitt þegar dregur úr ófriðarhættunni að dómi hinna reyndu stjórnmálamanna, einmitt um sama leyti sem við erum að heyra það, t. d. frá Dönum og víðar annars staðar að, að þeir séu að draga úr sínum hernaðarútgjöldum, af því að það sé nokkru friðvænlegra í heiminum, þá þykir nauðsynlegt að deila sem harðast um það, sem hefur verið eitt mesta ágreiningsefnið í þessum efnum, en það er að taka upp endurvopnun Þýzkalands. Ég vil undirstrika þetta, að einmitt á sama tíma sem þessir sömu merku stjórnmálamenn lýsa því yfir, að ófriðarhættan sé minni, er talin knýjandi nauðsyn að fara að endurvopna Vestur-Þýzkaland. Þetta skýtur, vægast sagt, mjög skökku við, og sýnist svo, að fyrst ástandið í þessum málum fer batnandi í heiminum, þá hefðu menn mátt una nokkuð við það, en ekki efna til þess, sem óneitanlega kallar enn fram aukna ófriðarhættu, því að yfirlýsingar að austan um það, að Austur-Þýzkaland verði vopnum búið gegn hervæðingunni í Vestur-Þýzkalandi, auka vitanlega stórum á ófriðarhættuna, en draga ekki úr henni.

Mér finnst það heldur kaldranalegt og kaldhæðið í sjálfu sér fyrir okkur Íslendinga að vera nú komnir það áleiðis í þessum málum, að eftir að búið er hér á Alþ. að samþykkja þátttöku Íslands í ýmsum samningum, sem um það leyti sem þeir hafa verið samþykktir hefur verið lýst yfir að væru mjög svo fjarri því að geta dregið Ísland á nokkurn hátt inn í ófrið eða hernaðarbandalög eða nokkuð þess háttar, hér værum við aðeins að standa með hinum friðelskandi þjóðum, — en afleiðingin af þessari þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og ýmsum fleiri samtökum er nú orðin sú, að hér á Alþingi Íslendinga erum við komnir inn í miðjar umræður um það. hvort við eigum að leggja okkar atkvæði fram um það að hervæða eina þjóð eða hvaða hernaðarlegar ráðstafanir við og það bandalag, sem við erum orðnir þátttakendur í, eigum að gera. Þetta er kannske fyrsta skrefið í þessa átt. Á eftir mun svo koma það, að fleiri og fleiri rísa hér upp og ræða um nauðsyn þess, að Ísland verði virkur aðili að beinum hernaðaraðgerðum.

Ég vil svo að endingu undirstrika það, sem átti að vera mitt meginmál í þessu, að ég er eindregið fylgjandi þeirri skoðun, sem hér hefur komið fram, að Alþ. ætti að fresta afgreiðslu þessa máls a. m. k. um sinn.